Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

mánudagur, 10. apríl 2017

Dásamlegar glútenlausar vöfflur

Glútennæmi og glútenóþol er eitthvað sem virðist fara vaxandi og því fer þeim fjölgandi sem þurfa að velja glútenlausa kosti. Í matvöruverslunum hérlendis fer úrvalið sístækkandi og flytur Kornax til dæmis inn alveg stórgóð glútenlaus brauðmix frá Finax.

Ég hef alltaf verið alveg ofboðslega mikil vöfflu kona og baka þær líklega nokkrum sinnum í viku. Sér í lagi svona í fæðingarorlofinu. Mér finnst best ef áferðin á þeim er frekar stökk og þær mýkri inní, einnig finnst mér gott ef þær eru aðeins í dekkri kantinum. Nú bjóst ég alls ekki við því að þessi áferð gæti fengist með glútenfría brauðmixinu en vá, þetta kom stórkostlega á óvart. Þær voru jafnvel bara betri en þær sem ég geri með venjulegu hveiti. Svo stökkar en samt mjúkar, virkilega bragðgóðar.

Þetta mix er alveg frábær kostur og ég hlakka bara til að prófa mig áfram með það í fleiri uppskriftir.

Deigið:

5dl Fínt brauðmix frá Finax (Kornax)
2 tsk vínsteins lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 msk vanillusykur
1/2 tsk salt
3 egg
1 dl ab mjólk
1 dl olía
3-4 dl mjólk

Blandið saman þurrefnum í skál, setjið eggin, ab mjólkina og olíuna því næst saman við auk smá slettu af mjólk og hrærið í miðjunni. Bætið við mjólkinni smám saman þar til þið eruð búin að setja ca. 3 dl saman við og látið deigið þá bíða í ca. 5 mínútur. Deigið þykknar þegar það er látið bíða og gott að bæta smá mjólk við til viðbótar.
Þessi uppskrift gaf minnir mig um 10 frekar stórar vöfflur.
Ég eeeelska að setja Nutella og smá rjómaslettur á mínar en þær eru auðvitað góðar með öllu.
Þær eru örugglega líka fínar í stað brauðs og þá má bara sleppa vanillusykrinum og setja bara smjör og ost til dæmis.
föstudagur, 31. mars 2017

Frönsk súkkulaðikaka með þristakremi


Fyrir nokkrum árum fékk ég uppskrift af svipaðri köku en týndi henni í öllu uppskriftaúrklippu flóðinu. Ég man að þau sem fengu að bragða á henni voru öll stórhrifin og sögðu þetta vera skemmtilegt tvist á þessa klassísku köku.

Nú er ég nýbyrjuð í fæðingarorlofi og á sem betur fer ansi vært barn (eins og þetta eldra, byrjaði með þetta blogg í því orlofi) sem leyfir mér að dúllast aðeins í eldhúsinu þegar hann sefur.
Snemma í maí munum við skíra nýju viðbótina og þá er ekki úr vegi að draga upp gamlar uppskriftir og endurgera eftir minni. Mér finnst ansi gott að hafa tímann fyrir mér því ég elska að baka fyrir veislur og auðvitað verður hver terta að vera algjörlega skotheld. Held að það sé óhætt að segja að þessi sé ein af þeim.

Í kökuna sjálfa fer þetta:

4 egg
2dl sykur
1dl Kornax hveiti
100gr 70% súkkulaði
100gr suðusúkkulaði
200gr smjör

Þristakrem
1 poki litlir þristar
3 msk rjómi (má setja smá slettu í viðbót ef það reynist erfitt að bræða þristana)

Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C og blástur
Setjið eggin og sykurinn í skál og þeytið mjög vel þar til blandan er orðin létt og ljós.
Bræðið smjörið á vægum hita í potti og bætið súkkulaðinu saman við. Bræðið saman en passið að brenna ekki. Kælið aðeins.
Sigtið hveitið út í eggjablönduna og blandið saman við með sleikju. Látið þvínæst súkkulaðiblönduna útí í mjórri bunu og hrærið varlega með sleikjunni svo loftið fari ekki úr deiginu.
Hellið í vel smurt bökuform, tertuform eða eldfast mót í stærri kantinum og bakið í 30 mín.

Á meðan kakan bakast er gott að skera þristana í bita, setja í lítinn pott ásamt rjómanum og bræða saman rólega. Þegar allt er bráðið saman (athugið að lakkrísinn bráðnar ekki), takið þá pottinn af hellunni. Þegar kakan er tilbúin, kælið hana í nokkrar mínútur áður en kreminu er dreift yfir.

Ég bar fram með henni söxuð jarðarber og rjóma, en það er örugglega líka mjög gott að hafa vanilluís með.
Njótið!

sunnudagur, 27. nóvember 2016

Lang bestu piparkökurnar

Piparkökubaksturinn í fullum gangi hér og Star Wars kallinn auðvitað með. Myndgæði mættu þó vera betri en hér var komið myrkur og eldhúsljósið varð látið duga...Í mörg ár hef ég byrjað aðventuna á því að gúggla piparkökuuppskriftir. Hef aldrei verið nógu sátt, annað hvort of harðar eða of mjúkar, bragðlausar eða bara eitthvað við þær sem mér líkar ekki við.
Þangað til fyrir svona 2-3 árum sem ég rakst á uppskrift sem mig minnir að sé frá Kötlu en er bara ekki alveg 100% viss. Í fyrra var ég svo sniðug að skrifa uppskriftina inn í uppskriftabók sem ég handskrifa svona "best of the best" uppskriftir og mun hún verða þar að eilífu.

Þessi uppskrift sameinar allt sem mér finnst að piparkökur ættu að hafa, stökkar en ekki grjótharðar, í dekkri kantinum og mjög bragðmiklar án þess að það sé samt yfirgnæfandi kryddbragð.

Þegar þú hefur prófað þessa skiluru hvað ég á við. Mæli með því að prenta hana út og geyma eða skrifa hana í "bókina" þína ef þú átt svona þreytta handskrifaða uppskriftabók eins og ég.
Eins og með flestar uppskriftir er best að gera daginn áður og geyma í kæli þangað til daginn eftir.
Einnig er mjög mikilvægt að taka deigið útúr ísskápnum eða inn af svölunum/garðinum með nokkurra tíma fyrirvara svo deigið sé ekki alveg grjóthart og ómögulegt þegar á að fara að fletja út.

Uppskriftin er semsagt þessi:

500gr Kornax hveiti
250gr sykur
180gr smjör (upprunalega uppskriftin biður um smjörlíki en ég nota það helst aldrei)
2 tsk matarsódi
2 tsk negull
2 tsk engifer
1/2 tsk hvítur pipar
4 tsk kanill
1 dl sírópið í grænu dollunum
1 dl mjólk

Setjið smjörið og sírópið saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Þegar blandan er alveg að verða bráðin setjið þá allt krydd út í og hrærið saman. Takið af hellunni og setjið önnur þurrefni saman í hrærivélaskál. Notið krókinn og hellið sírópskryddblöndunni út í ásamt mjólk. Hrærið vel saman þangað til deigið er orðið samfellt og slétt. Setjið plast yfir skálina og kælið yfir nótt eins og áður sagði. Munið að taka deigið svo út með góðum fyrirvara.
Fletjið deigið frekar þunnt út þar sem það blæs svolítið upp.
Bakið við 195°C í ca. 6-7 mín. Kælið svo á grind og skreytið með glassúr ef vill.
Persónulega finnst mér þær eiginlega bestar án glassúrs en það er auðvitað bara smekksatriði eins og hvað annað.

Þú munt aldrei þurfa að leita að piparkökuuppskrift aftur...
Gleðilega aðventu kæru vinir!sunnudagur, 14. ágúst 2016

Bragðmikil Tælensk Kjúklinga-núðlusúpa

Ég er í einhverri afneitun um að haustið sé á leiðinni. Finnst eins og það sé farið að kólna og skólinn bíður mín handan við hornið. Til þess að staðfesta endanlega þennan grun minn um að sumri sé farið að halla er ég komin með brjálæðislega mikið kvef og þurfti því eitthvað heitt og sterkt til þess að reka út þessa kvef-anda!

Sko, mig langaði rosalega í núðlusúpu af Noodle Station en þeir staðir eru bara svo langt frá mér að ég hafði ekki þrek í að keyra alla leiðina þangað. Ég gúgglaði því bara allskonar uppskriftir og blandaði saman nokkrum með tilliti til hvað ég ætti í ísskápnum. Ég á yfirleitt alltaf til allskonar dósir og krukkur (ég er hirðingi þegar kemur að mat, ég viðurkenni það. Alltaf eins og það sé von á styrjöld eða hungursneyð heima hjá mér...) Sumt endist reyndar mjög lengi í ísskáp og ég get varla lifað án þess að eiga til t.d hvítlauk, kókosmjólk, engifer, kryddmauk ofl. slíkt. Og nú kom það sér svo sannarlega vel.

Það tók ekkert voða langan tíma að græja þessa súpu, lítur eiginlega út fyrir að vera töluvert flóknari en hún raunverulega er vegna þessa langa innihaldslista.

2 geiralausir hvítlaukar (þessir voru frekar litlir, eða 1 1/2 stórir), smátt saxaður
2-3 cm bútur engifer, smátt saxaður
1 rauður chili, fræhreinsaður.
10 cm bútur blaðlaukur skorinn í sneiðar
4 meðalstórar gulrætur, skornar í steniðar
2 skallottulaukar, smátt saxaðir
2 tsk kókosolía
1 l. Kjúklingasoð (eða 1 l. vatn og 3 kjúklingateningar)
2 dósir kókosmjólk (full fat)
1-2 msk rautt karrímauk (magn eftir smekk, er frekar sterkt - ég sett meira en minna núna)
2 msk asísk fiskisósa
safi úr einni límónu (lime)
2 tsk púðursykur
4 kjúklingabringur eldaðar, skornar í bita, einnig hægt að rífa kjöt af heilum kjúkling.
Hrígrjónanúðlur eftir smekk
1 tsk túrmerik
1 tsk kóríender duft (má líka saxa vel af ferskum kóríander ef hann er til)

Söxuð fersk steinselja
Saxaður vorlaukur

Saxið grænmetið og steikið uppúr kókosolíunni. Hellið soði eða vatni og teningum út í og kókosmjólk. Setjið allt krydd saman við og látið malla góða stund. Steikið bringur á meðan og skerið í bita og setjið út í.
Sjóðið núðlur samkvæmt leiðbeiningum, setjið skammt eftir smekk í djúpan disk, súpu þar yfir og skreytið ef vill með ferskri steinselju og söxuðum vorlauk.
Þessi er algjört dúndur og virkar þvílíkt vel á flensu og kvef!

Það er alveg hægt að stilla styrkleikann af með karrímaukinu og rauða chiliinu. Það má alveg sleppa því nú eða bara bæta við fyrir aukinn styrk.

Verði ykkur að góðu og gleðilegt haust!


þriðjudagur, 14. júní 2016

Myntu krókant rice krispies terta
Þessi sko! Þetta er alveg fullkomin blanda fyrir myntu og rice krispies sjúklinga eins og manninn minn. Hann er algjör sökker fyrir allra handa notkun á rice krispies og yfirleitt endar diskurinn hans í barnaafmælum stútfullur af tómum möffins bréfum utan af slíkum kökum. Já maður vex ekkert upp úr svona gúmmelaði!

Það eru auðvitað til margs konar útgáfur af þessu. Allskonar súkkulaði bætt við, sælgæti, bananar, karamella.. en þessi fór aðeins í aðra átt en ég hef séð hingað til. Tvistið er þetta Marabou myntu krókant súkkulaði sem fæst í Ikea. Það er bara af öðrum heimi, ég get svarið það.

Það lítur svona út...

Þetta í botninn og aðeins í rjómann.. Úff bara!

Þetta er auðvitað hefðbundin uppskrift en þessi klikkar aldrei, ef ég fer eftir henni nákvæmlega þá helst hún vel saman. Alls ekki freistast til þess að bæta aðeins við af morgunkorninu, þá fer allt í rugl! :P

Í botninn þarf:

75gr smjör
50gr Myntu krókant súkkulaði frá Marabou
100gr suðusúkkulaði
6 msk síróp í grænu dósunum
5 bollar rice krispies

Smjör, súkkulaði og síróp brætt í potti
Rice krispies sett í skál, þegar allt er bráðið
Saman er blöndunni hellt yfir rice krispies
Og blandað vel saman með sleikju.
Blöndunni þrýst vel niður í form og kæld vel.

Rjómakrem:
300ml rjómi
100gr myntu krókant súkkulaði saxað
1 tsk kakó
1 tsk vanillusykur


Stífþeytið rjómann með vanillusykri og kakói. Þegar hann er tilbúinn er súkkulaðinu blandað varlega saman við með sleikju. Takið botninn úr forminu og setjið á disk. Smyrjið rjómanum yfir og raspið smá súkkulaði yfir.

föstudagur, 3. júní 2016

Súkkulaði & Hnetusmjörs kubbar

Jess! Skólinn loksins búinn og þá getur allskonar skemmtilegt tekið við líkt og þetta blogg hérna!
Hvað ég hef saknað ykkar!
Er með fullt af uppskriftum sem mig langar að prófa og allskonar hugmyndir í kollinum að nýju gúrmeti. 

Í þetta sinn prófaði ég að gera hnetusmjörsbita með súkkulaði/hnetusmjörskremi. 
Úff.
Þetta er svona, hvað á ég að segja, frekar þéttur haframjölsbotn sem inniheldur m.a hnetusmjör og kremið ofan á er blanda af bráðnu súkkulaði og hnetusmjörskremi. 
Þetta er alveg eins dísætt og brjálæðislega gott og það hljómar. Það nægir alveg að fá sér einn lítinn bita með mjólk (fyrir þá sem þola hana, sem er því miður ekki ég :( ) eða góðu kaffi.

Ég prufukeyrði þessa í kvöld þar sem stelpan mín fer að hætta á leikskólanum sínum og mig langar til þess að senda hana með eitthvað sætt og gott fyrir leikskólakennarana til þess að gæða sér á í kaffinu. 
Held að þetta sé eitthvað!

Hentar örugglega vel í allskonar tilefni, afmæli eða sem smá eftirréttur.Við byrjum á því að hita ofninn í 175°C,
Hefjum svo handa við gera deigið; í það þarftu:

1/2 bolla smjör
1/2 b. sykur
1/2 b. púðursykur
1/3 b. gróft hnetusmjör  (venjulegt, ekki svona fansí lífrænt)
1 egg
1 b. rautt Kornax hveiti
1 b. gróft haframjöl
1/4 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk vanillu essence

Kremið:
100 gr. suðusúkkulaði
1/2 b. flórsykur
1-2 msk mjólk
1/2 b. gróft hnetusmjör

Hrærið vel saman sykurinn, smjörin og eggið. Þeytið með Káinu í svona 2 mín. 
Bætið þurrefnum út í auk vanillunnar og hrærið þar til þetta er blandað saman en ekki lengur en það. 
Þjappið í ferkantað form sem er ca. 20x30 cm. Bakið í 20 mín.
Á meðan  botninn bakast, saxið þá súkkulaðið og hrærið saman kremið. Ekki er þörf á að nota hrærivél eða þeytara. Setjið bara hnetusmjörið, flórsykurinn og mjólkina saman í skál og hrærið með skeið.
Um leið og kakan kemur úr ofninum, stráið þá söxuðu súkkulaðinu jafn yfir botninn. Bíðið smástund og dreifið þá bráðnu súkkulaðinu um botninn. Setjið strax kremið ofan á súkkulaðið og dreifið úr því. Það blandast súkkulaðinu og gerir svolítið skemmtilegt munstur.

Það er örugglega töff að setja smá af söxuðum salthnetum ofan á sem skraut en ég átti þær bara ekki til. 

Algjört lostæti þessi!


fimmtudagur, 17. mars 2016

Doughnuts - Donuts - Kleinuhringir... Já, betri en úr bakaríi!Ég er alltaf að reyna að gera sem flest heima hjá mér. Það sameinast í mér nískupúki (ég vil samt meina sparsemi, svona þar sem ég er nemi) og sælkeri. Það getur oft verið pínu flókið en þegar kemur að bakstri finnst mér gaman að prófa mig áfram með bakkelsi sem fæstir nenna að standa í að gera. Þar sem verðmunurinn getur verið svo bilaður á heimabakstri og því sem er keypt í bakaríi finnst mér áskorunin sérlega skemmtileg, svo ég tali nú ekki um þegar vel tekst til.

Eitt af því sem ég hef aldrei lagt í að gera eru kleinuhringir. Ég hef prófað að baka flest en þetta er eitt af því sem hefur alltaf vaxið mér í augum. Ég hef séð ótal uppskriftir og "pinnað" þær á Pinterest og hvaðeina en lét verða af því núna um helgina að prófa.
Og ég verð að segja að þetta tókst miklu miklu betur en ég þorði að vona. Það var samdóma álit þeirra sem komu í kaffi til að bragða á afrakstrinum að þeir væru mun betri en þeir sem hægt er að fá í bakaríum landsins. Líklega er það vegna þess að í þessum er meðal annars íslenskt smjör og egg en ekki duft blandað með vatni eins og svo mörg bakarí gera.

Þessir kleinuhringir eru svolítið "slow-cook" verkefni en eru alls ekki flóknir þó. Hefunin tekur frekar langan tíma en það er alveg 100% þess virði.

Uppskriftin er ekki frá mér komin en ég ætla að þýða hana hér og segja frá því hvernig ég gerði þetta í myndum. Ég nota amerísk bollamál sem tekur ca, 240ml.

Í kleinuhringina þarf:
1 og 1/8 bolla ylvolga nýmjólk
1/4 bolli sykur
2 og 1/4 tsk þurrger
2 stór egg aðeins hrærð
140gr brætt smjör
4 bollar blátt Kornax hveiti
1/4 tsk salt

2 kubbar af Palmín feiti

Setjið mjólkina í hrærivélaskál og hrærið sykurinn saman við. Bætið þurrgeri út í látið bíða í 5 mínútur, bræðið smjörið en passið að hita það ekki of mikið. Sláið eggin saman í skál og setjið út í mjólkurblönduna ásamt smjörinu og hrærið saman. Setijið hveitið og salt út í blautefnin og hnoðið með hnoðaranum í 5 mínútur.
Fyrir hefun

Látið standa í skálinni í 10 mínútur. Að þeim liðnum mótið deigið í kúlu og setjið í skál sem hefur verið smurð létt með matarolíu. Setjið plastfilmu yfir skálina og hefið í ísskáp yfir nótt.

Eftir nóttina í ísskápnum var deigið orðið svona

Þegar steikja á hringina er deigið tekið útúr ísskápnum og það flatt út með smá hveiti ef þarf. Það er gott að hafa það kannski tæpan sentimetra á þykkt. Skerið hringina út með kleinuhringjajárni en af því að ég átti það ekki til notaðist ég við glas og tappa af kaffisírópi. Örugglega hægt að nota hvað sem er, bara skoða hvað er til í skápunum!

Þrýsti niður á kúluna og setti smá hveiti

Flatt út


Loks eru kleinuhringirnir skornir út

Setjið kleinuhringina og "götin" sem skorin eru út á bökunarpappír. Þegar það er búið að skera úr úr öllu deiginu er ofninn hitaður í 45°C og hann úðaður að innan með vatni. Kleinuhringirnir eru látnir hefast í ofninum í 45 mínútur. Að þeim tíma loknum eru þeir teknir út úr ofninum og slökkt á honum.

Við steikjum "götin" líka ;)

Setjið palmínið í þykkbotna pott og hitið upp í 180°C, mæli með því að setja viftuna á fullt líka. Setjið gott lag af eldhúspappír á disk og bökunarplötu, hafið svo plötu með hefuðum hringjunum við hliðina á pottinum.

Feitin að bráðna og hringirnir orðnir "puffy" og flottir eftir ofnhefun

Takið þá varlega af plötunni og steikið 2 í einu í pottinum. Það er ekki gott að setja fleiri út í í einu því þá kólnar feitin of mikið. Ég sný þeim við þegar þeir eru orðnir gylltir og veiði þá uppúr með gataspaða, er reyndar með annan stálspaða á móti sem ég nota til þess að snúa hringjunum. Set þá beint á disk með pappír sem er við pottinn en færi þá svo þaðan yfir á bökunarplötu með pappír og safna þeim þar.

Chillað í pottinum...

Þegar allir eru steiktir og "götin" líka gerði ég 2 týpur af glassúr en það er hægt að setja allt á þá sem hugurinn girnist.

Fullkomnir! Eða svo gott sem...

Ég gerði "maple" og súkkulaði glassúr og skreytti með kökuskrauti og söxuðum pekanhnetum. Það er hægt að sleppa því að setja glassúr og sigta bara flórsykur yfir eða jafnvel sleppa því að gera gat og sprauta annað hvort nutella eða sultu inní. Það er bara allt hægt!


Loftmiklir og mjúkir!

Möguleikarnir eru endalausir í kremum og skreytingum!

Uppskrift fengin héðan: http://www.blessthismessplease.com/2012/07/pioneer-womans-glazed-donuts.html