Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

mánudagur, 25. nóvember 2013

Þorskur í indverskum kryddhjúp

Ég er mjög hrifin af fiski en einhverra hluta vegna elda ég hann allt of sjaldan. Ég er kannski af þeirri kynslóð sem fúlsar aðeins of auðveldlega við soðningu með kartöflum og feiti en hef lært að meta þann þjóðlega rétt eftir því sem ég eldist.

Mér finnst indverskur matur mjög góður og flest allt sem eldað er undir þeim áhrifum. Í þessum rétti má alveg finna indverskan keim þó hann heiti nú ekki eitthvað töff eins og Tikka Masala blablabla eða Tandoori blablabla fiskur.


Þetta eru ljúffeng þorskstykki hjúpuð með einfaldri kryddblöndu og hentar einkar vel á köldum, dimmum og blautum mánudögum sem þessum.

Innihald:

600gr þorskur skorinn í bita (má alveg nota ýsu)
1 tsk bragðlaus kókosolía
1 laukur
4 hvítlauksrif (eða næstum einn heill geiralaus)
1 lítil dós tómatpúrra
1 dl AB mjólk
3/4 dl Matreiðslurjómi
1 tsk túrmerik
1 tsk cummin
1/2 tsk kóríander
1/2 tsk kardimommur
1 msk sítrónusafi
1/2 tsk sykur
50gr afhýddar möndlur saxaðar
1/2 dl rúsínur

Saxið lauk og hvítlauk mjög smátt, ég notaði pínulitla handhæga matvinnsluvél sem ég gersamlega elska. Setjið kókosolíuna á pönnu og hitið, bætið lauk og hvítlauk út á pönnuna. Steikið við miðlungshita og þegar laukurinn er orðinn mjúkur og glær, bætið þá við kryddunum, möndlum og rúsínum út á pönnuna og steikið áfram í örfáar mínútur. Setjið því næst AB mjólk, matreiðslurjóma og tómatpúrru út á pönnuna og sjóðið aðeins niður. Að síðustu bætið sítrónusafa og sykri út í og mallið áfram í 1 mín eða svo.
Þessi litli sykur og sítrónusafinn gera mjög mikið fyrir réttinn og mæli ekki með því að freistast til að sleppa því. Rúsínurnar finnst mér og manninum persónulega algert möst en þið sem eruð í "hatarúsínur" deildinni megið auðvitað sleppa þeim :)

Setjið fiskinn í ofnfast mót og kryddblönduna yfir. Bakið við 180°c þangað til hjúpurinn er farinn að brúnast. Þetta er misjafnt eftir ofnum en passa þarf að elda fiskinn ekki of mikið, annars verður hann þurr og leiðinlegur.
Berið fram með salati, kartöflum og naanbrauði. Auðvitað er fínt að hafa hrísgrjón í stað þess að vera með kartöflur en persónulega er ég hrifnari af kartöflunum. (Og salatið var búið... en það er mjög gott að hafa það með)

P.s Afsakið þessa hræðilegu mynd, myndavélin á símanum er bara hreint ekkert sérstök.

sunnudagur, 17. nóvember 2013

Gulrótamúffur með rúsínum og kókos


Þessar eru ofsalega góðar, aðeins í hollari kantinum, enginn hvítur sykur og heilhveiti og spelt í stað hvíts hveitis. Í þeim er líka grænmeti og fræ svo þetta getur bara ekki klikkað!

Ég var ekkert að taka myndir af ferlinu enda er það ekkert sérlega flókið.

Uppskriftin varð til við að skella allskonar hráefni saman sem ég átti til heima hjá mér, það er ekkert óvanaleg aðferð í mínu eldhúsi en ég var fljót að skrifa niður uppskriftina áður en ég gleymdi henni, það er hinsvegar eitthvað sem ég geri mikið sjaldnar...

Uppskriftin virðist við fyrstu sýn stórt og mikið vesen vegna allra innihaldsefnanna, en látið það ekki fæla ykkur frá, þetta er ekkert svo mikið og alveg þess virði!

1 bolli heilhveiti
1 bollli fínt spelt
1 1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
1/4 tsk salt
2 stórar gulrætur rifnar
1/3 bolli kókosmjöl
2 msk hörfræ
1/3 bolli rúsínur
1/2 bolli sukrin (eða xylitol/erythritol)
1/2 bolli kókospálmasykur
40 dropar Via Vanillusteviu dropar
2 stór egg
2 tsk vanillu essenvce eða dropar
1/2 bolli fljótandi kókosolía (eða ljós grænmetisolía)
Rúmlega 1/2 bolli AB mjólk eða súrmjólk
1/2 bolli Heitt vatn (ef þarf)
Smá kókosmjöl til þess að strá yfir.

Blandið saman þurrefnum í stóra skál ásamt gulrótum, rúsínum, fræjum og kókos.
Þeytið saman í minni skál, eggin, olíuna, pálmasykur, sukrin og stevíuna, hellið út í þurrefnin og byrjið aðeins að hræra í með sleif, hellið AB mjólkinni út í, (þetta var óttalegt slump), setjið vatnið út í ef deigið er ennþá frekar þurrt, passið að hræra ekki of mikið í deiginu, hætta að hræra um leið og það er vel blandað saman og orðið þykkt samfellt deig.
Skiptið í 12 sílíkon muffins form og bakið við 175°c í 20-22 mín. Fer þó eftir ofnum, fylgist bara vel með kökunum. Ég fylli formin næstum alveg, þannig kemur fallegur toppur á kökurnar, stráið svo kókosmjöli yfir áður en sett inn í ofn.

Ekta til þess að taka með sér í nesti, eða í brunchinn, fyrir sunnudagskaffið...

fimmtudagur, 14. nóvember 2013

Juicy Lucy - Ostafylltur hamborgari

2 ár síðan ég bloggaði síðast, hef þó verið að nota Facebook töluvert, þessa síðu hér : Eldhús Völlu.
Það er bara alls ekki það sama. Kemur þessu bara ekki alveg nægilega vel til skila, erfitt pósta almennilegum myndum og erfitt að leita að uppskriftum. Ætla því að láta facebook síðuna styðja frekar við þessa eins og upphaflega planið var.

Ég ætla að endurpósta einni af uppáhalds subbumats uppskriftunum mínum. Ég er ekki lengur mikið fyrir að kaupa skyndimat því ég er bara einfaldlega að gera miklu betri mat heima hjá mér fyrir brot af þeirri upphæð sem ég hefði annars eytt.Þetta er hamborgari. Já, ég er hamborgaradrottning.

Hann er ósköp venjulegur á að líta og innihaldið er ósköp klassískt líka. EN, hvað gerist þegar osturinn er tekinn ofan af borgaranum og settur inn í? Jú, þetta er fullkomnun!

Ég á bara myndir af honum tilbúnum og þetta eru vondar myndir, en ég þarf svosem ekkert að útskýra þetta neitt frekar.
Takið 2x 90gr hamborgara, og leggið á bretti, takið svo eina ostsneið (svona fyrirfram sneidda í bakka) og skerið í fernt. Leggið í miðjuna á annan borgarann, leggið hinn yfir og þéttið kantana vel, mjög mikilvægt að það sé vel gert.
Grillið borgarana helst en annars er vel hægt að steikja þá á grillpönnu. Mæli með að stinga prjóni í miðjan borgarann þegar búið er að snúa, svona aðeins til að hleypa gufunni út.
Látið borgarann hvílast aðeins svo bráðni osturinn leki ekki út um allar trissur!

Ég mæli svo með sesamlausum hamborgarabrauðum frá Breiðholtsbakaríi, og amerísku meðlæti og sósum, s.s majó, tómatsósu og sinnepi, salati, lauk, tómötum og súrum gúrkum. En auðvitað er það valkvætt eins og allt annað :)

Gleðilega helgi!

P.s mæli með því að hafa einn ansi kaldan með :)
 Frekar subbulegt...