Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

mánudagur, 21. júlí 2014

Jarðarberja ískrap - Uppáhalds sumardrykkurinn minn!


Þennan drykk gæti ég líklega drukkið alla daga, í öll mál. Hann er ótrúlega ferskur og hollur en umfram allt algert sælgæti. Hann færir auk þess birtu í hjartað á manni á þessum rigningartímum, hann er nefnilega líka svo fallegur á litinn! Sé líka alveg fyrir mér að það sé ekkert verra að setja eitthvað pínu sterkt út í hann á heitu sumarkvöldi, nú eða bara köldu rigningarkvöldi. Hvort sem er, verður maður örlítið hamingjusamur eftir eitt stór glas af þessum. C vítamín, fólinsýra, potassium (gott fyrir blóðþrýstinginn) trefjar ofl. ofl gott fyrir mann í þessu! 

Þú þarft að eiga þokkalegan blandara sem ræður við klaka og/eða frosna ávexti og þá ertu bara good to go.

Til þess að gera um það bil hálfan líter af þessum unaði þarftu eftirfarandi og athugið, magnið er ekkert heilagt, það má smakka til fram og til baka.

2 bollar frosin jarðarber, jafnvel meira
1 epli, afhýtt og í bitum
5+ stór fersk myntublöð
2-3cm bútur af ferskum engifer
2 dl kalt vatn (meira ef þarf)
1 dl sykurlaus eplasvali (má sleppa og setja meira vatn)


Setjið allt saman í blandarann og látið hann vinna vel, endilega smakkið til. Ég vil t.d hafa mikla myntu í mínum svo það má alveg bæta í. 
Skál!

sunnudagur, 20. júlí 2014

Svartbauna og hýðishrísgrjónaborgarar - VeganÉg gerði þessa borgara fyrst fyrir örfáum mánuðum síðan. Fann uppskrift á netinu sem í var rasp, egg ofl. Þeir voru mjög góðir en langaði að prófa að gera þá aftur með hýðishrísgrjónum og sleppa eggi og breyta aðeins kryddum. Fyrir vikið verða þeir vegan eða án dýraafurða. Ég borða alveg dýraafurðir en eins og ég segi í færslunni á undan, þá er bara fínt að prófa eitthvað annað stundum.
Þetta er ódýr og bragðgóður matur, og að setja þessa borgara í gróft brauð með fullt af grænmeti og góðri sósu er pottþéttur og mettandi kvöldmatur.

Aðferðin er sú sama og ég notaði við þessi kjúklingabaunabuff en innihaldsefnin ansi ólík. Fyrir grænmetisætur er þetta frábær kostur í stað hamborgara!

Í borgarana þarftu:

3 bolla af soðnum svörtum baunum. (bæði hægt að sjóða sjálfur eða kaupa í dós)
2 bolla af basmati hýðishrísgrjónum
4 tsk dijon sinnep
2 tsk laukduft
2 tsk paprikuduft
1 tsk hvítlaukssalt
2 msk þurrkuð steinselja
pipar og salt eftir smekk (finnst gott að setja vel af pipar)

Rasp:
smá spelt, smá sesamfræ

Ef þið viljið krydda meira eða minna, þá er það allt í fínu. Það góða við þetta er að það er hægt að smakka til svona borgara áður en þeir eru steiktir. Maður er auðvitað ekki vanur því með kjötborgara ;)
Mótið buff, setjið þá í rasp og kælið í minnst hálftíma.
Steikið upp úr jurtaolíu og leggið á pappír til að taka umfram olíu. Þessa borgara er mjög gott að frysta.
Verði ykkur að góðu!