Kjúklingabauna og gulrótabuff

Kjúklingabaunabuff


Þó ég sé kjötæta og finnist vel eldað kjöt virkilega gott finnst mér líka ofsalega gott að borða bauna og grænmetisbuff inn á milli. Eiginlega bara nauðsynlegt. Vil hafa smá fjölbreytni í lífinu. Vel kryddaður (ekki endilega sterkur en bragðmikill) grænmetismatur er með því besta sem ég veit.
Ég er til dæmis mjög hrifin af öllu sem ég hef smakkað af Gló og einn besti hátíðamatur sem ég hef bragðað er hnetusteik með tilheyrandi sósu frá Grænum kosti (svo góð að hún verður með næstu jól!).

Það er ódýrt að gera svona buff, eiginlega svo ódýrt og einfalt að maður ætti að gera þetta reglulega og eiga í frysti. Verð út úr búð er í engum takti við hráefniskostnað. Ég er bara of nísk til þess að eyða í eitthvað sem ég get gert sjálf og oftast er þetta heimatilbúna betra.

Ég studdist við uppskrift úr gömlu Sollu Hagkaupsbókinni, sumt af hráefnunum átti ég ekki til og ekki hrifin af öðrum. Einnig breytir engu hvort maður notar kjúklingabaunir úr dós eða leggur í bleyti og sýður sjálfur.

Í þessi buff þarftu eftirfarandi:

6dl kjúklingabaunir
4 kartöflur í stærrikantinum eða 2 bökunarkartöflur
1 stór gulrót, rifin á fínu rifjárni
4 msk kartöflumjöl
2 msk karrý
1 tsk kóríander þurrkað
3 hvítlauksrif maukuð
1 tsk paprikuduft
2 msk þurrkuð steinselja
salt og pipar eftir smekk
smá klípa chiliduft (má sleppa)

Rasp:
Smá fínt spelt
Smá kornmjöl (eða bara spelt ef þið eigið það ekki)
Sesamfræ

Ef þið notið þurrkaðar baunir, þarf að leggja þær í bleyti í 12-18 tíma deginum áður. Sjóða þær svo í 1 1/2 tíma og kæla. Einnig er mjög fínt að nota niðursoðnar baunir.
Setjð baunirnar í skál og stappið með kartöflustöppu. Bætið svo kartöflum út í og stappið meira. Setjið svo allt hitt út í skálinu og hnoðið með höndunum (ég nota einnota hanska, finnst það betra útaf litnum í kryddunum).
Mótið buff, stærðin er ekkert heilög en ég fékk 12-14 buff útúr þessari uppskrift. Tók ca. lúku af maukinu, geri fyrst kúlu og móta svo buffið.
Set það út í raspið. Nauðsynlegt er að kæla buffin í svona hálftíma áður en þau eru steikt. Ég setti þau bara öll á stórt bretti og geymdi þau þannig í ísskápnum.
Steikti þau upp úr blöndu af kókos og jurtaolíu. Setti þau svo á pappír á disk til þess að draga aðeins í sig umfram olíu.
Svo er bara að njóta strax eða kæla niður og setja beint í frysti.


Buffin komin á pönnuna


Tilbúin!


Ummæli

Vinsælar færslur