Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

laugardagur, 30. maí 2015

Cheerios hnetusmjörsbitar
Nú er ég dottin í ruglið. Í alvöru. Þetta er svona uppskrift sem er ekki einu sinni uppskrift. Svo hræðilega allt allt of einfalt og inniheldur einungis ÞRJÚ innihaldsefni.

Sko, þegar ég var lítil var Rice Krispies miklu dýrara en gult Cheerios. Þessvegna var oft meira um kökur eða nammi gerðar úr því, eða heilinn á mér hefur allavega sannfært mig um að svoleiðis hafi það verið.

Allt í einu mundi ég eftir þessu. Klístrað nammi eins og Rice Krispies kökurnar sem allir þekkja, nema bara með Cheerios. Og þvílík heppni, á alltaf til Cheerios og átti hin tvö innihaldsefnin inni í skáp. Þetta er sumsé uppskrift sem hefur sést víða á Pinterest og mér dettur ekki í hug að eigna mér hana. Eða þetta er svona blanda af uppskriftum þaðan. Hún er ekkert heilög og það má tvöfalda og þrefalda og bæta við hnetum eða öðru nammi. Jafnvel setja súkkulaði ofan á, hugsanlega hvítt súkkulaði? Möguleikarnir eru endalausir en bara svona eitt og sér er þetta alveg nógu sætt og alveg nægilega mikil snilld.

Það sem þú þarft:

1/2 bolla af sírópi (nú eða hunangi)
1/2 bolla af hnetusmjöri (ekki hollu týpuna, mætti gjarnan vera gróft)
3 bollar af gulu Cheerios-i

Bræðið saman síróp og hnetusmjör í meðalstórum potti þar til það er bráðið vel saman og fer að bubbla. Takið af hellunni og bætið seríósinu við. Þjappið ofan í ferkantað form og kælið vel. Skerið svo í bita. Það er líka hægt að setja þetta í muffins form, svona eins og Rice Krispies kökurnar góðu.
Hugsanlega er best að gera bara einfalda uppskrift ef það er ekki verið að undirbúa afmæli. Þetta hverfur ískyggilega hratt!


miðvikudagur, 27. maí 2015

Kókos bananabrauðÍ dag er einn af "þessum dögum". Heima með veikt barn og frekar tómlegt um að litast í skápunum. Hef ekki nennt að fara út í búð en átti slappa banana sem mig langaði að gera eitthvað við. Yfirleitt liggur nú beinast við að gera bananabrauð svo það er bara það sem ég gerði! Notaði enga uppskrift og skúbbaði bara einhverju í blandarann og svo í skál. Þaðan í formið og beint inn í ofn. Svo var þetta bara svakalega fínt brauð! Átti nú alveg von á því reyndar þar sem bananar eru góðir og kókos jafnvel betri, saman getur þetta ekki klikkað!

Sem betur fer er gott að frysta bananabrauð því eins fáránlega og það hljómar er ég sú eina á heimilinu sem borða það. Sumt fólk er auðvitað bara ekki alveg í lagi! ;)

3 þroskaðir bananar
2 msk olía
2 stór egg
3 msk kókospálmasykur eða hunang
1 tsk kardimommur malaðar
3 dl fínt spelt eða hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 dl fínt kókosmjöl +  smá til þess að setja ofan á (má líka alveg vera gróft)

Hitið ofninn í 175°C með blæstri.
Bananar, olía, egg og sykur eða hunang sett saman í blandara og þeytt mjög vel. Blandan er svo færð í skál og þurrefnum hrært varlega saman við með sleikju. Deigið er því næst sett í aflangt form og bakað í ca. 45 mín eða þar til prjónn sem stungið er í brauðið kemur hreinn út.
Dásamlegt bara eitt og sér eða með smá smjöri.

fimmtudagur, 14. maí 2015

Haframjölskaka með karamellukókos toppiÉg er í hópi þeirra sem elska sjónvarpsköku. Þið vitið, þessi ljósa dúnmjúka kaka með vanillubragði og kókoskaramellubráð ofan á. Mmmm..
Ég elska líka kanil.. og haframjöl.. Svo þegar ég fann þessa uppskrift á vafri mínu um netheima, sá ég strax að þessa yrði ég að prófa. Setti hana á "to do" listann minn. Þið vitið, þennan sem allt fer á sem á að græjast eftir próflok. 
Þannig í dag fékk ég tækifæri til þess að prófa. Ég ákvað að baka þessa og aðra til reyndar sem ég mun setja hingað inn síðar (það er alveg tilefni í sér færslu!)

Þessi haframjölselska, dúnmjúk og djúsí, með smá kanilkeim, smá karamelló toppi. Örugglega heldur ekkert vont að hafa ís með henni, eða smá rjómaslettu. Það góða samt við hana er að hún krefst einskis af manni, hráefnin eru þannig að maður á þau alltaf til (eða ég að minnsta kosti!) og er þónokkuð fljótleg. Ekta svona til að skella í á sunnudegi eða henda í rétt áður en saumaklúbburinn mætir.

Ég er mjög lítið í að birta uppskriftir sem koma ekki úr eigin smiðju en ég verð bara að setja þessa inn:

Í kökuna sjálfa:

1 1/2 bolli sjóðandi vatn
1 bolli grófvalsaðir hafrar
1 bolli púðursykur
1 bolli sykur
1/2 bolli mjúkt smjör
2 egg við stofuhita
1 1/3 bolli Kornax hveiti
1 tsk kanill 
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt

Kókoskaramella
1/2 bolli smjör
1 bolli púðursykur
1 msk nýmjólk eða rjómi
1 bolli kókosmjöl

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C og takið fram skúffukökuform eða stórt kringlótt (ég var búin að gleyma að skúffukökuformið mitt er ennþá niður í vinnu svo ég notaði stóran pie disk, líklega um 28cm í þvermál).
Sjóðið vatnið og hellið yfir hafrana í skál og setjið til hliðar. Þeytið saman þar til létt og ljóst, smjörið, sykurinn og eggin. Í annarri skál blandið saman þurrefnum. Blandið svo saman með sleikju, um það bil helmingnum af hveitinu saman við sykurblönduna, hrærið svo höfrunum út í og rest af hveitinu. Setjið deigið í formið og bakið í ca. 30 mín, fer eftir ofnum þó. Takið kökuna út og kveikið á grillinu í ofninum og lagið karamelluna.

Fyrir karamelluna, þá blandið saman sykri, smjöri og mjólk í potti, hitið að suðu og látið malla í eina mínútu, bætið þá kókosnum saman við og smyrjið yfir kökuna með sleikju. 
Setjið undir grillið í svona 2-3 mínútur, en eins og með kökuna, þá verður bara að fylgjast vel með  þar sem grillin í ofnunum geta verið afar misjöfn, sumstaðar gæti 1 mínúta verið alveg nóg. 

Þessi er alveg komin til að vera!

Uppskriftin er fengin héðan: http://www.tasteandtellblog.com/oatmeal-cake/

laugardagur, 9. maí 2015

Skúffukaka með sykurpúðum og saltaðri mokka karamellu


Mig hefur alltaf vantað afsökun til þess að búa til salta karamellusósu. Finnst einhvernveginn allt svona "salted caramel" ótrúlega girnilegt. Þessi tvenna, salt og sykur, á bara svo ótrúlega vel saman! Þá fæddist líka hugmyndin um að bæta við mokka bragði í þessa jöfnu. Gæti það klikkað? Það er ekkert víst!
Gerði því skúffukökuu
ppskriftina mína sem ég hef notað í mörg mörg ár og alltaf jafn góð. Átti svo sykurpúða sem enduðu óvart í eldhúsinu mínu eftir fyrstu grillveislu ársins. Fullkomið að setja þá ofan á. Toppað með þessari ótrúlegu karamellusósu sem kann að hafa endað á ís í gærkvöldi (ó almáttugur, þegar hún kólnar verður hún seig og það er svooo gott!).
Þetta er uppskriftin að kökunni sjálfri, mæli með henni í allt. Sem venjuleg skúffukaka, í afmælistertur undir sykurmassa, í bollakökur með hrúgu af góðu kremi..2 bollar hveiti
1 1/2 b. púðursykur (eða venjulegur af þú átt hann ekki til)
1/2 b. kakó
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
2 stór egg
1 b. súrmjólk eða AB mjólk
3/4 b. matarolía (alls ekki ólífuolía)
2 tsk vanilludropar
1/2 b. sjóðandi vatn.

Litlir sykurpúðar eða venjulegir skornir í tvennt.

Kakan:
Öllu nema vatninu skellt í skál og hrært aðeins saman, svo er vatnið sett við og klárað að hræra í dásamlegt deig. Mikilvægt svo eggin sjóði ekki með heita vatninu.
Bakið í miðjum ofni við 175°c í 25 mín. Fer eftir ofnum ath það! 
Takið kökuna út og tekið hana með sykurpúðunum, það verður að vera smá bil á milli samt því þeir þenjast út þegar þeir eru hitaðir. 
Setjið kökuna aftur í ofninn og bakið púðana í ca. 5-8 mín en fylgist vel með, þeir mega bara verða rétt svo smá gylltir, ekki meira. Takið útúr ofninum og dreyfið karamellu yfir sykurpúðana.
Söltuð kahlúa karamella

1 bolli sykur
1/4 bolli vatn
2 msk síróp (ekki freistast til að sleppa, sykurinn kristallast án þess - einnig er hægt að notast við síróp sem sett er út í kaffidrykki)
120ml rjómi
1 tsk vanillu essence
1 msk Kahlúa (Má sleppa)
1 tsk instant kaffiduft
1/2 - 1 tsk sjávar eða himalaya salt, alls ekki venjulegt borðsalt

Setjið sykurinn, vatn og síróp saman í meðalstóran pott og bræðið saman þar til sykurinn er uppleystur. Sjóðið áfram þar til litur fer að myndast í blöndunni og bætið rjóma, salti, vanillu essence, Kahlúa og instant kaffidufti út í og pískið vel þar til kaffið er uppleyst. Látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar og takið svo af hellunni. Setjið svo yfir kökuna með frjálsri aðferð. 
Svo er reyndar hin aðferðin, ef þessi sykuraðferð við að gera karamellu vex ykkur í augum er alveg hægt að gera klassísku karamellusósuna sem inniheldur líka smjör, aðalmálið er að setja saltið og instant kaffiduftið út í.

Kakan er klístruð og miklar líkur eru á sykurpúði endi út á kinn en þannig á það bara að vera! ;)