Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

sunnudagur, 30. janúar 2011

Kartöfluklattar - Hash Browns

Þetta er eitt það einfaldasta og ódýrasta sem hægt er að gera. Og alveg sjúklega gott!

400gr kartöflur
1/2 laukur (má jafnvel sleppa)
salt og pipar
1/4 bolli hveiti
1 egg

Afhýðið kartöflurnar og rífið niður á rifjárni, setjið allt saman í skál og blandið saman.


Hitið olíu á pönnu og setjið á pönnuna eins og lummur.


Steikið við miðlungshita í ca.5 mín á hvorri hlið, eða þangað til þeir hafa brúnast vel og eru eldaðir í miðju.


Þetta er hið fínasta meðlæti og passar með mörgu, fínt fyrir svona kartöflusjúka eins og mig. (Elska allt sem inniheldur kartöflur!)

Gratíneraður kjúklingaréttur með beikoni, döðlum og hvítlauk

Ég er mjög hrifin af kjúklingaréttum en ég er hinsvegar hætt að tíma að kaupa sykur og vatnssprautaðar fokdýrar kjúklingabringur.
Miklu frekar kaupi ég heilan kjúkling, sýð hann og plokka af honum kjötið. Mörgum vex það í augum og ég skil það alveg, enda aðeins meiri fyrirhöfn en að skera niður bringur í bita og steikja.
Með því að nota allt kjötið af kjúklingnum fær maður bragðmeira og mýkra kjöt svo ég tali nú ekki um sparnaðinn!

Þetta er mjög einfalt og betra að sjóða kjúklinginn en ofnsteikja ef það á að plokka af honum kjötið, hann verður miklu mýkri og auðveldara að ná af honum kjötinu.

Setjið kjúklinginn í passlega stóran pott og látið kalt fljóta vel yfir hann, setjið slatta af salti í vatnið:


Látið suðuna koma upp, lækkið aðeins hitann og sjóðið í ca. 1 klst.

Soðinn kjúklingur er ekki girnilegur að sjá

Kælið kjúklinginn og plokkið af honum allt nýtanlegt kjöt.


Já frábært! Nú er kjötið komið og þá er restin alveg jafn auðveld.
Þessi réttur er mjög einfaldur og fljótlegur og er tilbrigði við einn besta pastarétt sem ég hef á ævinni smakkað. Fullkomið jafnvægi á milli seltu og sætu (ég er voðalega hrifin af svoleiðis).
Í þennan (ekki svo mjög bráðholla) föstudagsrétt fer:

(Kjöt af einum heilum kjúkling)
150gr spínat
100gr magurt beikon
70gr döðlur
4 stór hvítlauksrif
1 msk oregano þurrkað
3 dl vatn
2 dl matreiðslurjómi
3 msk rjómaostur
1 Knorr kjúklingateningur
1/2 Knorr grænmetisteningur
Rifinn ostur

Skerið beikonið og döðlurnar í litla bita, brúnið beikonið á pönnu. Ef það er mikil fita sem kemur af því, þerrið það þá á pappír þegar það er tilbúið og setjið aftur út á pönnuna.
Merjið hvítlaukinn í pressu og bætið út á pönnuna og steikið aðeins með beikoninu í örskamma stund, setjið þá döðlurnar út í ásamt vatninu, oregano og teningunum.
Látið malla saman svolitla stund.


Á meðan þessi blanda mallar, er fínt að nýta tímann og setja spínatið í botninn á eldföstu móti og strá kjúklingnum þar yfir.


Bætið svo matreiðslurjómanum og rjómaosti út á pönnuna og sjóðið niður sósuna í ca. 5 mín.
Þegar sósan er tilbúin, hellið þá þessari ó svo gúrmei blöndu yfir kjúklinginn, fínt að passa að döðlurnar og beikonið dreifist jafn yfir kjúklinginn.


Setjið því næst rifna ostinn yfir allt saman (magn eftir smekk) og bakið í ofni þar til osturinn er orðinn gylltur og fallegur.


Berið fram með góðu salati og kartöfluklöttum (Hash Browns, birti uppskrift í næstu færslu)miðvikudagur, 26. janúar 2011

Stir-Fry Núðlur með grísakjöti, engifer og ananas

Stundum þegar ég nenni ekki að elda þá elda ég stir-fry rétti, finn það grænmeti sem ég á í ísskápnum og nota þá kjúkling, grísakjöt eða nautakjöt með.
Sósurnar eru allskonar, heimagerðar súrsætar, blanda af ostru og teryaki, soja ofl. Þetta kemur alltaf mjög vel út og er alveg sjúklega einfalt, fljótlegt og ódýrt.

Ég er líka dálítið fyrir skyndibita (skamm ég veit) og svona rétti er alveg hægt að kaupa, en það kostar jafnmikið að gera svona rétt heima og að kaupa skammt fyrir einn. Nei ég lýg, það er ca. helmingi ódýrara að gera þetta heima. Ég kaupi nefnilega sjaldnast skyndibita sem ég get gert betur heima hjá mér. Sumt kaupir maður bara ekki!

Kjötið kostar svona 500kall, grænmetið.. tja kannski 200, sósurnar 100, ananasdósin svona 75kall og núðlurnar svona 50kall. Og þetta er réttur fyrir ca 4. Dugir alveg í tvær máltíðir fyrir okkur hákana.

Gerði þennan í kvöld t.d

450-500gr grísagúllas
Vænn bútur af engifer, smátt saxað
5 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1/2 blaðlaukur
1/2 rauð paprika
1/2 græn paprika
2 gulrætur
1 dós kurlaður ananas
3-4 msk Sojasósa
1 dl Teryaki sósa

Eggjanúðlur - Thai choice eða aðrar

Byrjið á því að hita vatn í potti fyrir núðlurnar

Skerið grænmetið í meðalstóra bita og snöggsteikið á stórri pönnu eða wokpönnu með engiferi og hvítlauk. Takið af pönnunni og geymið á meðan þið brúnið kjötið.
Setjið sósurnar og ananasinn út á kjötið og látið malla í smástund. Bætið því næst grænmetinu út á kjötið. Látið grænmetið malla áfram með kjötinu í ca. 5 mín.
Ég smakka þarna oft til og bæti við sojasósu eða teryaki eftir smekk. Alls ekki vera feimin við að rúnna til magnið, uppgefið magn er bara til viðmiðunar. Ég er nú mesti slumpkokkur sem til er. Er eiginlega að giska bara á hvað fór mikið magn af sósunum út á réttinn...

Nú væri ráð að henda núðlunum út í vatnið, látið sjóða í svona 3-5 mín eftir smekk.
Þegar núðlurnar eru tilbúnar þá er kjötið tilbúið.

Maður skellir svo núðlum eftir smekk í djúpan disk og pönnuréttinn ofan á.

Klikkar aldrei!

Banoffee Pie

Mig hefur dreymt um svona böku síðan ég fékk að smakka hjá Guðnýju í London fyrir 2 árum.

Það sem hefur stoppað mig í að gera þetta pie er það að í hana þarf maður sæta niðursoðna mjólk en hún er nú fáanleg á fleiri stöðum en fyrir 2 árum. Þetta er s.s condenesed milk og hún fæst í flestum asískum búðum og líklega Hagkaup.
Ég nota nú yfirleitt auðveldlega aðgengileg hráefni en geri hér undantekningu, því það er alveg þess virði að fara sérferð í asíska búð til þess að nálgast svona dós.
Hún lítur sirka svona út:


Í bökunni er:

300gr hafrakex eða Digestive - Ég notaði 50/50 af Hobnobs og Digestive
60gr brætt smjör
1 dós af niðursoðinni sætri mjólk
4 bananar
400ml rjómi
rifið súkkulaði sem skraut

Ekki eru þetta nú mörg innihaldsefni eða flókin aðferð en tíma tekur hún.
Við byrjum á því að saxa kexið í spað í matvinnsluvél og bræða smjör.
Hitum svo ofninn í 180°C.


Setjum brædda smjörið út í kexið og mixum saman.

Í 24cm smelluform setti ég bökunarpappír í botninn og smellti svo fyrir. Hellti kexinu í og þrýsti því svo vel ofan í og upp á hliðarnar.


Svo inn í ofn í svona 10-12 mínútur, kælum svo botninn þegar tíminn er liðinn.

Nú kemur að því tímafreka, að sjóða mjólkina.
Við tökum miðann af dósinni og setjum hana í pott með frekar miklu vatni, látum allavega fljóta yfir dósina sé það hægt.
Fáum upp suðu og sjóðum dósina í einn og hálfan til 2 klukkutíma. Já, þarna erum við s.s að búa til karamellu.
Mikilvægt er að dósin sé óopnuð þegar hún er soðin. Þegar mjólkin/karamellan er tilbúin, tökum við dósina upp úr. Ég notaði bara fiskispaða til þess að veiða hana uppúr og setti hana í vaskinn.
Annað mikilvægt er að hella strax karamellunni yfir botninn, ég opna hana í vaskinum því það gæti spýst smá karamella úr dósinni, það myndast smá þrýstingur í henni nefnilega. Nota ofnhanska!

Allavega, þá hellir maður karamellunni yfir botninn og kælir svo í klukkutíma.


Þegar þetta var orðið kalt og fínt þá sneiddi ég fjóra meðalstóra banana og setti yfir karamelluna, ef þið eruð mjög mikið fyrir banana þá mega þeir örugglega vera 5.


Svo þeytum við rjómann og dreifum honum vel yfir:Svo er rosa fínt að raspa smá suðusúkkulaði yfir rjómann. Þetta er svooo gott!!

Og svona lítur þetta út sem sneið. Mjög góð sneið. Sneiðar...

Rómverskur pottréttur með ólífum, rauðvíni og timianÞessi réttur er bóndadagsrétturinn heima hjá mér, nei hér eru ekki étnir súrir pungar og hvalspik, ónei.
Sagan er nú bara þannig að fyrir ári eða tveimur (man það ómögulega) rétti ég Hirti 1000 bls. matreiðslubók og bað hann vinsamlegast um að velja sér einhvern gúrmei rétt og ég skildi elda hann. Hvað sem það væri, þá myndi ég elda það - nú svona í bóndadagsgjöf.

Hann kom til mín með bókina og benti á þennan rétt, sem inniheldur flest allt sem ég borða ekki. Eða svo hélt ég. Ólífur, Ansjósur, í samblandi með rauðvíni, hvítlauk og timian. Sko ólífur eru (voru) það ógeðslegasta sem ég veit og ansjósur? Með kjöti? Ójjj!

Ég var búin að lofa þessu og ég myndi standa við þetta.
Svo kom í ljós að á sama tíma og þetta er sá ljótasti réttur sem ég hef borðað, já það er núll girnilegt við þennan rétt að þá er hann klárlega einn sá bragðbesti sem ég hef smakkað.
Svo himneskt og hárfínt samspil seltu, rauðvíns og krydds. Mmmmhh...
Meðlætið er einfalt og passar sérstaklega vel við svona bragðgóðan rétt, heimalöguð kartöflumús í sætari kantinum.

Svona er þetta:

800 gr gúllas (þeir nota lamb í upphaflegu uppskriftinni en þar sem er svo erfitt að fá lambagúllas þá hef ég notað bæði naut og folald með fínum árangri)
1 msk olía og 1 msk smjör
8 hvítlauksrif
8 ansjósuflök
8 timian stilkar
1 bolli rauðvín
1 bolli vatn
lamba eða nautateningur
hálfur grænmetisteningur
8 svartar ólífur - eða fleiri

Kartöflumúsin

8 stórar mjölkartöflur (eða bara venjulegar)
2 msk smjör eða smjörvi
salt
sykur (eftir smekk, ég vil hafa hana frekar sæta)
smá mjólk til þess að þynna.


Setjið ansjósur, hvítlauk og timian saman í mortél:Merjið vel í mortéli hvítlaukinn, timianið og ansjósurnar. Smá þolinmæði þarf í það verk en það getur samt verið dálítið gaman að kremja þetta saman!

Ég var ekki að grínast þegar ég sagði þetta vera pínu ógirnilegt...

Setjið olíu og smjör á pönnu og hitið, setjið kjötið út á og brúnið.


Þegar kjötið hefur verið brúnað, bætið þá rauðvíni, vatni og teningum út á kjötið. Bætið einnig við ansjósumaukinu, lokið pönnunni og sjóðið í ca. 30 mínútur.
Þegar tíminn er liðinn, takið þá lokið af pönnunni og sjóðið niður í ca. 10 mínútur.

Ég sker ólífurnar í sneiðar og set út í sósuna þegar rétturinn er tilbúinn.

Mér finnast niðurskornar svartar ólífur svo fallegar

Ég geri kartöflumúsina þegar ég er að sjóða niður sósuna en það er mjög einfalt að gera kartöflumús sjálfur.
Ég sýð kartöflurnar á sama tíma og kjötið og þær ættu að vera tilbúnar á sama tíma. Ég hræri kartöflumús með handþeytara en þeir sem eru vanir að nota kartöflustappara gera það.
Ég skræli kartöflur og set þær í skál, set salt, sykur og smjör yfir og stappa fyrst aðeins með þeytaranum án þess að hafa hann í gangi, hræri svo saman á lægsta hraða og bæti mjólk út á, passa bara að það sé ekki of mikil mjólk, vil frekar hafa hana þykka en þunna.Ástæðan fyrir því að ég set ekki nákvæmt magn af því sem fer í kartöflumúsina er sú að kartöflur hafa mismunandi áferð og einnig er smekkur fólks misjafn. Þetta er einn sá mesti "dass" réttur/meðlæti sem til er.

Svona áferð vil ég hafa á minni kartöflumús - mjúk en samt með smá kartöflubitum í

Ég var ekki með salat en það er örugglega mjög gott að vera með salat og gott brauð með þessum rétti, lítur örugglega betur út á diskinum með smá litum en so be it...
Ég mana ykkur til þess að prófa, þið verðið ekki svikin!

Já ég veit...

miðvikudagur, 19. janúar 2011

Ofnbakaður "ítalskur" kjúklingur með bökuðum kartöflum og grænmetissósu

Ég er mjög hrifin af heilum kjúklingum, það er miklu ódýrara að kaupa kjúkling heilan og þeir eru ekki sykur og vatnssprautaðir eins og bringurnar.
Ég er mikið í að ofnbaka þá eða sjóða og rífa niður í ofnrétti ofl. og það er svooo auðvelt að henda kjúkling í ofninn og gleyma honum þar í einnoghálfan. Svo ég tali nú ekki um ef maður skellir kartöflum og rótargrænmeti með í fatið. Getur ekki orðið einfaldara.

Nú þessa dagana er ég að nýta frystinn eins og ég get og það sem ég á í skápunum. Oft getur orðið dýrindis máltíð úr því eins og sannaðist í kvöld. Ótrúlegt hvað hægt er að gera. Er líka svolítið eins og safnari, það er matur í öllum skápum og frystirinn fullur af allskonar gúmmelaði svo það er virkilega um auðugan garð að gresja.

Ég er svo heppin að eiga pínulitla Kenwood matvinnsluvél sem ég gersamlega elska. Elska svona nýtt eldhúsdót. Þið sem eigið ekki svoleiðis getið vel notað venjulega matvinnsluvél eða töfrasprota í verkið.


Allavega, ég tók kjúkling úr frystinum í gær og vissi ekkert hvað ég átti að gera við hann.

Endaði á þessu:

1/2 dl ólífuolía
8 sólþurrkaðir tómatar úr krukku
8 hvítlauksrif
1 1/2 tsk salt
Mikið af nýmöluðum pipar
safi úr 1/2 sítrónu

6 stórar kartöflur.

Þetta fór allt í matvinnsluvélina á milljón og smurt yfir kjúklinginn sem ég var búin að setja í svarta ofnpottinn (annað eldhúsdót sem ég hef tekið ástfóstri við)

Jömmííí!


Ofan í pottinn fóru svo 6 stórar kartöflur. Inní 185°C heitan ofn í 1 og hálfan tíma.

Unaðslegt!

Jæja, ég var komin með kjúkling og kartöflur en vantar ekki sósu? Ég leit í ísskápinn og rakst þar á ýmislegt, þar á meðal rjómaost, græna papriku, lauk og svolítið eitt slappa tómata.
Hvernig gerir maður sósu úr því?

Jú sko... í sósuna notaði ég:

1/2 græna papriku
1/2 lauk
3 tómata án kjarna
1 lítil dós tómatpúrra
3 msk rjómaost
1/2 kjúklingatening
1/2 grænmetistening
smá salt, mikinn svartan pipar
örlítið af chili dufti og ca. msk af þurrkaðri steinselju.

Í litlu sætu matvinnsluvélina fóru tómatarnir, paprikan og laukurinn, ásamt tómatmaukinu og hakkað í spað.
Ég hellti þeirri blöndu í lítinn pott og hitaði að suðu, lét malla í smástund og bætti teningunum út í, rjómaostinum og kryddinu og lét malla aðeins lengur.
Ég mæli með því að smakka svona til, ef fólki finnst saltmagnið vera fínt eftir teningana, verið þá ekkert að salta meira. Eins með chili piparinn. Chili duft getur verið missterkt eftir tegundum og ég er því ekkert að skrifa niður nákvæmt magn. Nokkur korn geta verið alveg feykinóg.


Svona varð sósan falleg

Með þessu var ég með salat (er oftast með salat með mat, auðvitað bara samt þegar við á) með brauðteningum, fetaosti og Ceasar sósu. Ég eeeeelska þessa sósu og myndi borða meira af henni ef hún væri ekki svona innilega óholl. En ég leyfi mér að fá mér smá, ég bara verð sko!

Þetta er sósan góða:Nú var kjúklingurinn tilbúinn og leit svona girnilega út:


Og á diskinn minn komið (að ég skyldi hafa getað beðið með að "dig in" og farið að taka myndir, uss!!)


P.s Takið eftir parmesan ostinum sem ég reif vel af yfir kjúklinginn og sósuna. Fullkomnun!

mánudagur, 17. janúar 2011

Piparostabrauðið!

Þetta er ekki of gott til þess að vera satt. Það er í alvöru til leið til þess að bæta piparosti út í enn eina matartegundina. Gott að vera Íslendingur!
Mhm, ég fattaði að setja það í brauð og þetta er bara damn gott brauð!

Svo er eitt. Ég nota pressuger og í sannleika sagt er alveg þess virði að reyna að nálgast það fyrir þá sem finnst það vera vesen. Brauðið hefast mikið betur og gerbragðið ekki eins afgerandi. Og fyrir ykkur sem mynduð vilja getað bakað brauð sem líkjast mest þeim sem hægt er að kaupa í bakaríum þá er pressuger og hefun í ofninum lykillinn.
Sjáum nú til...

Sko í brauðið fer:

9 dl hveiti - geyma einn fyrir hnoðið
45gr pressuger
2 tsk salt
4 dl mjólk
2 msk olía
70gr gratínostur
1/3 - 1/2 piparostur rifinn
Egg - Maldon salt & Nýmalaður pipar - Steinselja

Setjið allt hráefnið í þessari röð í hrærivélaskál og notið hnoðarann, hnoðið deigið vel í hrærivélinni, brauðið verður mikið betra þegar deigið er vel hnoðað.
Allavega, þegar þetta er komið, setjið þá rakt viskustykki yfir skálina og setjið á volgan stað. Ég set skálina á ofn í borðstofunni sem er svona ylvolgur, hefast fínt þar.
Fyrsta hefun er klukkutími.

Fyrir:


Eftir:


Þegar þessi klukkutími er liðinn, sláum við deigið niður, hnoðum upp í það smá hveiti ef þarf. Því næst mótum við bollur (ég hafði þær sextán) og setjum saman á þann hátt sem okkur sýnist. Mikilvægt að hafa bökunarpappír undir.


Þegar búið er að raða bollunum á plötuna, pensla ég hrærðu eggi yfir og strái maldon salti, pipar og smá steinselju yfir.
Mér finnst mikilvægt að setja vel af eggi, mikilvægt að það sé mikill raki yfir deiginu í annari hefun.
Stillið ofninn á 40-50°c og setjið plötuna inn, hefið í svona 20-30 mín.

Svona lítur þessi unaðslega dásemd kolvetnafíkilsins út eftir hefun #2.

Þegar annari hefun er lokið, tökum við plötuna útúr ofninum og stillum hitann á 200°C.
Þegar hann hefur náð þeim hita, setjum við plötuna aftur inn og bökum brauðið í ca 15 mín. Fer eftir ofnum þó, fylgist bara vel með.
Það á að líta einhvernveginn svona út:

Er þetta ekki fullkomið?

Ég verð að setja inn eina mynd í viðbót. Þetta er svooo girnilegt!

Hverjum gæti dottið í hug að það væri hægt að gera svona fallegt brauð heima sjá sér?


Og ein í viðbót *roðn*. Bara svona til þess að sýna inní:Það væri eflaust mjööög gott að strá rifnum osti yfir en ég ákvað að láta staðar numið við kryddið.
Bless. Ég er farin að fá mér brauð.

Pönnufiskur með kúrbít og karrý

Á mánudögum reyni ég að hafa fisk, tekst nú ekkert alltaf en ég reyni.

Þessi réttur er voðalega einfaldur og hollur. Gæti svosem alveg verið hollari þar sem ég bar hvít hrísgrjón með og piparostabrauð. Já, ég sver það. Það brauð fær sér færslu takk.

Í þessum rétti eru eftirfarandi hráefni:

1 geiralaus hvítlaukur
1/2 laukur
1/2 stór kúrbítur eða einn lítill
1/2 stór græn paprika
1 lítil dós kotasæla
1 msk karrý
500gr ýsa eða annar hvítur fiskur
salt og pipar eftir smekk
dill & eitthvað gott fiskikrydd

Byrjum á því að saxa laukana og mýkja í olíu á pönnu, paprikuna og kúrbítinn sker ég í bita og set út á pönnuna á eftir lauknum. Strái karrýi og salti og pipar yfir grænmetið og skúbba kotasælunni út á pönnuna. Læt ostinn bráðna í kotasælunni og þetta lítur þá einhvern veginn svona út:

Fallegt!

Ofan á þetta fer ýsan í bitum. Strái yfir hana meiri pipar, fiskikryddi og dilli. Loka svo pönnunni og læt malla í svona 10 mínútur.

Þessar elskur komnar út á pönnuna...


Eins og áður sagði, hafði ég hrísgrjón, salat og piparostabrauð með. Gúrmei!

Ég nenni ekki skrautmat, ég vil fullt af mat á diskinn minn!

sunnudagur, 16. janúar 2011

Rib-eye, hvítlauks Hasselback með beikon sveppum og Bernaise!

Það er sko nammidagur í dag!

Og ég hef lengi verið þekkt fyrir að vera mikil kjötæta, er eiginlega smá karlmaður í mér þegar kemur að matarsmekk...
Allavega! Þá var ákveðið að í kvöld yrði almennileg steik og rauðvín.

Ég byrjaði á því að taka 8 fallegar kartöflur í stærri kantinum og skar í þær mjóar rákir eins neðarlega og hægt var án þess þó að skera þær í sundur.
Ég raspaði svo niður einn geiralausan stóran hvítlauk og setti í pott með umþb. 3 msk af smjöri og 1 msk af þurrkaðri steinselju.
Þegar þetta var allt bráðið fallega saman og vel blandað setti ég hvítlauksblönduna yfir hverja kartöflu.
Inn í ofn á 185°c í 40 mín.

Hálftíma áður var ég reyndar búin að taka útúr ísskápnum þessar fallegu Rib eye steikur og pipra þær eins og ég ætti lífið að leysa. Bara pipar og ekkert nema pipar. Saltið kemur síðar.

Þegar kartöflurnar voru búnar að vera í sirka 25 mín í ofninum, hitaði ég á pönnu smá slurk af olíu og 1 tsk af smjöri. Þegar pannan var orðin snarpheit þá skellti ég þessum elskum á og brúnaði þær á hvorri hlið, inn í ofn í eldföstu móti með kjöthitamæli í miðjunni á þessari stærri og fengu að stikna þar þangað til mælirinn sýndi mér 58°c.

Meðan steikurnar voru í ofninum skar ég 6 stóra og væna sveppi í sneiðar. Ég átti líka beikon og ákvað að nota það með, skar 2 stórar sneiðar í litla bita og setti á pönnuna, sveppirnir fylgdu á eftir ásamt ca. 1 msk af smjöri. Já og smá salti. Hjartaáfall góðan dag? :)

Ég er alvöru húsmóðir jájá, en ég viðurkenni alveg að ég kann ekki og nenni ekki að gera alvöru bernes, nei ég stend ekki í því.
Finnst þessi í gulu dollunni best:


Með þessu bar ég fram blandað salat, ekkert of flókið með of miklu í. Það er vesen með svona góðri steik.
Einnig átti ég smá afgang af þessu fína víni hér:


Ég passaði mig auðvitað á því að hvíla aðeins steikina eftir að hún kom úr ofninum. 5 mín fannst mér hæfilegt í þetta sinn. Smá Maldon yfir.
Kartöflurnar voru til (stráði þá smá salti yfir), sveppirnir brúnaðir og stökkir, sósan upphituð og salatið komið úr pokanum (kommon, helduru að ég nenni að skera niður og dúllast núna? Tssss, ekki séns)

Leit svona út áður en ég lét til skarar skríða: (Já menn spara sko ekki sósuna!)


Semsagt í stuttu máli:

8 kartöflur
1 geiralaus hvítlaukur
3 msk smjör
1 msk steinselja
Salt


2 hnausþykkar Rib eye steikur
Nýmalaður pipar
Maldon salt

6 stórir sveppir
2 stórar beikonsneiðar saxaðar smátt
smá smjör

Bernes í dollu

Salat í poka