Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

fimmtudagur, 20. nóvember 2014

Súkkulaðismákökur með salthnetum, súkkulaðibitum og hnetusmjöri


Súkkulaði með súkkulaði. Já einmitt. Þetta eru dökkar smákökur með söxuðu súkkulaði, hnetusmjöri og salthnetum og þær eru betri en þær hljóma. Ef það er þá hægt!

Þetta er uppskrift sem er byggð á þessari uppskrift sem ég birti um daginn.

Einu breytingarnar sem ég gerði voru:

Bæta 2 msk af kakói í deigið
Í staðinn fyrir hvítt súkkulaði setti ég suðusúkkulaði
Í staðinn fyrir valhnetur setti ég 100gr af salhnetum
Sleppti saltinu þar sem ég var að setja salthnetur, taldi saltmagnið verða of mikið.

Svo þannig lítur þetta út:

Innihald:

1 og 1/4 b. hveiti
1 b. grófir hafrar (appelsínuguli Solgryn)
2 msk kakó
1/2 tsk matarsódi
115gr smjör
6 msk hnetusmjör (ekki lífrænt, frekar ES eða Peter Pan)
1 b. púðursykur
1/2 b. sykur
1 stórt egg + 1 eggjarauða við stofuhita
2 tsk vanilludropar
80gr grófsaxað súkkulaði eða dropar
100gr salthnetur gróflega saxaðar

Byrjið á því að hita ofninn í 170°C. Setjið púðursykur og sykur í skál. Bræðið smjörið og hnetusmjörið við vægan hita í potti. Setjið þurrefnin í skál og setjið til hliðar. Hellið smjörblöndu yfir sykurinn og hrærið saman, sykurinn bráðnar aðeins við þetta, sem er gott! Hrærið þetta vel og blandið því næst eggjum og vanilludropum saman við, Hellið þessu blauta í þurrefnin og blandið varlega saman með sleikju. Þegar þetta er orðið samfellt (og verður nokkuð þykkt) deig, blandið þá hnetunum og súkkulaðinu saman við. Setjið deigið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu með 2 teskeiðum og mótið lauslega kúlur sem eru aðeins minni en golfboltar. 
Bakið í 10-12 mín. Betra að fylgjast með og hafa þær minna bakaðar en meira.
Úr uppskriftinni fékk ég 28 kökur eða rétt tæpar 2 plötur, það er að sjálfsögðu hægt að stækka þær og fá færri stórar kökur.

Þessar eru alger draumur! Maður borðar ekkert voðalega margar en það er bara fínt, kannski ekkert megrunarfæði en hver spáir samt í því þegar við erum að ræða jólabaksturinn? ;)

mánudagur, 10. nóvember 2014

Sunnudagsdekur vinkvenna og jarðarberjaterta!


Í gærdag átti ég frábærar stundir með æskuvinkonum mínum. Við höldum alltaf hópinn og þó við hittumst ekkert í hverri viku eða jafnvel hverjum mánuði þá er alltaf eins og við höfum hist í gær. Við hittumst gjarnan í brunch og hver okkar kemur þá með eitthvað á borðið. Mitt framlag var þessi sykursæta bleika jarðarberjaterta en einnig má minnast á algerlega stórkostlegan rétt sem hún Berglind kom með, en þetta er french toast rúllað upp með beikoni og ekta maple sírópi hellt yfir. Stórkostlegur réttur og fallegur á borð. Svava kom með heitan rétt sem var algert gúmmelaði, pínu sterkur og innihélt ólöglega mikið magn af ostum en þannig eiga þeir að vera er það ekki? Elsa færði okkur nýbakað brauð og bleikan drykk sem fór svona vel í glösunum okkar. Við drukkum svo kaffið úr erfðastellinu frá ömmu og deildum leyndarmálum sem safnast hafa upp síðan við hittumst síðast.
Algerlega endurnærandi dagur, er svo ótrúlega lánsöm að eiga svona góðar vinkonur.

Hér má líta betri mynd af french toast-inu sem Berglind kom með og auðvitað fallega ömmubollanum

Þær voru alger tilraunadýr fyrir tertuna en ég á eftir að betrumbæta hana örlítið þar sem neðri botninn varð að smá drullu en mun laga það næst. Bleytti greinilega aðeins of mikið upp í þeim. Ég gerði klassíska uppskrift af svampbotnum en sú sem ég lærði er svona:

Taktu fram 3 alveg eins glös. Settu 3 stór egg í eitt glas. Hveiti í annað sem nær jafn hátt og eggin og sykur í þriðja glasið sem nær upp að sama marki. Taktu 1 msk úr hveitinu og settu kartöflumjöl og 1 tsk af lyftidufti. Sett í tvö 22cm form og bakað við 170°c í ca. 30 mín.

Ég tók svo slatta af frosnum jarðarberjum og afþýddi á djúpum diski, dreifði sirka 2 msk af sykri yfir þau og lét sykurinn leysast upp í safanum. Stappaði þau og setti á annan botninn (næst ætla ég að minnka verulega magnið af safanum). Setti svo jarðarberjasmjörkrem (venjulegt smjörkrem með dágóðu magni af jarðarberjasultu) á hinn botninn og lagði þá saman. Ég smurði þeyttum rjóma utanum tertuna og setti bleikar marengsdúllur ofan á. En þær gerði ég í rauninni bara til þess að nýta eftir smákökugerðina um daginn, en þar urðu eftir 2 eggjahvítur. Ég þeytti þær með 100gr af sykri þar til úr varð marengs, setti smá bleikan matarlit. Sprautaði svo litlar dúllur á plötu, hefði kannski mátt vera með lægri hita en ég trúi því að 120°c í ca 20 mín væri fínt. Geyma þær svo í ofninum yfir nótt.

Algerlega fullkomin í svona dömuboðföstudagur, 7. nóvember 2014

Hnetusmjörskökur með hvítu súkkulaði og valhnetumÞessar smákökur eru ekkert venjulegar smákökur. Þetta eru svona lúxusbitar sem hægt er að baka allt árið en auðvitað alveg tilvalið að skella í þær fyrir jólahátíðina. Ég fæ nánast í hnén þegar ég heyri orðið hnetusmjör og elska hvítt súkkulaði svo hvað ætti að klikka? Ég studdist við nokkrar uppskriftir við gerð þessarar og það er örugglega alveg frábært að skipta út valhnetunum fyrir salthnetur eða pekanhnetur.
Þær eru mjög einfaldar í vinnslu og ég get svo svarið það, frá því að ég byrjaði að setja hráefni í skál og þær komu rjúkandi úr ofninum, liðu kannski 25 mínútur. Það er vel af sér vikið!

Innihald:

1 og 1/4 b. hveiti
1 b. grófir hafrar (appelsínuguli Solgryn)
1/4 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
115gr smjör
6 msk hnetusmjör (ekki lífrænt, frekar ES eða Peter Pan)
1 b. púðursykur
1/2 b. sykur
1 stórt egg + 1 eggjarauða við stofuhita
2 tsk vanilludropar
100gr grófsaxað hvítt súkkulaði eða dropar
90gr valhnetur gróflega saxaðar

Byrjið á því að hita ofninn í 170°C. Bræðið smjörið og hnetusmjörið við vægan hita í potti og kælið aðeins. Setjið þurrefnin í skál og setjið til hliðar. Setjið sykurinn í aðra skál ásamt eggjum og vanilludropum, hrærið smjörblönduna saman við sykurinn. Hellið þessu blauta í þurrefnin og blandið varlega saman með sleikju. Þegar þetta er orðið samfellt (og verður nokkuð þykkt) deig, blandið þá hnetunum og súkkulaðinu saman við. Setjið deigið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu með 2 teskeiðum og mótið lauslega kúlur sem eru aðeins minni en golfboltar. 
Bakið í 10-12 mín. Betra að fylgjast með og hafa þær minna bakaðar en meira.
Úr uppskriftinni fékk ég 28 kökur eða rétt tæpar 2 plötur, það er að sjálfsögðu hægt að stækka þær og fá færri stórar kökur.

miðvikudagur, 5. nóvember 2014

Brauð í potti - Líklega besta heimabakaða brauðið!

Þessa dagana er ég öll í því að gera "besta" þetta og "besta"hitt. Hef verið voðalega lánsöm og allt sem ég hef verið að prófa og gera hefur smakkast ótrúlega vel. Þetta brauð sem ég gerði í dag (og byrjaði á í gær) er það besta sem ég hef nokkurn tíma gert heima hjá mér. Í alvöru talað.
Það er algerlega á pari við 750 króna súrdeigsbrauðið sem ég hef stundum keypt í ónefndu bakaríi og blætt fyrir. Þetta brauð kostar hinsvegar í mesta lagi 150kall. Það er nefnilega ekkert í þessu að viti. Það er það fáránlega í rauninni. Eina sem maður þarf að eiga er ofn og pottur sem má fara inn í ofn. Það er mjög gott að nota frönsku leirpottana, en alveg hægt að nota líka svörtu venjulegu ofnpottana.

Hugmyndin er ekki mín og uppskriftin er ekki mín, ég ætla ekki einu sinni að reyna að stela henni. Margar útgáfur af svona brauðum eru til og ég studdist við þessa uppskrift. Ég set inn nokkrar myndir af ferlinu, bara svona til að sýna að þetta er sko ekkert plat!

Þarna var ég búin að blanda saman hráefnunum í skál og búa til frekar blautt deig, á leið í 14-18 tíma hefingu!

Þetta er eftir hefingu #1. Maður tekur s.s deigið eftir 14-18 tíma, setur vel af hveiti á hendurnar og býrð til kúlu með því að teygja deigið undir kúluna. Leggið kúluna svo á hveitistráðan bökunarpappír og stráið hveiti líka ofan á. Brjótið pappírinn utan um deigið og setjið viskustykki yfir. Hefið í ca. 2 tíma. Þegar hefun er brátt lokið, forhitið þá pottinn í ofninum á 220°c.

Þarna er deigið tilbúið að fara í sjóðheitan pottinn!

Smá trikkí en það hafðist, setjið aðra höndina undir bökunarpappírinn og hvolfið deiginu í hann, núna fara s.s samskeytin upp. 

Þarna er brauðið búið að bakast í 40 mín í ofninum. Tek lokið af og aftur inn í ofn í 7-10 mín.

Tadaaaaa!!!!

Það er í alvöru svona fallegt!

Sjáið fagmennskuna hah?! Að sögn mannsins míns hefur síðasta bakarísferðin verið farin! ;)


Uppskriftin:

6 bollar brauðhveiti (bláa kornax, það er best í brauðbakstur)
1/2 tsk þurrger
2 1/2 tsk salt
2 og 2/3 b. kalt vatn. Þurfti reyndar að bæta aðeins við vatni, fer líklega bara eftir aðstæðum. 

sunnudagur, 2. nóvember 2014

Snúðar - betri en úr bakaríinu!


Já nú er ég aldeilis að fullyrða stórt! Mér finnast þessir snúðar miklu betri en þeir sem fást í bakaríum og það er auk þess talsvert ódýrara að gera þá heima. Það er auðvelt að frysta þá og taka þá bara svo út og hita upp eftir þörfum. Þeir eru svo ótrúlega lítið vesen að það er eiginlega bara lygilegt. Það eru nokkur atriði í aðferðinni sem gerir það að verkum að þeir verða alveg svakalega mjúkir og góðir. Algerlega fullkomnir í helgarbaksturinn eða þegar ætlunin er að baka mikið og eiga í frysti. Þá er tilvalið að tvöfalda uppskriftina!

Innihaldsefni:

700gr Kornax brauðhveiti í bláu pokunum (mæli með því að nota frekar brauðhveiti í gerbakstur)
1 1/2 tsk salt
4 tsk þurrger
80gr sykur
4 dl volgt vatn
1 dl jurtaolía

Fylling:
3msk sykur
3msk púðursykur
1 msk kanill
Blandið saman í skál

Setjið saman þurrefnin í hrærivélaskál og blandið aðeins saman með króknum. Bætið við vökvanum og hnoðið í hrærivélinni, fyrst mjög varlega en aukið svo aðeins hraðann. Hér er lykilatriði að hnoða deigið lengi. 5mín er gott, mæli með því að fylgjast með tímanum, ég tók einmitt úr uppþvottavélinni og fór að raða í hana á meðan!
Látið hefast á volgum stað með rakt stykki yfir í ca. 30 mín.

Takið svo deigið úr skálinni og setjið á hveitistráða borðplötu. Fletið það út í nokkuð góðan ferhyrning og stráið sykur/kanilblöndunni jafnt yfir deigið (Athugið að ég set ekkert smjör undir sykurinn!). Rúllið upp í lengju og lokið kantinum með því að pensla hann með vatni. Skerið lengjuna í hæfilega snúða og raðið á plötu.
Nú kemur annað gott trix. Hitið ofninn í 50°c, úðið snúðana með volgu vatni og setjið í ofninn. Látið hefast í ofninum í 45mín. Úðið snúðana 1x-2x á tímanum.

Takið snúðana út og hitið ofninn í 220°c. Bakið þá í ca. 10-12 mín, fer þó eftir ofnum. Fylgist bara með.

Mér finnst best að setja súkkulaðiglassúr, ég slumpa flórsykri, smá kakói og örlítilli slettu af mjólk og blanda saman, betra að hafa hann þykkari en þynnri. Set á þá þegar þeir eru orðnir nánast kaldir (svo glassúrinn leki ekki útum allt!)

Þessir eru algert æði!