Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

laugardagur, 28. júní 2014

Gulróta og ávaxtakaka

Líklega ógirnilegasta kökumynd sem hefur birst á bloggi en það kemur ekki að sök er það? Ég hef alltaf verið mikið fyrir gulrótakökur en finnst voðalega fínt að geta sleppt öllum þessum hvíta sykri. Ó trúið mér, ég er bara almennt mikið fyrir kökur og bakkelsi en það hefur þann leiða eiginleika að vera yfirleitt dísætt og það er bara ekkert gott fyrir neinn. Allt í lagi spari og allt það en ég er rosa hrifin af því að nota allskonar ávexti í staðinn. Ekki verra að fá smá næringu með!

Þessi er frekar matarmikil, gæti alveg verið fín sem morgunmatur, svo holl er hún ;)

Innihald:
2 stórar gulrætur rifnar
1 epli rifið
1 þroskaður banani
9 ferskar döðlur saxaðar
1 dl rúsínur
2 dl haframjöl
2 dl fínt spelt
1 msk lyftiduft
1 tsk kanill
1/2 tsk salt
2 egg
1/3 dl kókospálmasykur
2 tsk vanilludropar
1/2 dl jurtaolía eða bragðlaus kókosolía

Kremið:
6 ferskar döðlur
50gr mjög mjúkt smjör
4 msk rjómaostur
1 tsk vanilludropar
3 sprautur vanillu stevia frá Via health
2 msk sukrin
nokkrir dropar sítrónusafi

Byrjið á því að rífa gulræturnar og eplið og setjið til hliðar. Hitið svo ofninn í 175°C. Stappið bananann í stórri skál og bætið út í hana eggjunum, vanilludropum og olíu og pískið vel. Saxið döðlurnar vel og pískið þær út í eggjablönduna. Bætið því næst þurrefnum, gulrótunum, eplinu og rúsínunum út í og hrærið varlega í með sleif.
Setjið í smurt hringlaga form og bakið í ca 25mín, fer eftir ofnum.

Fyrir kremið þarf fyrst að steinhreinsa döðlurnar, setja þær í lítinn mixer ásamt smjöri og vanilludropum, bætið rjómaosti við, sukrin, stevíu og sítrónusafa og mixið áfram. Gott að skafa niður hliðarnar með sleikju á milli. Færið svo blönduna í skál og þeytið með handþeytara nokkuð vel. Þið getið svo smakkað kremið til, ef ykkur finnst það ekki nógu sætt er hægt að bæta aðeins sukrin eða stevíu við.fimmtudagur, 26. júní 2014

Tvöfaldar bananarjómapönnukökur


Ó dear, þessar eru algert æði. Ótrúlega einfaldar, doltið hollar, sykurlausar.. ekkert vesen! Allt í lagi, það er náttúrulega ávaxtasykur úr bönununum og smá kókospálmasykur en það er ekki hvítur sykur og ekki eins vondur fyrir mann.
Ég hef alltaf verið hrifin af því að baka með bönunum og svona "amerískar" pönnukökur hafa alltaf verið í uppáhaldi. Bættu við rjóma, meiri bönunum ofaná (og jarðarberjum ef þú átt) og þá erum við algerlega að tala saman! Ég gleymdi að setja kókosolíuna út í í dag og það kom bara alls ekki að sök.

Þessar dúllur innihalda svo lítið sem:

1 þroskaður banani í stærra lagi eða tveir litlir
2 egg
1.25 dl fínmalað spelt
1/4 tsk salt
2 tsk lyftiduft
 1/2 - 1 msk kókospálmasykur (má sleppa)
2 msk nýmjólk (eða önnur mjólk fyrir mjólkurofnæmispésa)
1 msk kókosolía (má líka sleppa)
1 tsk vanilludropar

Byrjið á því að stappa bananann í skál með gaffli, bætið vanilludropum og eggjum út í og pískið vel. Bætið þurrefnum út í og hrærið varlega þar til allt er blandað saman. Ef þörf er á mjólk þá má bæta henni hér út í, einnig olíunni ef þið viljið. Þær verða örlítið þurrari án olíunnar en samt ekki svo, bananinn bætir það upp að mestu.

Bakið pönnukökurnar á góðri teflonpönnu við miðlungshita. Frekar hafa minni hita en meiri svo þær brenni ekki og verði hráar inn í, þolinmæði er lykillinn! Ég fæ svona 6-7 góðar pönnukökur úr þessari uppskrift, verða þykkar og fínar.
Mér finnst best að njóta þeirra með góðum kaffibolla :)


miðvikudagur, 25. júní 2014

Kjúklingabauna og gulrótabuff

Kjúklingabaunabuff


Þó ég sé kjötæta og finnist vel eldað kjöt virkilega gott finnst mér líka ofsalega gott að borða bauna og grænmetisbuff inn á milli. Eiginlega bara nauðsynlegt. Vil hafa smá fjölbreytni í lífinu. Vel kryddaður (ekki endilega sterkur en bragðmikill) grænmetismatur er með því besta sem ég veit.
Ég er til dæmis mjög hrifin af öllu sem ég hef smakkað af Gló og einn besti hátíðamatur sem ég hef bragðað er hnetusteik með tilheyrandi sósu frá Grænum kosti (svo góð að hún verður með næstu jól!).

Það er ódýrt að gera svona buff, eiginlega svo ódýrt og einfalt að maður ætti að gera þetta reglulega og eiga í frysti. Verð út úr búð er í engum takti við hráefniskostnað. Ég er bara of nísk til þess að eyða í eitthvað sem ég get gert sjálf og oftast er þetta heimatilbúna betra.

Ég studdist við uppskrift úr gömlu Sollu Hagkaupsbókinni, sumt af hráefnunum átti ég ekki til og ekki hrifin af öðrum. Einnig breytir engu hvort maður notar kjúklingabaunir úr dós eða leggur í bleyti og sýður sjálfur.

Í þessi buff þarftu eftirfarandi:

6dl kjúklingabaunir
4 kartöflur í stærrikantinum eða 2 bökunarkartöflur
1 stór gulrót, rifin á fínu rifjárni
4 msk kartöflumjöl
2 msk karrý
1 tsk kóríander þurrkað
3 hvítlauksrif maukuð
1 tsk paprikuduft
2 msk þurrkuð steinselja
salt og pipar eftir smekk
smá klípa chiliduft (má sleppa)

Rasp:
Smá fínt spelt
Smá kornmjöl (eða bara spelt ef þið eigið það ekki)
Sesamfræ

Ef þið notið þurrkaðar baunir, þarf að leggja þær í bleyti í 12-18 tíma deginum áður. Sjóða þær svo í 1 1/2 tíma og kæla. Einnig er mjög fínt að nota niðursoðnar baunir.
Setjð baunirnar í skál og stappið með kartöflustöppu. Bætið svo kartöflum út í og stappið meira. Setjið svo allt hitt út í skálinu og hnoðið með höndunum (ég nota einnota hanska, finnst það betra útaf litnum í kryddunum).
Mótið buff, stærðin er ekkert heilög en ég fékk 12-14 buff útúr þessari uppskrift. Tók ca. lúku af maukinu, geri fyrst kúlu og móta svo buffið.
Set það út í raspið. Nauðsynlegt er að kæla buffin í svona hálftíma áður en þau eru steikt. Ég setti þau bara öll á stórt bretti og geymdi þau þannig í ísskápnum.
Steikti þau upp úr blöndu af kókos og jurtaolíu. Setti þau svo á pappír á disk til þess að draga aðeins í sig umfram olíu.
Svo er bara að njóta strax eða kæla niður og setja beint í frysti.


Buffin komin á pönnuna


Tilbúin!


mánudagur, 23. júní 2014

Sumarleg sítrónuterta með jarðarberjum


Játningar sítrónusjúklings.
Ég elska allt sem heitir sítrónu eitthvað. Skiptir ekki máli hvað það er, en þessi kaka og lemon curdið hérna neðar er alveg í topp 5 yfir ómótstæðilegt sítrónugúmmelaði!
Hún er rosa fín í 2 22cm smelluform og krem á milli en mér finnst alltaf eitthvað svo girnilegt að borða "skúffukökur" sem eru ekki súkkulaðikökur.
Setti þessa því í venjulegt skúffukökuform (æji svona með loki, fæst á mörgum stöðum).

Í þessa köku þarf eftirfarandi hráefni:

2 bolla hveiti
1/2 tsk salt
3 tsk lyftiduft
1 1/2 bolli sykur
3 lítil egg (eða 2 stór)
1/2 bolli mjólk
1/2 bolli nýkreistur sítrónusafi
1/2 bolli jurtaolía (eða bráðið smjör)
1 1/2 msk rifinn sítrónubörkur (passa að taka ekkert af þessu hvíta með)
Gulur matarlitur ef vill, ég setti smá.

Krem:
100gr mjúkt smjör
250gr flórsykur
2 msk sítrónusafi
1 msk rifinn sítrónubörkur
1 tsk vanilludropar

Sigtið og blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál og í annari minni byrjið þið á að þeyta eggin vel saman, hrærið svo restinni af blautefnum + sítrónuberki saman við eggin. Gerið holu í þurrefnablönduna og blandið varlega saman með sleikju.
Bakið við 175°c í 25 - 30 mínútur, fer eftir ofnum.
Kremið: Blandið öllu saman í skál og þeytið mjög vel. Þið sjáið kremið hvítna eftir því sem þið þeytið lengur, gott að hafa það vel flöffí.
Skreytt eftir smekk með jarðarberjum eða einhverju sumarlegu skrauti.Rigatoni Bolognese með beikoni, balsamic ediki og cheddar

Ég gerði matseðil í gærkvöldi og ákvað að hafa í dag einhvern einfaldan pastarétt. Átti hakk og rigatoni pasta. Fór og gúgglaði allskonar hugmyndir og þetta er útkoman. Alveg ótrúlega góður þó ég segi sjálf frá og sérstaklega þegar maður tekur mið að því að þetta var "taka til í skápnum". En svoleiðis eldamennska finnst mér alltaf svo skemmtileg, þá er einhver áskorun í gangi og finnst eins og ég sé að keppa í matreiðsluþætti þar sem maður fær nokkur furðuleg hráefni og það er ætlast til þess að maður kokki upp eitthvað stórkostleg úr því. 
Þetta er s.s það sem ég legg til í þessa keppni:

500gr nautahakk
9 stórar sneiðar af beikoni (gramma fjöldi óræður) skorið í bita
2 sellerí stilkar saxaður
125gr sveppir saxaðir
1 laukur saxaður 
2 gulrætur skornar í bita
2 hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar í bitum
1 lítil dós tómatpúrra
2 msk balsamic edik
400 ml nautasoð (eða sjóðandi vatn og 2 teningar)
1 bolli rifinn cheddar ostur (má sleppa eða nota venjulegan rifinn ost)
Salt og pipar eftir smekk
500gr Rigatoni pasta
Steikið grænmetið í 2-3 mínútur, ekki brúna. Takið það til hliðar og steikið þá beikonbitana, bætið hakkinu ofan á þá og steikið þar til það er næstum gegnum steikt.

Bætið soði, tómötum, tómatpúrru, balsamediki, og grænmetinu út á pönnuna og látið malla. Smakkið til með salti og pipar.

Þetta mun líta einhvernveginn svona út. Samt ekki nauðsynlegt. 

Svo sýður maður pastað al dente en ég nennti ekkert að taka mynd af því.
Hellir soðinu af og skúbbar innihaldinu af pönnunni út í pottinn, osturinn ofan á og hrært ofurvarlega, pastað er nefnilega svolítið viðkvæmt. Það væri líka þjóðráð að hafa þetta allt í sitthvoru lagi. Bera pastað fram sér. Og strá ostinum yfir kjötsósuna rétt áður en þetta er borið fram.

Cheddar ostur er algerlega lífið!

Skúbba fullt af parmesan ofan á (setti sko mikið meira eftir að ég tók myndina, vildi að þið sæuð pastað!)

Ég var með salat með þessu, en það er líka fínt að hafa hvítlauksbrauð og kannski ferska saxaða basiliku. Sem ég gleymdi, á hana í potti en græðgin er svo mikil...