Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

fimmtudagur, 20. nóvember 2014

Súkkulaðismákökur með salthnetum, súkkulaðibitum og hnetusmjöri


Súkkulaði með súkkulaði. Já einmitt. Þetta eru dökkar smákökur með söxuðu súkkulaði, hnetusmjöri og salthnetum og þær eru betri en þær hljóma. Ef það er þá hægt!

Þetta er uppskrift sem er byggð á þessari uppskrift sem ég birti um daginn.

Einu breytingarnar sem ég gerði voru:

Bæta 2 msk af kakói í deigið
Í staðinn fyrir hvítt súkkulaði setti ég suðusúkkulaði
Í staðinn fyrir valhnetur setti ég 100gr af salhnetum
Sleppti saltinu þar sem ég var að setja salthnetur, taldi saltmagnið verða of mikið.

Svo þannig lítur þetta út:

Innihald:

1 og 1/4 b. hveiti
1 b. grófir hafrar (appelsínuguli Solgryn)
2 msk kakó
1/2 tsk matarsódi
115gr smjör
6 msk hnetusmjör (ekki lífrænt, frekar ES eða Peter Pan)
1 b. púðursykur
1/2 b. sykur
1 stórt egg + 1 eggjarauða við stofuhita
2 tsk vanilludropar
80gr grófsaxað súkkulaði eða dropar
100gr salthnetur gróflega saxaðar

Byrjið á því að hita ofninn í 170°C. Setjið púðursykur og sykur í skál. Bræðið smjörið og hnetusmjörið við vægan hita í potti. Setjið þurrefnin í skál og setjið til hliðar. Hellið smjörblöndu yfir sykurinn og hrærið saman, sykurinn bráðnar aðeins við þetta, sem er gott! Hrærið þetta vel og blandið því næst eggjum og vanilludropum saman við, Hellið þessu blauta í þurrefnin og blandið varlega saman með sleikju. Þegar þetta er orðið samfellt (og verður nokkuð þykkt) deig, blandið þá hnetunum og súkkulaðinu saman við. Setjið deigið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu með 2 teskeiðum og mótið lauslega kúlur sem eru aðeins minni en golfboltar. 
Bakið í 10-12 mín. Betra að fylgjast með og hafa þær minna bakaðar en meira.
Úr uppskriftinni fékk ég 28 kökur eða rétt tæpar 2 plötur, það er að sjálfsögðu hægt að stækka þær og fá færri stórar kökur.

Þessar eru alger draumur! Maður borðar ekkert voðalega margar en það er bara fínt, kannski ekkert megrunarfæði en hver spáir samt í því þegar við erum að ræða jólabaksturinn? ;)

mánudagur, 10. nóvember 2014

Sunnudagsdekur vinkvenna og jarðarberjaterta!


Í gærdag átti ég frábærar stundir með æskuvinkonum mínum. Við höldum alltaf hópinn og þó við hittumst ekkert í hverri viku eða jafnvel hverjum mánuði þá er alltaf eins og við höfum hist í gær. Við hittumst gjarnan í brunch og hver okkar kemur þá með eitthvað á borðið. Mitt framlag var þessi sykursæta bleika jarðarberjaterta en einnig má minnast á algerlega stórkostlegan rétt sem hún Berglind kom með, en þetta er french toast rúllað upp með beikoni og ekta maple sírópi hellt yfir. Stórkostlegur réttur og fallegur á borð. Svava kom með heitan rétt sem var algert gúmmelaði, pínu sterkur og innihélt ólöglega mikið magn af ostum en þannig eiga þeir að vera er það ekki? Elsa færði okkur nýbakað brauð og bleikan drykk sem fór svona vel í glösunum okkar. Við drukkum svo kaffið úr erfðastellinu frá ömmu og deildum leyndarmálum sem safnast hafa upp síðan við hittumst síðast.
Algerlega endurnærandi dagur, er svo ótrúlega lánsöm að eiga svona góðar vinkonur.

Hér má líta betri mynd af french toast-inu sem Berglind kom með og auðvitað fallega ömmubollanum

Þær voru alger tilraunadýr fyrir tertuna en ég á eftir að betrumbæta hana örlítið þar sem neðri botninn varð að smá drullu en mun laga það næst. Bleytti greinilega aðeins of mikið upp í þeim. Ég gerði klassíska uppskrift af svampbotnum en sú sem ég lærði er svona:

Taktu fram 3 alveg eins glös. Settu 3 stór egg í eitt glas. Hveiti í annað sem nær jafn hátt og eggin og sykur í þriðja glasið sem nær upp að sama marki. Taktu 1 msk úr hveitinu og settu kartöflumjöl og 1 tsk af lyftidufti. Sett í tvö 22cm form og bakað við 170°c í ca. 30 mín.

Ég tók svo slatta af frosnum jarðarberjum og afþýddi á djúpum diski, dreifði sirka 2 msk af sykri yfir þau og lét sykurinn leysast upp í safanum. Stappaði þau og setti á annan botninn (næst ætla ég að minnka verulega magnið af safanum). Setti svo jarðarberjasmjörkrem (venjulegt smjörkrem með dágóðu magni af jarðarberjasultu) á hinn botninn og lagði þá saman. Ég smurði þeyttum rjóma utanum tertuna og setti bleikar marengsdúllur ofan á. En þær gerði ég í rauninni bara til þess að nýta eftir smákökugerðina um daginn, en þar urðu eftir 2 eggjahvítur. Ég þeytti þær með 100gr af sykri þar til úr varð marengs, setti smá bleikan matarlit. Sprautaði svo litlar dúllur á plötu, hefði kannski mátt vera með lægri hita en ég trúi því að 120°c í ca 20 mín væri fínt. Geyma þær svo í ofninum yfir nótt.

Algerlega fullkomin í svona dömuboðföstudagur, 7. nóvember 2014

Hnetusmjörskökur með hvítu súkkulaði og valhnetumÞessar smákökur eru ekkert venjulegar smákökur. Þetta eru svona lúxusbitar sem hægt er að baka allt árið en auðvitað alveg tilvalið að skella í þær fyrir jólahátíðina. Ég fæ nánast í hnén þegar ég heyri orðið hnetusmjör og elska hvítt súkkulaði svo hvað ætti að klikka? Ég studdist við nokkrar uppskriftir við gerð þessarar og það er örugglega alveg frábært að skipta út valhnetunum fyrir salthnetur eða pekanhnetur.
Þær eru mjög einfaldar í vinnslu og ég get svo svarið það, frá því að ég byrjaði að setja hráefni í skál og þær komu rjúkandi úr ofninum, liðu kannski 25 mínútur. Það er vel af sér vikið!

Innihald:

1 og 1/4 b. hveiti
1 b. grófir hafrar (appelsínuguli Solgryn)
1/4 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
115gr smjör
6 msk hnetusmjör (ekki lífrænt, frekar ES eða Peter Pan)
1 b. púðursykur
1/2 b. sykur
1 stórt egg + 1 eggjarauða við stofuhita
2 tsk vanilludropar
100gr grófsaxað hvítt súkkulaði eða dropar
90gr valhnetur gróflega saxaðar

Byrjið á því að hita ofninn í 170°C. Bræðið smjörið og hnetusmjörið við vægan hita í potti og kælið aðeins. Setjið þurrefnin í skál og setjið til hliðar. Setjið sykurinn í aðra skál ásamt eggjum og vanilludropum, hrærið smjörblönduna saman við sykurinn. Hellið þessu blauta í þurrefnin og blandið varlega saman með sleikju. Þegar þetta er orðið samfellt (og verður nokkuð þykkt) deig, blandið þá hnetunum og súkkulaðinu saman við. Setjið deigið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu með 2 teskeiðum og mótið lauslega kúlur sem eru aðeins minni en golfboltar. 
Bakið í 10-12 mín. Betra að fylgjast með og hafa þær minna bakaðar en meira.
Úr uppskriftinni fékk ég 28 kökur eða rétt tæpar 2 plötur, það er að sjálfsögðu hægt að stækka þær og fá færri stórar kökur.

miðvikudagur, 5. nóvember 2014

Brauð í potti - Líklega besta heimabakaða brauðið!

Þessa dagana er ég öll í því að gera "besta" þetta og "besta"hitt. Hef verið voðalega lánsöm og allt sem ég hef verið að prófa og gera hefur smakkast ótrúlega vel. Þetta brauð sem ég gerði í dag (og byrjaði á í gær) er það besta sem ég hef nokkurn tíma gert heima hjá mér. Í alvöru talað.
Það er algerlega á pari við 750 króna súrdeigsbrauðið sem ég hef stundum keypt í ónefndu bakaríi og blætt fyrir. Þetta brauð kostar hinsvegar í mesta lagi 150kall. Það er nefnilega ekkert í þessu að viti. Það er það fáránlega í rauninni. Eina sem maður þarf að eiga er ofn og pottur sem má fara inn í ofn. Það er mjög gott að nota frönsku leirpottana, en alveg hægt að nota líka svörtu venjulegu ofnpottana.

Hugmyndin er ekki mín og uppskriftin er ekki mín, ég ætla ekki einu sinni að reyna að stela henni. Margar útgáfur af svona brauðum eru til og ég studdist við þessa uppskrift. Ég set inn nokkrar myndir af ferlinu, bara svona til að sýna að þetta er sko ekkert plat!

Þarna var ég búin að blanda saman hráefnunum í skál og búa til frekar blautt deig, á leið í 14-18 tíma hefingu!

Þetta er eftir hefingu #1. Maður tekur s.s deigið eftir 14-18 tíma, setur vel af hveiti á hendurnar og býrð til kúlu með því að teygja deigið undir kúluna. Leggið kúluna svo á hveitistráðan bökunarpappír og stráið hveiti líka ofan á. Brjótið pappírinn utan um deigið og setjið viskustykki yfir. Hefið í ca. 2 tíma. Þegar hefun er brátt lokið, forhitið þá pottinn í ofninum á 220°c.

Þarna er deigið tilbúið að fara í sjóðheitan pottinn!

Smá trikkí en það hafðist, setjið aðra höndina undir bökunarpappírinn og hvolfið deiginu í hann, núna fara s.s samskeytin upp. 

Þarna er brauðið búið að bakast í 40 mín í ofninum. Tek lokið af og aftur inn í ofn í 7-10 mín.

Tadaaaaa!!!!

Það er í alvöru svona fallegt!

Sjáið fagmennskuna hah?! Að sögn mannsins míns hefur síðasta bakarísferðin verið farin! ;)


Uppskriftin:

6 bollar brauðhveiti (bláa kornax, það er best í brauðbakstur)
1/2 tsk þurrger
2 1/2 tsk salt
2 og 2/3 b. kalt vatn. Þurfti reyndar að bæta aðeins við vatni, fer líklega bara eftir aðstæðum. 

sunnudagur, 2. nóvember 2014

Snúðar - betri en úr bakaríinu!


Já nú er ég aldeilis að fullyrða stórt! Mér finnast þessir snúðar miklu betri en þeir sem fást í bakaríum og það er auk þess talsvert ódýrara að gera þá heima. Það er auðvelt að frysta þá og taka þá bara svo út og hita upp eftir þörfum. Þeir eru svo ótrúlega lítið vesen að það er eiginlega bara lygilegt. Það eru nokkur atriði í aðferðinni sem gerir það að verkum að þeir verða alveg svakalega mjúkir og góðir. Algerlega fullkomnir í helgarbaksturinn eða þegar ætlunin er að baka mikið og eiga í frysti. Þá er tilvalið að tvöfalda uppskriftina!

Innihaldsefni:

700gr Kornax brauðhveiti í bláu pokunum (mæli með því að nota frekar brauðhveiti í gerbakstur)
1 1/2 tsk salt
4 tsk þurrger
80gr sykur
4 dl volgt vatn
1 dl jurtaolía

Fylling:
3msk sykur
3msk púðursykur
1 msk kanill
Blandið saman í skál

Setjið saman þurrefnin í hrærivélaskál og blandið aðeins saman með króknum. Bætið við vökvanum og hnoðið í hrærivélinni, fyrst mjög varlega en aukið svo aðeins hraðann. Hér er lykilatriði að hnoða deigið lengi. 5mín er gott, mæli með því að fylgjast með tímanum, ég tók einmitt úr uppþvottavélinni og fór að raða í hana á meðan!
Látið hefast á volgum stað með rakt stykki yfir í ca. 30 mín.

Takið svo deigið úr skálinni og setjið á hveitistráða borðplötu. Fletið það út í nokkuð góðan ferhyrning og stráið sykur/kanilblöndunni jafnt yfir deigið (Athugið að ég set ekkert smjör undir sykurinn!). Rúllið upp í lengju og lokið kantinum með því að pensla hann með vatni. Skerið lengjuna í hæfilega snúða og raðið á plötu.
Nú kemur annað gott trix. Hitið ofninn í 50°c, úðið snúðana með volgu vatni og setjið í ofninn. Látið hefast í ofninum í 45mín. Úðið snúðana 1x-2x á tímanum.

Takið snúðana út og hitið ofninn í 220°c. Bakið þá í ca. 10-12 mín, fer þó eftir ofnum. Fylgist bara með.

Mér finnst best að setja súkkulaðiglassúr, ég slumpa flórsykri, smá kakói og örlítilli slettu af mjólk og blanda saman, betra að hafa hann þykkari en þynnri. Set á þá þegar þeir eru orðnir nánast kaldir (svo glassúrinn leki ekki útum allt!)

Þessir eru algert æði!

laugardagur, 25. október 2014

Hnetusmjörsnammi - Þarf ekki að baka!


Ó ef aðeins ég gæti borðað hnetusmjör í öll mál. Þá væri nú gaman að lifa!
Ég hef alltaf verið afar veik fyrir öllu sem hnetusmjör er í. Og þessi tvenna, hnetusmjör og súkkulaði var fundin upp í himnaríki, er ég viss um. Ég er alveg þessi sem rýk upp til handa og fóta þegar það kemur hnetusmjörsútgáfa af einhverri þekktri sælgætistegund, eins og t.d Lion bar með hnetusmjöri, hvaða snillingur fann upp á því?!

En jæja, að máli málanna.

Þetta er óbakað sælgæti sem auðvelt er að gera, þarf bara að kæla aðeins á milli. Innihaldsefnin eru ekki dýr, ég er ekkert heldur að snobba fyrir tegundum innihaldsefnanna. Ég nota hér Euroshopper kornflex og Euroshopper hnetusmjör og salthnetur og ég bara verð að viðurkenna, finn engan mun og á því og á þekktum vörumerkjum. Svo enginn fer á hausinn við gerð þessa nammis.
Ég er svo innilega búin að ákveða að þetta verði jólakonfektið mitt í ár. Á örugglega eftir að gera sjöfalda uppskrift!

En jæja. Í þetta þarf:

1/2 bolla sykur
1/2 bolla síróp (notaði þetta í grænu dollunum)
1 bolla ES hnetusmjör (skiptir samt engu máli hvernig, held bara að það virki ekki alveg nógu vel að vera með hreinu hnetusmjörin í þessu, þetta þarf að bráðna svolítið)
1/3 bolla salthnetur, aðeins saxað í þær
3 bollar kornflex gróflega mulið
150gr súkkulaði, má vera bara suðusúkkulaði, eða bara mjólkur. Ég notaði 100gr af suðusúkkulaði og 50gr af hvítu og blandaði saman.

Setjið sykur, síróp og hnetusmjör í pott og bræðið saman. Bætið salthnetum og kornflexi út í pottinn og hrærið saman. Setjið bökunarpappír í skúffukökuform og þjappið blöndunni þar ofan í. Kælið mjög vel, ég setti mitt út á svalir, tók enga stund að kólna.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og smyrjið yfir kalda "kökuna". Kælið aftur vel og skerið í teninga.

Njótið svo vel!
Girnilegt! (afsakið myndgæðin samt, mynd tekin á síma að kvöldi verður aldrei góð!)

sunnudagur, 19. október 2014

Unaðslega mjúk súkkulaðiterta með karamellukremi, ganache, pekanhnetukrókant og örlitlu sjávarsalti.


Í dag fórum við í fjölskylduboð. Sem er svosem ekkert í frásögur færandi nema hvað að þá finnst mér voðalega gott að fara í kjól og mæta með góða köku. Í pabba fjölskyldu hefur skapast sú hefð að þegar við hittumst þá mætir hver og einn með einn rétt, þá verður þetta allt svo auðvelt og þægilegt. Það er líka svo frábært að smakka allskonar ólíka rétti úr öllum áttum. Einhverra hluta vegna mæti ég oftast með eitthvað svona Pinterest gúmmelaði. Blanda s.s saman einhverjum hugmyndum af kökum sem ég hef "pinnað", því ómögulega get ég farið eftir einni uppskrift frá a-ö. Mér virðist það vera bara lífsins ómögulegt!

Ég tók nokkrar hugmyndir hér og blandaði saman, dettur ekki til hugar að eigna mér hugmyndina að ganache kremi yfir ljóst krem osfrv.
Hér er ég með mjúka súkkulaðiköku, bara gömlu góðu dásamlegu. Setti á milli og utan um hana karamellukrem, yfir það ganache. Ofan á það skreytti ég með pekanhnetukrókant og sjávarsalti. Hljómar miklu flóknara en það er. En alveg eins góð og hún lítur út fyrir að vera. 


Kakan:

2 bollar hveiti
1 1/2 b. púðursykur
1/2 b. kakó
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
2 stór egg
1 b. súrmjólk eða AB mjólk
3/4 b. jurtaolía (alls ekki ólífuolía)
2 tsk vanilludropar eða vanilluessence
1/2 b. sjóðandi vatn.


Blandið þurrefnum fyrst í skál, bætið síðan við eggjum, ab mjólk, olíu og vanilludropum. Hrærið eins vel saman og hægt er, blandið vatninu í að síðustu (svo við eldum ekki eggin ;) ) Skiptið í tvö kringlótt form og bakið við 180°c í 22-24 mín. 


Karamellukrem

1 bolli mjúkt smjör
1/2b tilbúin fljótandi karamella (karamellusósa)
4 b. flórsykur
1/4 tsk sjávarsalt
2 msk rjómi eða nýmjólk
1 tsk vanilludropar

Setjið smjörið í skál og þeytið vel. Bætið síðan restinni af hráefnunum út í. Þeytið áfram í ca 4 mín. 


Ganache hjúpur

120gr gott dökkt súkkulaði saxað
1/3 b rjómi
2 msk karamellusósa
Örlítil klípa af sjávarsalti

Hitið rjómann í potti að suðu og slökkvið undir, bætið söxuðu súkkulaðinu saman við ásamt karamellunni og saltinu. Hrærið þar til slétt og fellt. Kælið aðeins.


Pekanhnetukrókant

50gr pekanhnetur
2 msk sykur

Setjið hneturnar á pönnu og ristið aðeins, bætið sykrinum útá og hrærið í þar til sykurinn er bráðnaður og brúnaður og hneturnar vel hjúpaðar. Færið á bökunarpappír og dreifið úr, kælið vel. 


Samsetning tertunnar:


Smyrjið karamellukreminu á annan botninn. Setjið hinn botninn yfir og hjúpið tertuna með restinni af karamellukreminu. Ég settir reyndar ekki allt á mína, frysti afganginn af kreminu. Kælið tertuna vel þegar kremið er komið á. Þegar kremið er orðið vel kalt, þá er gott að gera ganache hjúpinn og setja hann á tertuna. Passið bara að kæla hann niður áður, ekki gott að setja hann mjög heitann á.

Saxið pekankrókantinn og dreifið yfir hjúpinn og toppið með örlitlu af sjávarsaltflögum.

Þessi er dásamleg með bolla af rótsterku kaffi með örlitlum rjóma út í, já það er sko lúxus útgáfan ;)

laugardagur, 13. september 2014

Sykurlausar smákökur með eplum, rúsínum og kanilÉg er hreinlega elska að fletta í gegnum matarmyndir á Pinterest í von um smávegis innblástur. Oftast finn ég eitthvað sniðugt sem kveikir hugmynd að nýrri uppskrift og þessi er akkúrat þannig. Ég er alltaf að reyna að finna eitthvað sniðugt sem ég get gúmmelaðast (já það er sko orð) með kaffinu án þess að liggja í sykurvímu á eftir. Ég er nýbúin að kaupa mér Sugarless Sugar frá Now og vantaði einhverja sniðuga uppskrift til þess að prófa þetta nýja (nýtt fyrir mér amk!)
Ég er bara nokkuð hrifin af þessum "sykri" og finnst hann svona minnst gervilegastur af þeim sem ég hef prófað en þetta er blanda af Erythritoli og Stevíu.
Ég mæli 100% með þessum litlu kökum en mín vegna mætti alveg vera aðeins minna af "sykrinum", ég notaði 2/3b en mætti alveg vera bara 1/2b.

Innihald:

1 bolli heilhveiti eða gróft spelt
2 bollar grófir hafrar
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk sjávarsalt
1 tsk kanill
1 mjög slappur banani
2 meðalstór egg
2 msk olía
1/2 - 2/3 bolli Sugarless sugar frá Now
1 tsk vanilluessence (eða dropar)
1 jonagold epli afhýtt og rifið á rifjárni
1/2 bolli rúsínur

Byrjið á því að hita ofninn í 180°c. Takið svo stóra skál og setjið bananann í hana, stappið hann í spað og bætið við eggjum, olíu, vanilluessence og Sugarless sugar og þeytið vel með handþeytara. (Eða mjög vel með písk). Blandið saman hveiti, höfrum, lyftidufti, matarsóda, salti og kanil í skál og blandið saman. Hellið út í blautefnin í nokkrum skömmtum og hrærið varlega á milli með sleikju. Að síðustu þegar allt er blandað saman setjið þið rifna eplið og rúsínurnar.
Setjið á bökunarplötu með skeið og bakið í ca. 13-15mín.
Það er svolítið erfitt að hemja sig, gleypti í mig þrjár! Smakkast ótrúlega vel með funheitu kaffi ;)


"Sykurinn" lítur svona út, keypti minn á heilsudögunum í Nettó!

miðvikudagur, 3. september 2014

TacosúpaMér finnst mexíkósk kjúklingasúpa rosa góð. En það er ekkert alltaf, eða eiginlega bara sjaldan sem ég nenni að gera hana. Svo tími ég sjaldan að kaupa kjúklingabringur. Er soddan nískupúki. Mig langaði í einhverja mexíkóska súpu og mundi eftir að hafa einhverntíma séð súpu svipaða þessari. Ég tók bara eitthvað grænmeti sem ég átti. Átti afgang af hakki. Fann líka rjóma síðan ég hélt smá kaffiboð um helgina.. hitt og þetta og allskonar og úr varð þessi agalega fína mexíkóska tacosúpa. 
Mér þykir agalega leiðinlegt að fara sérstaka ferð í búðina til þess að kaupa í eina uppskrift. Enda því oftast með að nýta eitthvað sem ég á. En þá er líka gott að eiga ágætis "pantry". 
Ég á yfirleitt nokkrar tegundir af baunum og fræjum, niðursoðna tómata, tómapúrru, ýmis krydd og allskonar. Eitthvað sem endist eitthvað. Ég tel allavega sjálfri mér trú um það að það sé sparnaður í því. ;)

Þetta endaði einhvernveginn svona:

250gr nautahakk
2 gulrætur
1 paprika rauð
1 rauðlaukur
1 blaðlaukur hvíti hlutinn
3 hvítlauksrif
1 bréf tacokrydd
1 nautateningur
Stór krukka salsasósa eða eftir smekk. Styrkleiki fer líka eftir smekk
1 lítil dós tómatpúrra og síðan tóm fernan fyllt af vatni og sett út í
1 ferna tómat passata (þykkur tómatsafi í fernu)
2 dl matreiðslurjómi, eða venjulegur rjómi

Sýrður rjómi
Flögur
Rifinn ostur ef vill

 Ég saxaði allt grænmetið og svissaði það í stórum potti. Bætti síðan hakkinu út í og kryddaði með tacokryddinu. Því næst setti ég tómatsafann út í, fyllti síðan tóma fernuna af köldu vatni og bætti í pottinn. Nautateningi hent út í og látið malla í svona 20 mín. Bætti síðan rjómanum út í og lét malla í svona 10 mín í viðbót.
Var einmitt mjög fínt að nota tímann á meðan súpan mallaði að ganga frá í eldhúsinu, leikföngum dótturinnar, þvotti ofl. Elska mat sem eldar sig sjálfur!
Svo skúbbuðum við sýrðum rjóma út á og flögum og allir sáttir!

P.s Hugsa að þessi súpa nægi fyrir svona 4 svanga. Við vorum allavega 3 og þar af tvö mjög svöng. Og það er afgangur! Halló nesti!

föstudagur, 15. ágúst 2014

Sykurlaust bananabrauð
Ég er alger sökker fyrir bananabakstri eins og hefur örugglega komið fram hérna einhversstaðar. Bananamuffins og bananabrauð hverskonar eru þar efst á lista. Það þarf í raun ekki auka sætu þegar maður er með vel þroskaða banana en margar uppskriftir gera ráð fyrir gríðarlegu magni af sykri. En þá koma döðlur sterkar inn. Ég elska döðlur næstum jafn mikið og jarðarber. Alveg frábær staðgengill sykurs í bakstri og nýti mér þær óspart.

Þessi uppskrift sem ég ætla að gefa ykkur er samsuða úr allskonar uppskriftum sem ég fann á internetinu með allskonar breytingum og viðbótum.
Hún er eftirfarandi:

140gr döðlur
2 þroskaðir bananar
1/2 dl olía
1 dl ab mjólk
1 tsk vanilludropar
2 stór egg
110gr haframjöl
80gr gróft spelt
1/2 tsk salt
3 tsk lyftiduft

Byrjið á því að leggja döðlurnar í sjóðandi vatn á meðan þið græjið annað á meðan. (Þarf ekki ef þið notið ferskar döðlur). Setjið í blandara banana, olíu, ab mjólk, vanilludropa og egg, hellið vatninu af döðlunum og setjið í blandarann. Þeytið þetta á milljón þangað til allt er orðið vel maukað. Setjið þá þurrefnin út í og blandið bara rétt saman við með því að ýta á "pulse". Alls ekki setja blandarann á fullt eftir að þurrefnin eru komin út í því þá verður brauðið þétt og leiðinlegt.
Setjið í smurt ílangt form eða klæðið formið með bökunarpappír.


 Bakið við 175°c í 45mín. Fer eftir ofnum þó, fylgist bara vel með. Það er tilbúið þegar það er gyllt á lit og prjónn kemur hreinn út sem hefur verið stungið í brauðið.


þriðjudagur, 5. ágúst 2014

Jarðarberja og sítrónu ostaköku triffliÓ hvað ég elska jarðarber og sítrónur mikið, þetta jaðrar næstum við þráhyggju. Og þegar þessu er blandað saman í unaðslegt kombó eins og þetta sem ég ætla nú að deila með mér þá liggur næstum við yfirliði. Bætum við smá rjómaosti og kexmulningi og þetta verður fullkomnun. Ég lofa.
Þessi eftirréttur er mjög sumarlegur og alveg passlega sætur. Mæli með því að gera þennan þegar það er jarðarberja útsala, nú eða útborgunardagur. Jarðarber eru því miður ekkert sérstaklega ódýr hér á landi en einstaka sinnum koma góðar jarðarberja útsölur. Þá kaupi ég yfirleitt nokkra bakka. Alveg vandræðalega marga. Og fer svo jafnvel aftur í búðina til þess að kaupa meira. Jöbb, þá hamstra ég!
Þetta er smá föndur og mæli sérstaklega með því að gefa sér tíma um eða yfir hádegi ef þetta á að vera í boði sem eftirréttur. Það má örugglega geyma trifflið í kæli yfir nótt ef ætlunin er að bjóða upp á það í eftirmiðdaginn sem rétt á afmælisborði. Hugsa einmitt með mér að þetta sé fullkomið sem mótvægi við súkkulaðikökur í afmælum, eru ekki allir komnir með leið á marens annars? ;)

Við tökum til meðalstóra glerskál, ekkert verra ef hún er falleg.
Byrjum á því að gera kexmulninginn sem fer í botninn:

Kexmulningur

rúmlega hálfur pakki appelsínugulur hobnobs
70gr brætt smjör
2 msk flórsykur

Myljið kexið og setjið í skál, smjöri og sykri bætt út í og hrært saman með skeið. Þrýstið helmingnum ofan í skálina, eða einum þriðja ef þið viljið hafa 3 lög af kexi.

Sítrónuostablanda

225gr rjómaostur
1 lítil dós kea vanilluskyr
1 1/2 dl rjómi þeyttur
börkur af heilli sítrónu
safi úr hálfri sítrónu
4 matarlímsblöð
Flórsykur eftir smekk (ég setti kannski 3 msk, annars bara man ég það ekki, þetta er svona smakka til atriði)

Þeytið 1 og hálfan desilíter af rjóma og setjið til hliðar. Þeytið svo saman rjómaostinn og skyrið ásamt flórsykri, raspið út í blönduna sítrónubörkinn og hrærið við ostablönduna.
Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn í ca. 5 mín. Setjið sítrónusafann í lítinn pott og hitið að suðu, kreistið þá vatnið úr matarlíminu og setjið út í sítrónusafann. Þegar límið er alveg brætt og blandan vel heit, hellið henni þá í mjórri bunu út í ostablönduna og þeytið aðeins áfram. Smakkið svo aftur hérna, þarf meiri flórsykur? bæta við hér og hræra vel. Hrærið að síðustu þeytta rjómanum saman við.

500gr Jarðarber (má alveg vera meira mín vegna ;) )
1 pk Lady finger kex (má sleppa)
Jarðarberja Jello útbúið samkvæmt leiðbeiningum (sleppið ef fingurkexið er ekki notað)

Þá hefst röðunin.

Þjappið helming eða einum þriðja af kexmulningnum ofan í skál, raðið fingurkexinu í hring (ef það er notað) og hellið svo hluta af rjómaostablöndunni yfir kexið:


Raðið svo jarðarberjasneiðum eftir smekk ofan á ostablönduna (meira er betra).


Og meira kex...

Og mikið meira af jarðarberjum...


Hérna gæti komið meira af kexi, fer eftir því hvort eitthvað sé eftir, ef ekki kemur það ekki að sök, því það er fínt að setja bara strax aftur meira af ostablöndunni:


Og núna enn meira af jarðarberjasneiðum....


Að síðustu hellum við jelloblöndunni vel yfir kexið, ég hefði mátt setja meira því það var ekki nógu blautt, en ef þú sleppir lady finger kexinu, þá sleppir þú líka jellóinu. Nema að þú viljir fá hlauplag ofan á jarðarberin.


Geymið í kæli í nokkra klukkutíma. Og já, ég var svo gráðug að ég gleymi að taka lekkera mynd af þessum unaði á fallegum diski. Með ostakökublik í augum og jarðarber út á kinn mundi ég eftir því að taka mynd. Þessvegna eru þær svona...

En hún er falleg er það ekki? Svona þrátt fyrir allt ;)

mánudagur, 21. júlí 2014

Jarðarberja ískrap - Uppáhalds sumardrykkurinn minn!


Þennan drykk gæti ég líklega drukkið alla daga, í öll mál. Hann er ótrúlega ferskur og hollur en umfram allt algert sælgæti. Hann færir auk þess birtu í hjartað á manni á þessum rigningartímum, hann er nefnilega líka svo fallegur á litinn! Sé líka alveg fyrir mér að það sé ekkert verra að setja eitthvað pínu sterkt út í hann á heitu sumarkvöldi, nú eða bara köldu rigningarkvöldi. Hvort sem er, verður maður örlítið hamingjusamur eftir eitt stór glas af þessum. C vítamín, fólinsýra, potassium (gott fyrir blóðþrýstinginn) trefjar ofl. ofl gott fyrir mann í þessu! 

Þú þarft að eiga þokkalegan blandara sem ræður við klaka og/eða frosna ávexti og þá ertu bara good to go.

Til þess að gera um það bil hálfan líter af þessum unaði þarftu eftirfarandi og athugið, magnið er ekkert heilagt, það má smakka til fram og til baka.

2 bollar frosin jarðarber, jafnvel meira
1 epli, afhýtt og í bitum
5+ stór fersk myntublöð
2-3cm bútur af ferskum engifer
2 dl kalt vatn (meira ef þarf)
1 dl sykurlaus eplasvali (má sleppa og setja meira vatn)


Setjið allt saman í blandarann og látið hann vinna vel, endilega smakkið til. Ég vil t.d hafa mikla myntu í mínum svo það má alveg bæta í. 
Skál!

sunnudagur, 20. júlí 2014

Svartbauna og hýðishrísgrjónaborgarar - VeganÉg gerði þessa borgara fyrst fyrir örfáum mánuðum síðan. Fann uppskrift á netinu sem í var rasp, egg ofl. Þeir voru mjög góðir en langaði að prófa að gera þá aftur með hýðishrísgrjónum og sleppa eggi og breyta aðeins kryddum. Fyrir vikið verða þeir vegan eða án dýraafurða. Ég borða alveg dýraafurðir en eins og ég segi í færslunni á undan, þá er bara fínt að prófa eitthvað annað stundum.
Þetta er ódýr og bragðgóður matur, og að setja þessa borgara í gróft brauð með fullt af grænmeti og góðri sósu er pottþéttur og mettandi kvöldmatur.

Aðferðin er sú sama og ég notaði við þessi kjúklingabaunabuff en innihaldsefnin ansi ólík. Fyrir grænmetisætur er þetta frábær kostur í stað hamborgara!

Í borgarana þarftu:

3 bolla af soðnum svörtum baunum. (bæði hægt að sjóða sjálfur eða kaupa í dós)
2 bolla af basmati hýðishrísgrjónum
4 tsk dijon sinnep
2 tsk laukduft
2 tsk paprikuduft
1 tsk hvítlaukssalt
2 msk þurrkuð steinselja
pipar og salt eftir smekk (finnst gott að setja vel af pipar)

Rasp:
smá spelt, smá sesamfræ

Ef þið viljið krydda meira eða minna, þá er það allt í fínu. Það góða við þetta er að það er hægt að smakka til svona borgara áður en þeir eru steiktir. Maður er auðvitað ekki vanur því með kjötborgara ;)
Mótið buff, setjið þá í rasp og kælið í minnst hálftíma.
Steikið upp úr jurtaolíu og leggið á pappír til að taka umfram olíu. Þessa borgara er mjög gott að frysta.
Verði ykkur að góðu!

laugardagur, 28. júní 2014

Gulróta og ávaxtakaka

Líklega ógirnilegasta kökumynd sem hefur birst á bloggi en það kemur ekki að sök er það? Ég hef alltaf verið mikið fyrir gulrótakökur en finnst voðalega fínt að geta sleppt öllum þessum hvíta sykri. Ó trúið mér, ég er bara almennt mikið fyrir kökur og bakkelsi en það hefur þann leiða eiginleika að vera yfirleitt dísætt og það er bara ekkert gott fyrir neinn. Allt í lagi spari og allt það en ég er rosa hrifin af því að nota allskonar ávexti í staðinn. Ekki verra að fá smá næringu með!

Þessi er frekar matarmikil, gæti alveg verið fín sem morgunmatur, svo holl er hún ;)

Innihald:
2 stórar gulrætur rifnar
1 epli rifið
1 þroskaður banani
9 ferskar döðlur saxaðar
1 dl rúsínur
2 dl haframjöl
2 dl fínt spelt
1 msk lyftiduft
1 tsk kanill
1/2 tsk salt
2 egg
1/3 dl kókospálmasykur
2 tsk vanilludropar
1/2 dl jurtaolía eða bragðlaus kókosolía

Kremið:
6 ferskar döðlur
50gr mjög mjúkt smjör
4 msk rjómaostur
1 tsk vanilludropar
3 sprautur vanillu stevia frá Via health
2 msk sukrin
nokkrir dropar sítrónusafi

Byrjið á því að rífa gulræturnar og eplið og setjið til hliðar. Hitið svo ofninn í 175°C. Stappið bananann í stórri skál og bætið út í hana eggjunum, vanilludropum og olíu og pískið vel. Saxið döðlurnar vel og pískið þær út í eggjablönduna. Bætið því næst þurrefnum, gulrótunum, eplinu og rúsínunum út í og hrærið varlega í með sleif.
Setjið í smurt hringlaga form og bakið í ca 25mín, fer eftir ofnum.

Fyrir kremið þarf fyrst að steinhreinsa döðlurnar, setja þær í lítinn mixer ásamt smjöri og vanilludropum, bætið rjómaosti við, sukrin, stevíu og sítrónusafa og mixið áfram. Gott að skafa niður hliðarnar með sleikju á milli. Færið svo blönduna í skál og þeytið með handþeytara nokkuð vel. Þið getið svo smakkað kremið til, ef ykkur finnst það ekki nógu sætt er hægt að bæta aðeins sukrin eða stevíu við.fimmtudagur, 26. júní 2014

Tvöfaldar bananarjómapönnukökur


Ó dear, þessar eru algert æði. Ótrúlega einfaldar, doltið hollar, sykurlausar.. ekkert vesen! Allt í lagi, það er náttúrulega ávaxtasykur úr bönununum og smá kókospálmasykur en það er ekki hvítur sykur og ekki eins vondur fyrir mann.
Ég hef alltaf verið hrifin af því að baka með bönunum og svona "amerískar" pönnukökur hafa alltaf verið í uppáhaldi. Bættu við rjóma, meiri bönunum ofaná (og jarðarberjum ef þú átt) og þá erum við algerlega að tala saman! Ég gleymdi að setja kókosolíuna út í í dag og það kom bara alls ekki að sök.

Þessar dúllur innihalda svo lítið sem:

1 þroskaður banani í stærra lagi eða tveir litlir
2 egg
1.25 dl fínmalað spelt
1/4 tsk salt
2 tsk lyftiduft
 1/2 - 1 msk kókospálmasykur (má sleppa)
2 msk nýmjólk (eða önnur mjólk fyrir mjólkurofnæmispésa)
1 msk kókosolía (má líka sleppa)
1 tsk vanilludropar

Byrjið á því að stappa bananann í skál með gaffli, bætið vanilludropum og eggjum út í og pískið vel. Bætið þurrefnum út í og hrærið varlega þar til allt er blandað saman. Ef þörf er á mjólk þá má bæta henni hér út í, einnig olíunni ef þið viljið. Þær verða örlítið þurrari án olíunnar en samt ekki svo, bananinn bætir það upp að mestu.

Bakið pönnukökurnar á góðri teflonpönnu við miðlungshita. Frekar hafa minni hita en meiri svo þær brenni ekki og verði hráar inn í, þolinmæði er lykillinn! Ég fæ svona 6-7 góðar pönnukökur úr þessari uppskrift, verða þykkar og fínar.
Mér finnst best að njóta þeirra með góðum kaffibolla :)


miðvikudagur, 25. júní 2014

Kjúklingabauna og gulrótabuff

Kjúklingabaunabuff


Þó ég sé kjötæta og finnist vel eldað kjöt virkilega gott finnst mér líka ofsalega gott að borða bauna og grænmetisbuff inn á milli. Eiginlega bara nauðsynlegt. Vil hafa smá fjölbreytni í lífinu. Vel kryddaður (ekki endilega sterkur en bragðmikill) grænmetismatur er með því besta sem ég veit.
Ég er til dæmis mjög hrifin af öllu sem ég hef smakkað af Gló og einn besti hátíðamatur sem ég hef bragðað er hnetusteik með tilheyrandi sósu frá Grænum kosti (svo góð að hún verður með næstu jól!).

Það er ódýrt að gera svona buff, eiginlega svo ódýrt og einfalt að maður ætti að gera þetta reglulega og eiga í frysti. Verð út úr búð er í engum takti við hráefniskostnað. Ég er bara of nísk til þess að eyða í eitthvað sem ég get gert sjálf og oftast er þetta heimatilbúna betra.

Ég studdist við uppskrift úr gömlu Sollu Hagkaupsbókinni, sumt af hráefnunum átti ég ekki til og ekki hrifin af öðrum. Einnig breytir engu hvort maður notar kjúklingabaunir úr dós eða leggur í bleyti og sýður sjálfur.

Í þessi buff þarftu eftirfarandi:

6dl kjúklingabaunir
4 kartöflur í stærrikantinum eða 2 bökunarkartöflur
1 stór gulrót, rifin á fínu rifjárni
4 msk kartöflumjöl
2 msk karrý
1 tsk kóríander þurrkað
3 hvítlauksrif maukuð
1 tsk paprikuduft
2 msk þurrkuð steinselja
salt og pipar eftir smekk
smá klípa chiliduft (má sleppa)

Rasp:
Smá fínt spelt
Smá kornmjöl (eða bara spelt ef þið eigið það ekki)
Sesamfræ

Ef þið notið þurrkaðar baunir, þarf að leggja þær í bleyti í 12-18 tíma deginum áður. Sjóða þær svo í 1 1/2 tíma og kæla. Einnig er mjög fínt að nota niðursoðnar baunir.
Setjð baunirnar í skál og stappið með kartöflustöppu. Bætið svo kartöflum út í og stappið meira. Setjið svo allt hitt út í skálinu og hnoðið með höndunum (ég nota einnota hanska, finnst það betra útaf litnum í kryddunum).
Mótið buff, stærðin er ekkert heilög en ég fékk 12-14 buff útúr þessari uppskrift. Tók ca. lúku af maukinu, geri fyrst kúlu og móta svo buffið.
Set það út í raspið. Nauðsynlegt er að kæla buffin í svona hálftíma áður en þau eru steikt. Ég setti þau bara öll á stórt bretti og geymdi þau þannig í ísskápnum.
Steikti þau upp úr blöndu af kókos og jurtaolíu. Setti þau svo á pappír á disk til þess að draga aðeins í sig umfram olíu.
Svo er bara að njóta strax eða kæla niður og setja beint í frysti.


Buffin komin á pönnuna


Tilbúin!


mánudagur, 23. júní 2014

Sumarleg sítrónuterta með jarðarberjum


Játningar sítrónusjúklings.
Ég elska allt sem heitir sítrónu eitthvað. Skiptir ekki máli hvað það er, en þessi kaka og lemon curdið hérna neðar er alveg í topp 5 yfir ómótstæðilegt sítrónugúmmelaði!
Hún er rosa fín í 2 22cm smelluform og krem á milli en mér finnst alltaf eitthvað svo girnilegt að borða "skúffukökur" sem eru ekki súkkulaðikökur.
Setti þessa því í venjulegt skúffukökuform (æji svona með loki, fæst á mörgum stöðum).

Í þessa köku þarf eftirfarandi hráefni:

2 bolla hveiti
1/2 tsk salt
3 tsk lyftiduft
1 1/2 bolli sykur
3 lítil egg (eða 2 stór)
1/2 bolli mjólk
1/2 bolli nýkreistur sítrónusafi
1/2 bolli jurtaolía (eða bráðið smjör)
1 1/2 msk rifinn sítrónubörkur (passa að taka ekkert af þessu hvíta með)
Gulur matarlitur ef vill, ég setti smá.

Krem:
100gr mjúkt smjör
250gr flórsykur
2 msk sítrónusafi
1 msk rifinn sítrónubörkur
1 tsk vanilludropar

Sigtið og blandið öllum þurrefnunum saman í stórri skál og í annari minni byrjið þið á að þeyta eggin vel saman, hrærið svo restinni af blautefnum + sítrónuberki saman við eggin. Gerið holu í þurrefnablönduna og blandið varlega saman með sleikju.
Bakið við 175°c í 25 - 30 mínútur, fer eftir ofnum.
Kremið: Blandið öllu saman í skál og þeytið mjög vel. Þið sjáið kremið hvítna eftir því sem þið þeytið lengur, gott að hafa það vel flöffí.
Skreytt eftir smekk með jarðarberjum eða einhverju sumarlegu skrauti.Rigatoni Bolognese með beikoni, balsamic ediki og cheddar

Ég gerði matseðil í gærkvöldi og ákvað að hafa í dag einhvern einfaldan pastarétt. Átti hakk og rigatoni pasta. Fór og gúgglaði allskonar hugmyndir og þetta er útkoman. Alveg ótrúlega góður þó ég segi sjálf frá og sérstaklega þegar maður tekur mið að því að þetta var "taka til í skápnum". En svoleiðis eldamennska finnst mér alltaf svo skemmtileg, þá er einhver áskorun í gangi og finnst eins og ég sé að keppa í matreiðsluþætti þar sem maður fær nokkur furðuleg hráefni og það er ætlast til þess að maður kokki upp eitthvað stórkostleg úr því. 
Þetta er s.s það sem ég legg til í þessa keppni:

500gr nautahakk
9 stórar sneiðar af beikoni (gramma fjöldi óræður) skorið í bita
2 sellerí stilkar saxaður
125gr sveppir saxaðir
1 laukur saxaður 
2 gulrætur skornar í bita
2 hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar í bitum
1 lítil dós tómatpúrra
2 msk balsamic edik
400 ml nautasoð (eða sjóðandi vatn og 2 teningar)
1 bolli rifinn cheddar ostur (má sleppa eða nota venjulegan rifinn ost)
Salt og pipar eftir smekk
500gr Rigatoni pasta
Steikið grænmetið í 2-3 mínútur, ekki brúna. Takið það til hliðar og steikið þá beikonbitana, bætið hakkinu ofan á þá og steikið þar til það er næstum gegnum steikt.

Bætið soði, tómötum, tómatpúrru, balsamediki, og grænmetinu út á pönnuna og látið malla. Smakkið til með salti og pipar.

Þetta mun líta einhvernveginn svona út. Samt ekki nauðsynlegt. 

Svo sýður maður pastað al dente en ég nennti ekkert að taka mynd af því.
Hellir soðinu af og skúbbar innihaldinu af pönnunni út í pottinn, osturinn ofan á og hrært ofurvarlega, pastað er nefnilega svolítið viðkvæmt. Það væri líka þjóðráð að hafa þetta allt í sitthvoru lagi. Bera pastað fram sér. Og strá ostinum yfir kjötsósuna rétt áður en þetta er borið fram.

Cheddar ostur er algerlega lífið!

Skúbba fullt af parmesan ofan á (setti sko mikið meira eftir að ég tók myndina, vildi að þið sæuð pastað!)

Ég var með salat með þessu, en það er líka fínt að hafa hvítlauksbrauð og kannski ferska saxaða basiliku. Sem ég gleymdi, á hana í potti en græðgin er svo mikil...sunnudagur, 13. apríl 2014

Enskar skonsur og Lemon Curd
Ég sá um daginn að ákveðið bakarí í Reykjavík er að bjóða uppá lemon curd og eitthvað voðalega girnilegt brauð. Þá mundi ég allt í einu eftir því að mig hefur alltaf langað til þess að prófa að gera svoleiðis sjálf.
Lemon curd er enskt fyrirbæri og er eiginlega eins flauelsmjúkur sítrónubúðingur eða krem. Oft borið fram með skonsum og tei.

Ég vaknaði snemma í morgun eins og venjulega og ákvað að skella mér í þetta, kippti nokkrum sítrónum með mér í búðinni í gær og átti því allt til alls. Þetta er nefnilega svona uppskrift sem inniheldur engin flókin eða dýr hráefni, ég nenni helst ekki svoleiðis uppskriftum. Eina sem maður þarf er smá þolinmæði! Ef maður ætlar að hita þetta of hratt upp gæti maður endað með sítrónuommilettu. Ef þú hefur gert bernaise sósu frá grunni áttu ekki eftir að eiga í neinum vandræðum með þetta :)

Það sem þú þarft í þetta er:

3 sítrónur + börkur
1 1/2 bolli sykur
200gr smjör
4 stór egg
1/2 bolli sítrónusafi (safinn úr sítrónunum)
1/8 tsk salt

Skolið sítrónurnar vel og þerrið. Raspið af þeim börkinn en passið að raspa bara gula hlutann, alls ekki fara niður í þetta hvíta, það er beiskt og ekki gott að hafa með.
Setjið sykurinn og börkinn í matvinnsluvél og blandið saman í smástund. Bætið út í matvinnsluvélina smjörinu, salti og sítrónusafanum og blandið, bætið svo einu eggi úti í einu. Setjið blönduna í stálskál eða pott og hrærið stöðugt í yfir vatnsbaði. Hrærið stöðugt í þangað til blandan fer að þykkna. Þetta tekur svona 15 mínútur og mjög gott að gera þetta á meðan skonsurnar klára að bakast og kólna. Ekki freistast til þess að setja pottinn beint á helluna til þess að flýta fyrir, það er dæmt til þess að enda illa! ;)
Búðingurinn er svo tilbúinn þegar hann festist á sleif. Setjið í hreina krukku og kælið. Búðingurinn þykknar og stífnar þegar hann kólnar.Skonsurnar eru mjög auðveldar og fínt að gera þetta saman þar sem ég nota matvinnsluvél í hvorutveggja.
Ég setti saxaðar rúsínur og sítrónubörk og dropa í mínar en það er hægt að sleppa því algerlega eða setja trönuber eða eitthvað annað út í. Einnig er hægt að sleppa sykrinum í þeim og setja rifinn ost og hafa þær með mat. Ótrúlega auðveld og góð uppskrift.
Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.

Í skonsurnar þarftu:

400gr hveiti
3 tsk lyftiduft
1 tsk salt
5 msk sykur
120gr ískalt smjör í litlum bitum (mjög mikilvægt að hafa það ískalt)
2 1/2 dl mjólk

Auk þess bætti ég við rifnum berki af einni sítrónu, 1 tsk sítrónudropum og 50gr af söxuðum rúsínum (má alveg vera meira)

Setjið þurrefni í matvinnsluvélina og "púlsið" nokkrum sinnum, bætið við smjörinu og blandið rétt svo þannig að stærstu bitarnir af smjörinu séu á stærð við baunir. Ef þið viljið setja rúsínur og sítrónubörk, setijð það núna og "púlsið" svona tvisvar. Bætið mjólkinni út í og blandið rétt svo þannig að deigið loði saman.
Setjið á hveitistráða borðplötu og hnoðið lítillega, fletjið út þannig að deigið sé 2-3cm á þykkt. Skerið út skonsurnar með glasi eða hringlaga piparkökumóti. Varist samt að snúa glasinu í hringi þegar þið skerið kökurnar, best að skera bara beint niður. Þetta gæti haft áhrif á hvernig þær lyfta sér í ofninum.
Leggið þær á plötu klædda bökunarpappír og bakið í 12-14 mín eða þangað til þær eru gullinbrúnar.
Látið kólna í svona 15 mín.

Þessar skonsur með lemon curd og góður kaffibolli er stórkostleg blanda. Bretinn reyndar fær sér góðan tebolla í staðinn og það er ábyggilega ekkert síðra!


laugardagur, 5. apríl 2014

Bananakaka með rjómaostakremiÞessi stórgóða kaka er líklega ein af uppáhaldskökunum mínum. Ef ekki bara uppáhalds?
Fann þessa uppskrift einhversstaðar á vafri mínu um netið en man því miður ekki hvaðan ég fékk hana.
Nú, ég kaupi oft banana og oft eiga þeir það til að verða brúnir hjá mér. Sem er gott. Því þá get ég gert svona köku. (*Hvísl*, mér finnast bananabrauð ekkert sérstök).

Hún er einföld, fljótleg og það elska hana allir sem elska banana. Og kanil. Og rjómaostakrem.

Það sem þú þarft í kökuna er eftirfarandi:

3-4 vel þroskaðir bananar
125gr mjúkt smjör
1/2 bolli sykur
2 egg
1 msk mjólk
1 1/2 bolli hveiti
3 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk kanill

Stappið bananana vel og hrærið öllu saman með handþeytara, alls ekki nota hrærivél, það verður að passa að þeyta deigið ekki of mikið. Bakið við 180°c í svona 20 mínútur ef þið setjið deigið í tvö hringlaga form (ég nota 20cm form) en svo er líka hægt að setja þetta í skúffukökuform en þá þarf að baka hana aðeins lengur. Gott að fylgjast þá bara með tímanum. Kakan er tilbúin ef prjóni sem er stungið í hana kemur út hreinn.Og þetta krem! Algerlega himneskt, ekki of sætt á bragðið sem mér finnst kostur.

1 1/2 bolli flórsykur
125gr rjómaostur við stofuhita
30gr mjúkt smjör
1 tsk vanilludropar

Öllu blandað saman í skál og þeytt vel, þá meina ég alveg rosalega vel! Þið sjáið strax hvað gerist þegar krem eru þeytt vel, verða mýkri og meira flöffí. Og það viljum við!

Setjið kremið á kalda kökuna og endilega ef þið eigið pekanhnetur eða valhnetur þá er mjög gott og fallegt að saxa nokkrar niður og strá yfir kökuna. Hún er fullkomin á páskaborðið og örugglega smart að setja pínu gulan matarlit í kremið.

Njótið!