Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

föstudagur, 19. maí 2017

Belgískar bláberja vöfflurÞað hefur nú áður komið fram hvað ég elska vöfflur mikið og skiptir þá engu máli hvort þær eru þessar hefðbundnu íslensku með sultu og rjóma eða belgískar í allra handa útgáfum.
Svo er ég agalega hrifin af brunch réttum hvers konar. Beikon, egg, pönnukökur, belgískar vöfflur, ávaxtasalat og allt hvað eina.

Á ég að segja ykkur leyndarmál?
Stundum hef ég brunch í kvöldmatinn. Það fer alveg eftir stuðinu hvað ég nenni að gera en yfirleitt er það að minnsta kosti gott brauð, egg, beikon og vöfflur eða pönnukökur. Ef ég er í spari skapinu hef ég fersk ber með, í deigið eins og í þessu tilfelli og einnig ofan á vöfflurnar.
Núna þessa dagana eru fersk ber oft á tilboði og um að gera að nýta sér það.
Mæli með því að þið prófið þessar um helgina!Deigið:

1 og 3/4 bolli Kornax hveiti
1/4 bolli maizenamjöl eða kartöflumjöl, má sleppa og hafa 2 bolla af hveiti
2 msk sykur
1 msk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
2 stór egg
1/2 bolli olía
2 tsk vanilludropar
1 og 3/4 bolli mjólk
1 bolli fersk bláber, má vera meira

Aðferð:

Blandið þurrefnum saman og bætið svo eggjum, vanillu, olíu og mjólk saman við. Mæli með því ef þið nennið að hræra vökvann saman í mælikönnu áður og blanda smám saman við þurrefnin svo deigið verði ekki kekkjótt.
Að síðustu blandið berjunum varlega saman við með sleikju.
Setjið um það bil 1/4 bolla af deigi í hvort vöffluhólf ef þið eruð með svona ferkantað belgískt vöfflujárn og bakið þar til vöfflurnar eru orðnar gylltar.
Ég mæli með því að raða vöfflunum ekki strax á disk heldur kæla þær lítillega á bökunargrind áður svo þær verði ekki sveittar. Það er svo hægt að hita þær aðeins í brauðristinni eða í ofninum ef þið viljið bera þær volgar fram.
Ég mæli eindregið með að setja gyllt síróp eða hlynsíróp, rjóma og banana eða ber á þær, nú eða bara dusta smá flórsykur yfir.

Verði ykkur að góðu!mánudagur, 10. apríl 2017

Dásamlegar glútenlausar vöfflur

Glútennæmi og glútenóþol er eitthvað sem virðist fara vaxandi og því fer þeim fjölgandi sem þurfa að velja glútenlausa kosti. Í matvöruverslunum hérlendis fer úrvalið sístækkandi og flytur Kornax til dæmis inn alveg stórgóð glútenlaus brauðmix frá Finax.

Ég hef alltaf verið alveg ofboðslega mikil vöfflu kona og baka þær líklega nokkrum sinnum í viku. Sér í lagi svona í fæðingarorlofinu. Mér finnst best ef áferðin á þeim er frekar stökk og þær mýkri inní, einnig finnst mér gott ef þær eru aðeins í dekkri kantinum. Nú bjóst ég alls ekki við því að þessi áferð gæti fengist með glútenfría brauðmixinu en vá, þetta kom stórkostlega á óvart. Þær voru jafnvel bara betri en þær sem ég geri með venjulegu hveiti. Svo stökkar en samt mjúkar, virkilega bragðgóðar.

Þetta mix er alveg frábær kostur og ég hlakka bara til að prófa mig áfram með það í fleiri uppskriftir.

Deigið:

5dl Fínt brauðmix frá Finax (Kornax)
2 tsk vínsteins lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 msk vanillusykur
1/2 tsk salt
3 egg
1 dl ab mjólk
1 dl olía
3-4 dl mjólk

Blandið saman þurrefnum í skál, setjið eggin, ab mjólkina og olíuna því næst saman við auk smá slettu af mjólk og hrærið í miðjunni. Bætið við mjólkinni smám saman þar til þið eruð búin að setja ca. 3 dl saman við og látið deigið þá bíða í ca. 5 mínútur. Deigið þykknar þegar það er látið bíða og gott að bæta smá mjólk við til viðbótar.
Þessi uppskrift gaf minnir mig um 10 frekar stórar vöfflur.
Ég eeeelska að setja Nutella og smá rjómaslettur á mínar en þær eru auðvitað góðar með öllu.
Þær eru örugglega líka fínar í stað brauðs og þá má bara sleppa vanillusykrinum og setja bara smjör og ost til dæmis.
föstudagur, 31. mars 2017

Frönsk súkkulaðikaka með þristakremi


Fyrir nokkrum árum fékk ég uppskrift af svipaðri köku en týndi henni í öllu uppskriftaúrklippu flóðinu. Ég man að þau sem fengu að bragða á henni voru öll stórhrifin og sögðu þetta vera skemmtilegt tvist á þessa klassísku köku.

Nú er ég nýbyrjuð í fæðingarorlofi og á sem betur fer ansi vært barn (eins og þetta eldra, byrjaði með þetta blogg í því orlofi) sem leyfir mér að dúllast aðeins í eldhúsinu þegar hann sefur.
Snemma í maí munum við skíra nýju viðbótina og þá er ekki úr vegi að draga upp gamlar uppskriftir og endurgera eftir minni. Mér finnst ansi gott að hafa tímann fyrir mér því ég elska að baka fyrir veislur og auðvitað verður hver terta að vera algjörlega skotheld. Held að það sé óhætt að segja að þessi sé ein af þeim.

Í kökuna sjálfa fer þetta:

4 egg
2dl sykur
1dl Kornax hveiti
100gr 70% súkkulaði
100gr suðusúkkulaði
200gr smjör

Þristakrem
1 poki litlir þristar
3 msk rjómi (má setja smá slettu í viðbót ef það reynist erfitt að bræða þristana)

Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C og blástur
Setjið eggin og sykurinn í skál og þeytið mjög vel þar til blandan er orðin létt og ljós.
Bræðið smjörið á vægum hita í potti og bætið súkkulaðinu saman við. Bræðið saman en passið að brenna ekki. Kælið aðeins.
Sigtið hveitið út í eggjablönduna og blandið saman við með sleikju. Látið þvínæst súkkulaðiblönduna útí í mjórri bunu og hrærið varlega með sleikjunni svo loftið fari ekki úr deiginu.
Hellið í vel smurt bökuform, tertuform eða eldfast mót í stærri kantinum og bakið í 30 mín.

Á meðan kakan bakast er gott að skera þristana í bita, setja í lítinn pott ásamt rjómanum og bræða saman rólega. Þegar allt er bráðið saman (athugið að lakkrísinn bráðnar ekki), takið þá pottinn af hellunni. Þegar kakan er tilbúin, kælið hana í nokkrar mínútur áður en kreminu er dreift yfir.

Ég bar fram með henni söxuð jarðarber og rjóma, en það er örugglega líka mjög gott að hafa vanilluís með.
Njótið!