Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

fimmtudagur, 7. september 2017

Chia grautur með blönduðum berjum
Ég er eins og svo margir aðrir á þessum tíma ársins. Alveg tilbúin til þess að taka mataræðið aðeins fastari tökum og koma rútínu aftur í gang á heimilið. Stóra stelpan mín er komin í langþráðan 2. bekk og það styttist í að þessi "nýfæddi" fari til dagmömmunnar.
Það er nefnilega eitthvað við september. Þó ég elski sumarið þá finnst mér haustið svo dásamlegt, laufin fara að skipta litum og loks fjúka þau í buskann. Morgnarnir verða stökkir í kuldanum og við þurfum að draga fram úlpur og húfur.

Þegar það verður erfiðara að vakna í vetur og á sama tíma og maður reynir að passa mataræðið, er gott að getað gripið eitthvað næringarríkt með sér inn í daginn. Þessi chia grautur er mitt uppáhald en honum er auðvitað hægt að breyta. Setja aðra tegund af mjólk, aðra bragðdropa eða sleppa þeim. Bæta við kakói eða hnetusmjöri... bara hvað sem er. Það eru bara einföld lykilatriði sem þarf að hafa í huga við gerð chia grauta og ef maður fer eftir þeim er fátt sem getur klikkað.

Innihald:

3 dl Oatly haframjólk (ég set helming Organic og helming Barista, þessi síðarnefnda er rjómakenndari) Einnig hægt að nota venjulega mjólk, möndlu eða sojamjólk.
3 1/2 msk chia fræ (fyrir þynnri graut er gott að setja 3 en mér finnst hann betri svona)
Nokkrir dropar kókosstevía frá Now

Ég set mjólkina í krukku með loki eða glerskál sem ég fékk í Ikea en henni fylgir þétt plastlok. Set fræin út í og hræri aðeins. Bæti svo við dropum. Það er mikilvægt að hræra vel á þessum tímapunkti. Mér finnst best að hræra og bíða í nokkrar mínútur og hræra aftur. Ég set svo krukkuna í ísskáp yfir nótt. Þannig er ég viss um að öll chia fræin hafi bólgnað út og hann sé eins þykkur og ég vil hafa hann. Persónulega finnst mér grautur sem ekki hefur fengið að bíða nógu lengi alls ekki góður.

Þegar ég tek svo krukkuna úr ísskápnum set ég þá ávexti eða ber sem ég á til ofan á. Jafnvel kókosflögur og mórber, en mórberin eru algjört sælgæti og mæli hiklaust með því að þið prófið þessar næringarsprengjur.
Ef ég nota frosin bláber t.d þá set ég þau reyndar útí um kvöldið svo þau nái að þiðna vel.

Gleðilegan morgunmat!

fimmtudagur, 20. júlí 2017

Möndlu biscotti - Ítalskar tvíbökurFlestum finnst nú svolítið gott að maula eitthvað smá sætt með kaffinu. Sér í lagi ef kaffið er gott og aðeins vandað. Þó svo góður uppáhellingur standi nú auðvitað alltaf fyrir sínu. Þessi sæti biti þarf ekki að vera stór og hann má alveg endast aðeins. Þá er gott að grípa í eina og eina biscotti eða "tvíböku" en þessar kökur eru ítalskar að uppruna og eru í raun bakaðar tvisvar sinnum en biscotti þýðir í raun "eldað tvisvar".

Ég ákvað að skella í eina plötu eða tvær af þessum dásamlegu kökum eftir smá biscotti ævintýri um daginn.
Þannig er að við hjónin áttum leið í Costco (ekki í fyrsta eða annað sinn, ehemm) og bóndinn greip með sér afar fagran stóran poka af ítölskum möndlu biscotti kökum. Ég var meira að segja alveg til í að kaupa hann þrátt fyrir að það sé mjög auðvelt að gera þetta heima sjálfur. En jæja, daginn eftir vorum við búin að gera okkur sitthvorn fínan kaffibollann og spennt að smakka. 
Þvílík og önnur eins vonbrigði! Í alvöru! Þeir höfðu (stóð hvergi á pakkanum, ekki einu sinni í innihaldslýsingu) sett APPELSÍNUDROPA í möndlu biscotti. Almáttugur hvað mér fannst þetta vont og aldrei þessu vant var maðurinn minn mér sammála. Þetta var í alvöru svo vont. 
Ég skilaði pokanum. Já ég hef óbeit á öllu sem er með appelsínubragði og þetta voru að mínu mati smá svik. Ákvað þar með að ég skyldi aldrei aftur reyna að kaupa biscotti. Best að gera þær bara sjálf. 
Að mínu mati eru biscotti bestar með möndlum og því er þetta uppskrift af möndlu biscotti. Mér áskotnaðist þessi uppskrift fyrir mörgum árum en baka hana örugglega ekki oftar en einu sinni á ári. Þetta er alveg tilvalin tækifærisgjöf með einhverju gæðakaffi. Þá hef ég sett þær í einhvern sætan sellófan poka með slaufu og fallegum miða. 
Uppskriftin er semsagt þessi:

150gr möndlur með hýði
6 dl Rautt Kornax hveiti
3 1/2 dl sykur
1/4 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
4 stór egg
2 msk mjúkt smjör
1 tsk vanilludropar
1 tsk möndludropar
2dl + af hveiti til þess að hnoða upp úr

Byrjið á því að rista möndlurnar á pönnu og kæla. Hitið ofn í 200°C blástur.
Blandið hveiti, sykri, matarsóda og salt saman í skál. Bætið síðan við eggjum, smjöri, dropum og möndlum út í og hrærið með sleif eða hrærivél þar til deigið loðir vel saman, passið bara að hræra ekki of mikið. Athugið deigið er frekar blautt.
Flytjið deigið á hveitistráða borðplötu og hnoðið meiru af hveiti upp í deigið. Það á að vera frekar klístrað þegar það er mótað í hleifana. En þegar það er tilbúið eru 4-6 hleifar mótaðir og settir beint á plötu klædda með bökunarpappír.
Hafið ca 5cm á milli þeirra. Ef hleifarnir eru fleiri verða kökurnar minni og það er alls ekkert verra.
Bakið hleifana í 20 mín. Bíðið í nokkrar mínútur þar til mesti hitinn er rokinn úr þeim.

 Setjið þá á skurðarbretti og skáskerið í litlar kökur með beittum hníf. 

Raðið á bökunarplötu og bakið í 5 mínútur á hvorri hlið.Það er hægt að skipta út möndlunum fyrir aðrar hnetur, svosem pekanhnetur eða pistasíur. Einnig er hægt að dýfa þeim aðeins í súkkulaði.
Þær endast vel í lokuðu íláti við stofu hita.

Algjörlega fullkomnar með kaffinu eða kakói svona á íslenskum rigningardögum!fimmtudagur, 6. júlí 2017

Hjónabandssælan hennar mömmu


Þegar ég var lítil var mamma mín heimavinnandi. Í minningunni voru þessir tímar þeir allra bestu og ekki síst vegna þess að tíminn fyrir bakstur var oft rúmur. Og það er líklega vegna þessarar hjónabandssælu að mér finnst allur hafra bakstur svo dásamlega ljúffengur. Ég hreinlega elska allt með höfrum!

Ég gerði reyndar rabarbarasultuna sjálf í þessa (úr rabarbara frá mömmu) en það er að sjálfsögðu alls ekki nauðsynlegt. Mér finnst bara alveg hrikalega gott að hafa sultuna aðeins sykurminni og þar af leiðandi aðeins súrari. Einnig finnst mér betra að sjóða hana þannig að hún sé meira rauð en brún.

Þessi kaka slær öll met, þá meina ég hvað hún er auðveld og hún klárast yfirleitt samdægurs!
Fullkomin sumarkaka, mig minnir að hún geymist nokkuð vel og svo fer hún agalega vel í nestisbox.

Innihald:

240gr íslenskt smjör í mýkra lagi
200gr sykur
150gr haframjöl
280gr Kornax hveiti rautt
1 tsk matarsódi
1 egg
1 krukka rabarbarasulta

Hitið ofninn í 175°C blástur.
Hnoðið öllu saman og skiptið deiginu þannig að 2/3 sé sett í tertu eða bökuform og 1/3 verði eftir. Smyrjið góðri rabarbarasultu yfir, mér finnst betra að setja meira en minna, þetta er kannski svona tæp venjuleg stærð af krukku (eins og Kjarnasulturnar t.d)
Setjið restina af deiginu í klípum yfir sultuna og bakið í 40-45 mín.
Best er að láta hana kólna vel og drekka síðan vel af ískaldri mjólk með!

föstudagur, 19. maí 2017

Belgískar bláberja vöfflurÞað hefur nú áður komið fram hvað ég elska vöfflur mikið og skiptir þá engu máli hvort þær eru þessar hefðbundnu íslensku með sultu og rjóma eða belgískar í allra handa útgáfum.
Svo er ég agalega hrifin af brunch réttum hvers konar. Beikon, egg, pönnukökur, belgískar vöfflur, ávaxtasalat og allt hvað eina.

Á ég að segja ykkur leyndarmál?
Stundum hef ég brunch í kvöldmatinn. Það fer alveg eftir stuðinu hvað ég nenni að gera en yfirleitt er það að minnsta kosti gott brauð, egg, beikon og vöfflur eða pönnukökur. Ef ég er í spari skapinu hef ég fersk ber með, í deigið eins og í þessu tilfelli og einnig ofan á vöfflurnar.
Núna þessa dagana eru fersk ber oft á tilboði og um að gera að nýta sér það.
Mæli með því að þið prófið þessar um helgina!Deigið:

1 og 3/4 bolli Kornax hveiti
1/4 bolli maizenamjöl eða kartöflumjöl, má sleppa og hafa 2 bolla af hveiti
2 msk sykur
1 msk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
2 stór egg
1/2 bolli olía
2 tsk vanilludropar
1 og 3/4 bolli mjólk
1 bolli fersk bláber, má vera meira

Aðferð:

Blandið þurrefnum saman og bætið svo eggjum, vanillu, olíu og mjólk saman við. Mæli með því ef þið nennið að hræra vökvann saman í mælikönnu áður og blanda smám saman við þurrefnin svo deigið verði ekki kekkjótt.
Að síðustu blandið berjunum varlega saman við með sleikju.
Setjið um það bil 1/4 bolla af deigi í hvort vöffluhólf ef þið eruð með svona ferkantað belgískt vöfflujárn og bakið þar til vöfflurnar eru orðnar gylltar.
Ég mæli með því að raða vöfflunum ekki strax á disk heldur kæla þær lítillega á bökunargrind áður svo þær verði ekki sveittar. Það er svo hægt að hita þær aðeins í brauðristinni eða í ofninum ef þið viljið bera þær volgar fram.
Ég mæli eindregið með að setja gyllt síróp eða hlynsíróp, rjóma og banana eða ber á þær, nú eða bara dusta smá flórsykur yfir.

Verði ykkur að góðu!mánudagur, 10. apríl 2017

Dásamlegar glútenlausar vöfflur

Glútennæmi og glútenóþol er eitthvað sem virðist fara vaxandi og því fer þeim fjölgandi sem þurfa að velja glútenlausa kosti. Í matvöruverslunum hérlendis fer úrvalið sístækkandi og flytur Kornax til dæmis inn alveg stórgóð glútenlaus brauðmix frá Finax.

Ég hef alltaf verið alveg ofboðslega mikil vöfflu kona og baka þær líklega nokkrum sinnum í viku. Sér í lagi svona í fæðingarorlofinu. Mér finnst best ef áferðin á þeim er frekar stökk og þær mýkri inní, einnig finnst mér gott ef þær eru aðeins í dekkri kantinum. Nú bjóst ég alls ekki við því að þessi áferð gæti fengist með glútenfría brauðmixinu en vá, þetta kom stórkostlega á óvart. Þær voru jafnvel bara betri en þær sem ég geri með venjulegu hveiti. Svo stökkar en samt mjúkar, virkilega bragðgóðar.

Þetta mix er alveg frábær kostur og ég hlakka bara til að prófa mig áfram með það í fleiri uppskriftir.

Deigið:

5dl Fínt brauðmix frá Finax (Kornax)
2 tsk vínsteins lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 msk vanillusykur
1/2 tsk salt
3 egg
1 dl ab mjólk
1 dl olía
3-4 dl mjólk

Blandið saman þurrefnum í skál, setjið eggin, ab mjólkina og olíuna því næst saman við auk smá slettu af mjólk og hrærið í miðjunni. Bætið við mjólkinni smám saman þar til þið eruð búin að setja ca. 3 dl saman við og látið deigið þá bíða í ca. 5 mínútur. Deigið þykknar þegar það er látið bíða og gott að bæta smá mjólk við til viðbótar.
Þessi uppskrift gaf minnir mig um 10 frekar stórar vöfflur.
Ég eeeelska að setja Nutella og smá rjómaslettur á mínar en þær eru auðvitað góðar með öllu.
Þær eru örugglega líka fínar í stað brauðs og þá má bara sleppa vanillusykrinum og setja bara smjör og ost til dæmis.
föstudagur, 31. mars 2017

Frönsk súkkulaðikaka með þristakremi


Fyrir nokkrum árum fékk ég uppskrift af svipaðri köku en týndi henni í öllu uppskriftaúrklippu flóðinu. Ég man að þau sem fengu að bragða á henni voru öll stórhrifin og sögðu þetta vera skemmtilegt tvist á þessa klassísku köku.

Nú er ég nýbyrjuð í fæðingarorlofi og á sem betur fer ansi vært barn (eins og þetta eldra, byrjaði með þetta blogg í því orlofi) sem leyfir mér að dúllast aðeins í eldhúsinu þegar hann sefur.
Snemma í maí munum við skíra nýju viðbótina og þá er ekki úr vegi að draga upp gamlar uppskriftir og endurgera eftir minni. Mér finnst ansi gott að hafa tímann fyrir mér því ég elska að baka fyrir veislur og auðvitað verður hver terta að vera algjörlega skotheld. Held að það sé óhætt að segja að þessi sé ein af þeim.

Í kökuna sjálfa fer þetta:

4 egg
2dl sykur
1dl Kornax hveiti
100gr 70% súkkulaði
100gr suðusúkkulaði
200gr smjör

Þristakrem
1 poki litlir þristar
3 msk rjómi (má setja smá slettu í viðbót ef það reynist erfitt að bræða þristana)

Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C og blástur
Setjið eggin og sykurinn í skál og þeytið mjög vel þar til blandan er orðin létt og ljós.
Bræðið smjörið á vægum hita í potti og bætið súkkulaðinu saman við. Bræðið saman en passið að brenna ekki. Kælið aðeins.
Sigtið hveitið út í eggjablönduna og blandið saman við með sleikju. Látið þvínæst súkkulaðiblönduna útí í mjórri bunu og hrærið varlega með sleikjunni svo loftið fari ekki úr deiginu.
Hellið í vel smurt bökuform, tertuform eða eldfast mót í stærri kantinum og bakið í 30 mín.

Á meðan kakan bakast er gott að skera þristana í bita, setja í lítinn pott ásamt rjómanum og bræða saman rólega. Þegar allt er bráðið saman (athugið að lakkrísinn bráðnar ekki), takið þá pottinn af hellunni. Þegar kakan er tilbúin, kælið hana í nokkrar mínútur áður en kreminu er dreift yfir.

Ég bar fram með henni söxuð jarðarber og rjóma, en það er örugglega líka mjög gott að hafa vanilluís með.
Njótið!