Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

laugardagur, 25. október 2014

Hnetusmjörsnammi - Þarf ekki að baka!


Ó ef aðeins ég gæti borðað hnetusmjör í öll mál. Þá væri nú gaman að lifa!
Ég hef alltaf verið afar veik fyrir öllu sem hnetusmjör er í. Og þessi tvenna, hnetusmjör og súkkulaði var fundin upp í himnaríki, er ég viss um. Ég er alveg þessi sem rýk upp til handa og fóta þegar það kemur hnetusmjörsútgáfa af einhverri þekktri sælgætistegund, eins og t.d Lion bar með hnetusmjöri, hvaða snillingur fann upp á því?!

En jæja, að máli málanna.

Þetta er óbakað sælgæti sem auðvelt er að gera, þarf bara að kæla aðeins á milli. Innihaldsefnin eru ekki dýr, ég er ekkert heldur að snobba fyrir tegundum innihaldsefnanna. Ég nota hér Euroshopper kornflex og Euroshopper hnetusmjör og salthnetur og ég bara verð að viðurkenna, finn engan mun og á því og á þekktum vörumerkjum. Svo enginn fer á hausinn við gerð þessa nammis.
Ég er svo innilega búin að ákveða að þetta verði jólakonfektið mitt í ár. Á örugglega eftir að gera sjöfalda uppskrift!

En jæja. Í þetta þarf:

1/2 bolla sykur
1/2 bolla síróp (notaði þetta í grænu dollunum)
1 bolla ES hnetusmjör (skiptir samt engu máli hvernig, held bara að það virki ekki alveg nógu vel að vera með hreinu hnetusmjörin í þessu, þetta þarf að bráðna svolítið)
1/3 bolla salthnetur, aðeins saxað í þær
3 bollar kornflex gróflega mulið
150gr súkkulaði, má vera bara suðusúkkulaði, eða bara mjólkur. Ég notaði 100gr af suðusúkkulaði og 50gr af hvítu og blandaði saman.

Setjið sykur, síróp og hnetusmjör í pott og bræðið saman. Bætið salthnetum og kornflexi út í pottinn og hrærið saman. Setjið bökunarpappír í skúffukökuform og þjappið blöndunni þar ofan í. Kælið mjög vel, ég setti mitt út á svalir, tók enga stund að kólna.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og smyrjið yfir kalda "kökuna". Kælið aftur vel og skerið í teninga.

Njótið svo vel!
Girnilegt! (afsakið myndgæðin samt, mynd tekin á síma að kvöldi verður aldrei góð!)

sunnudagur, 19. október 2014

Unaðslega mjúk súkkulaðiterta með karamellukremi, ganache, pekanhnetukrókant og örlitlu sjávarsalti.


Í dag fórum við í fjölskylduboð. Sem er svosem ekkert í frásögur færandi nema hvað að þá finnst mér voðalega gott að fara í kjól og mæta með góða köku. Í pabba fjölskyldu hefur skapast sú hefð að þegar við hittumst þá mætir hver og einn með einn rétt, þá verður þetta allt svo auðvelt og þægilegt. Það er líka svo frábært að smakka allskonar ólíka rétti úr öllum áttum. Einhverra hluta vegna mæti ég oftast með eitthvað svona Pinterest gúmmelaði. Blanda s.s saman einhverjum hugmyndum af kökum sem ég hef "pinnað", því ómögulega get ég farið eftir einni uppskrift frá a-ö. Mér virðist það vera bara lífsins ómögulegt!

Ég tók nokkrar hugmyndir hér og blandaði saman, dettur ekki til hugar að eigna mér hugmyndina að ganache kremi yfir ljóst krem osfrv.
Hér er ég með mjúka súkkulaðiköku, bara gömlu góðu dásamlegu. Setti á milli og utan um hana karamellukrem, yfir það ganache. Ofan á það skreytti ég með pekanhnetukrókant og sjávarsalti. Hljómar miklu flóknara en það er. En alveg eins góð og hún lítur út fyrir að vera. 


Kakan:

2 bollar hveiti
1 1/2 b. púðursykur
1/2 b. kakó
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
2 stór egg
1 b. súrmjólk eða AB mjólk
3/4 b. jurtaolía (alls ekki ólífuolía)
2 tsk vanilludropar eða vanilluessence
1/2 b. sjóðandi vatn.


Blandið þurrefnum fyrst í skál, bætið síðan við eggjum, ab mjólk, olíu og vanilludropum. Hrærið eins vel saman og hægt er, blandið vatninu í að síðustu (svo við eldum ekki eggin ;) ) Skiptið í tvö kringlótt form og bakið við 180°c í 22-24 mín. 


Karamellukrem

1 bolli mjúkt smjör
1/2b tilbúin fljótandi karamella (karamellusósa)
4 b. flórsykur
1/4 tsk sjávarsalt
2 msk rjómi eða nýmjólk
1 tsk vanilludropar

Setjið smjörið í skál og þeytið vel. Bætið síðan restinni af hráefnunum út í. Þeytið áfram í ca 4 mín. 


Ganache hjúpur

120gr gott dökkt súkkulaði saxað
1/3 b rjómi
2 msk karamellusósa
Örlítil klípa af sjávarsalti

Hitið rjómann í potti að suðu og slökkvið undir, bætið söxuðu súkkulaðinu saman við ásamt karamellunni og saltinu. Hrærið þar til slétt og fellt. Kælið aðeins.


Pekanhnetukrókant

50gr pekanhnetur
2 msk sykur

Setjið hneturnar á pönnu og ristið aðeins, bætið sykrinum útá og hrærið í þar til sykurinn er bráðnaður og brúnaður og hneturnar vel hjúpaðar. Færið á bökunarpappír og dreifið úr, kælið vel. 


Samsetning tertunnar:


Smyrjið karamellukreminu á annan botninn. Setjið hinn botninn yfir og hjúpið tertuna með restinni af karamellukreminu. Ég settir reyndar ekki allt á mína, frysti afganginn af kreminu. Kælið tertuna vel þegar kremið er komið á. Þegar kremið er orðið vel kalt, þá er gott að gera ganache hjúpinn og setja hann á tertuna. Passið bara að kæla hann niður áður, ekki gott að setja hann mjög heitann á.

Saxið pekankrókantinn og dreifið yfir hjúpinn og toppið með örlitlu af sjávarsaltflögum.

Þessi er dásamleg með bolla af rótsterku kaffi með örlitlum rjóma út í, já það er sko lúxus útgáfan ;)