Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

sunnudagur, 18. febrúar 2018

Heimsins bestu kleinur og ástarpungarÉg er oft svolítil kelling í mér og finnst gaman að baka eitthvað sem er þjóðlegt og klassískt. Kleinur og ástarpungar snerta alveg sérstaklega þennan kellingastreng í hjartanu eb í mörg ár veigraði ég mér við því að baka (eða réttara sagt steikja) þetta lostæti.
Fyrir nokkrum árum fór ég markvisst í leiðangur til þess að finna uppskriftir af hvorutveggja. Las bækur og vafraði um á netinu. Hef svo prófað ótal útgáfur og breytt og bætt þar til ég fann ,,mitt" bragð.
Mér þykir best að blanda saman sítrónu, vanillu og kardimommudropum og ég vil hafa þetta gúmmelaði helst bragðmikið. Smjör í kleinudeigið er nauðsyn og nokkur saltkorn gera útslagið.
Ég steiki bakkelsið uppúr palmín sem er 100% kókosolía en vel að sleppa tólginni.
Ég bræði palmínið í Le Creuset þykkbotna potti og passa að hafa feitina um 180°c heita. Ég set sælgætishitamæli í pottinn sem ég festi á brúninni en ég myndi segja að það væri alveg nauðsynlegt ef þið eruð ekki með djúpsteikingapott sem er hægt að stilla á stöðugan hita.

Þetta er miklu auðveldara en maður heldur og alveg dásamlegt að gera rúmlegt magn og skella í frystinn.

Kleinurnar 

1100gr Kornax hveiti + auka til að hnoða og fletja út með
340gr sykur
2 tsk lyftiduft
2 tsk hjartasalt
1/4 tsk salt
100gr bráðið smjör
2 egg
5 dl AB mjólk
3 tsk vanilludropar
3 tsk sítrónudropar
3 tsk kardimommudropar

Blandið saman þurrefnum í hrærivélaskál, setjið svo rest saman við og hrærið varlega. Takið svo deigið úr skálinni og klárið að hnoða þangað til það hættir að loða við hendur og borð.
Skiptið deiginu í þrennt og fletjið út einn hluta þar til það er um 1/2cm á þykkt.
Þar sem ég á ekki kleinujárn nota ég pítsuskera til að skera út kleinurnar. Ég sker deigið í ca. 4-5cm lengjur og svo aftur á ská til þess að gera tígul laga búta. Sker svo skurð í miðjuna á hverjum tígli og sný upp á.
Ég set svo 4-5 stk í einu út í feitina. Ég veiði þær uppúr með fiskispaða og legg ofan á eldhúspappír sem ég set í ofnskúffu.

Þegar ég hef steikt allar kleinurnar tekneg pottinn af hellunni og hræri í ástarpungadeig en það er mjög auðvelt. Þessi uppskrift er ekkert mjög stór og mætti því auðveldlega tvöfalda hana.

Ástarpungar

2 egg
75gr sykur
400gr hveiti
3 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
2 dl mjólk
1 tsk vanilludropar
1 tsk sítrónudropar
1 tsk kardimommudropar
70gr rúsínur

Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Blandið saman þurrefnum og þar á eftir mjólk, dropum og rúsínum.
Mótið eins mikla kúlu og hægt er með tveimur teskeiðum og setjið ofan í heita feitina.
Það er vissara að steikja meira en minna svo þeir verða ekki hráir í miðjunni.

Njótið vel kæru vinir!þriðjudagur, 9. janúar 2018

Gróft brauð með kókos og hnetum (Gló)Ég smakkaði brauðið á Gló fyrst fyrir mörgum árum. Þá var ég í fæðingarorlofi og hafði farið með mömmuhópnum mínum í hádegismat á Gló við Engjateig. Þetta brauð sem átti að vera meðlæti með súpu minnir mig, varð eiginlega aðalmáltíðin mín. Ég gæti borðað það í alla mata!
Þessi uppskrift er bara aðeins bætt ef það er hægt. Allar uppskriftir sem ég hef rekist á hafa innihaldið of lítið af vatni einhverra hluta vegna. Ég stækkaði hana líka örlítið en annars er þetta sama brauðið. Já jú, reyndar nota ég líka hveiti þar sem spelt er aðeins of þungt í minn maga en að sjálfsögðu er í lagi að halda sig við það.

Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hef ekki enn deilt þessari uppskrift. Það er oft bakað á mínu heimili og ég á alltaf til innihaldsefnin. Ég tek gjarnan rispur með það og hvíli inn á milli en uppskriftin er alltaf ofarlega í bunkanum.
Nýbakað með smjöri eða góðum nýgerðum hummus, namm! (Minnir mig á að ég á enn eftir að setja inn mína hummus uppskrift!) 
Það er nú líka alveg semi hollt. Ekki notað ger, góð næring í fræjunum og hnetunum sem gerir það einnig mjög mettandi.Besta brauðið (innblásið af Gló-brauðinu fræga)
3dl Kornax heilhveiti 
3dl Kornax hveiti rautt
1dl sesamfræ
1dl sólblómafræ
1dl kókosmjöl
1dl saxaðar heslihnetur
1/2dl graskersfræ
1 1/2 msk vínsteinslyftiduft
1 tsk salt
3 msk hunang
6 dl sjóðandi vatn
1 msk sítrónusafi
Hitið ofninn í 180°C. 
Blandið saman þurrefnunum í stóra skál. Hrærið því næst hunangi, vatni og sítrónusafa út í þannig að deigið verði eins og þykkur grautur. 
Setjið í stórt ílangt form klætt bökunarpappír. Bakið í 35 mín í forminu. Takið þá brauðið úr því með því að lyfta upp pappírnum og setjið aftur inn í ofn í ca. 10 mínútur.
Þegar þið takið það út úr ofninum mæli ég með því að vefja það inn í viskastykki og jafnvel geyma það þannig. Skorpan helst svo góð þannig. Þetta brauð ristast líka einstaklega vel og það má auðvitað líka vel frysta það.
Alveg hef ég tekið betri matarmyndir en lýsingin þessa dagana er alveg skelfileg! Þið sjáið allavega hvernig brauðið hjá mér er ;)