Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

sunnudagur, 11. október 2015

Turkisk Peber bollakökur

Ó ég er búin að hugsa þetta svo lengi. Búin að vera að útfæra þetta í huganum hvernig sé best að yfirfæra Tyrkisk Peber yfir í kökukrem. Ég ákvað að besta leiðin væri að reyna að bræða brjóstsykurinn saman við smá vatn og gera síróp sem ég myndi svo þeyta saman við krem grunn. Þetta gat svo sem alveg klikkað en mér til mikillar ánægju kom þetta ótrúlega vel út!
Tyrkisk Peber er auðvitað í öllum myndum alveg dásamlegt sælgæti. Og ísinn í Valdísi - óbojj! (Það er alveg hægt að tvöfalda þessa uppskrift og fiffa það í ís, ég er eiginlega alveg viss um það!)

Þetta er mjög einfalt að gera en þarf smáræðis þolinmæði þegar brjóstsykurinn er bræddur.

Það sem þarf í kremið er eftirfarandi:

20 stk Tyrkisk Peber brjóstsykursmolar
2msk vatn + 1msk vatn (útskýri nánar)
1 dl Crisco í bláu dollunum (má örugglega alveg nota smjör eða smjörlíki en ég þori samt ekki að fara með það)
2 dl flórsykur
1 msk sjóðandi vatn

Setjið brjóstsykurinn í lítinn pott með 2 msk af vatni og byrjið að hita varlega, ekki setja á hæsta hita í óþolinmæðiskasti! Bræðið sykurinn varlega saman við vatnið en svo kemur að því að hann fer að klumpast saman og verður ein stór klessa. Það er allt í lagi, það er bara normal!


Þá er gott að hækka aðeins hitann og láta þetta bubbla svolítið en passið að hræra alltaf í. Þegar þetta er að verða að sírópi er gott að bæta þessari auka matskeið af vatni út í.
Látið sjóða saman í síróp þar til allur brjóstsykurinn er uppleystur. Takið þá pottinn af hellunni.

Setjið Crisco og flórsykur saman í skál og þeytið aðeins saman, feitin verður eins og litlar baunir í sykrinum.
Crisco og flórsykur saman!Búið að hræra aðeins samanBætið þá sírópinu öllu út í og þeytið saman. Þetta lítur þá eiginlega út eins og gráar klessur.
Ekkert sérlega girnilegt svona, en verður skárra!
Þá er nauðsynlegt að setja 1 msk af sjóðandi vatni út í og þeyta vel. Þá umbreytist þetta í dásamlega mjúkt og gott krem.
Að borða það beint upp úr skálinni í skeið er líka möguleiki...
Ég bakaði klassíska súkkulaðikökuuppskrift í bollakökuformum og setti kremið á þær. Það var mjög fínt en langar að prófa þetta krem næst með öðru kökudeigi. Þið gætuð kannski sent á mig hugmyndir og/eða sýnt mér myndir af því hvernig þið notið kremið?

Kremið komið á en litu hálf naktar út...Tóku nokkra brjóstsykra og muldum þá í matvinnsluvélinni

Sérleg aðstoðarkona mín hjálpaði til við að skreyta kökurnar!

Ég notaði þessa súkkulaðikökuuppskrift en ég helmingaði hana bara og það kom flott út:

2 bollar hveiti
1 1/2 b. púðursykur (eða venjulegur af þú átt hann ekki til)
1/2 b. kakó
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
2 stór egg
1 b. súrmjólk eða AB mjólk
3/4 b. matarolía (alls ekki ólífuolía)
2 tsk vanilludropar
1/2 b. sjóðandi vatn.


Kakan:
Öllu nema vatninu skellt í skál og hrært aðeins saman, svo er vatnið sett við og klárað að hræra í dásamlegt deig. Mikilvægt svo eggin sjóði ekki með heita vatninu.
Bakið í miðjum ofni við 175°c í 25 mín. Fer eftir ofnum ath það! 


fimmtudagur, 17. september 2015

Kalkúnabollur með hvítlaukssósu


Jæja, er ekki fínt að fara að vekja bloggið aðeins aftur eftir sumarfrí? Held það bara!
Nú er skólinn byrjaður hjá mér af fullum krafti og lífið að komast í fastar skorður eftir sumarið. Þá fer ég í þann gír að skipuleggja betur kvöldmatartímana hjá okkur, gera matseðla og reyni að sameina hollustu og hagkvæmni sem gengur, tja svona og svona. Segjum það bara ;)
Þessi uppskrift sameinar hinsvegar þetta tvennt. Kalkúnahakk er hægt að fá á góðu verði í Nettó. Fæst frosið í rúllum og er 100% hrein afurð.
Ég hef notað það í pastarétt og nú þessar bollur og er alveg svakalega hrifin af þessu kjöti. Það er magurt án þess að verða þurrt og minnkar nánast ekkert á pönnunni. Það hlýtur að teljast kostur þegar ég hef verið að lenda trekk í trekk í því að kaupa nautahakk sem hverfur á pönnunni. Nenni ekki svoleiðis töfrabrögðum!

Þessar bollur eru frábærar með hrísgrjónum eða kartöflum og salati. Ég notaði kalda hvítlaukssósu með en það er örugglega líka mjög gott að gera góða ostasósu svona spari eða aðra heita sósu.600gr kalkúnahakk
1 egg
1 dl brauðrasp
saxaður vorlaukur, græni hlutinn
2 hvítlauksrif
rifinn parmesanostur
rifinn cheddarostur + chili
salt og pipar

Setjið allt saman í skál og blandið vel með höndunum, leyfið hakkinu að bíða í svona 15 mínútur svo að raspið nái að draga aðeins í sig vökvann. Mótið svo bollur aðeins stærri en golfkúlur og setjið í eldfast form eða á bökunarplötu.
Bakið í ofni í 25-30 við 180°c.

Hvítlaukssósa

1 dl 18% sýrður rjómi
2 hvítlauksrif kramin
1 tsk hunang
1 tsk dijon sinnep
salt og pipar
Þurrkuð steinselja
Hrærið öllu saman í skál og látið bíða á meðan bollurnar steikjast í ofninum

laugardagur, 30. maí 2015

Cheerios hnetusmjörsbitar
Nú er ég dottin í ruglið. Í alvöru. Þetta er svona uppskrift sem er ekki einu sinni uppskrift. Svo hræðilega allt allt of einfalt og inniheldur einungis ÞRJÚ innihaldsefni.

Sko, þegar ég var lítil var Rice Krispies miklu dýrara en gult Cheerios. Þessvegna var oft meira um kökur eða nammi gerðar úr því, eða heilinn á mér hefur allavega sannfært mig um að svoleiðis hafi það verið.

Allt í einu mundi ég eftir þessu. Klístrað nammi eins og Rice Krispies kökurnar sem allir þekkja, nema bara með Cheerios. Og þvílík heppni, á alltaf til Cheerios og átti hin tvö innihaldsefnin inni í skáp. Þetta er sumsé uppskrift sem hefur sést víða á Pinterest og mér dettur ekki í hug að eigna mér hana. Eða þetta er svona blanda af uppskriftum þaðan. Hún er ekkert heilög og það má tvöfalda og þrefalda og bæta við hnetum eða öðru nammi. Jafnvel setja súkkulaði ofan á, hugsanlega hvítt súkkulaði? Möguleikarnir eru endalausir en bara svona eitt og sér er þetta alveg nógu sætt og alveg nægilega mikil snilld.

Það sem þú þarft:

1/2 bolla af sírópi (nú eða hunangi)
1/2 bolla af hnetusmjöri (ekki hollu týpuna, mætti gjarnan vera gróft)
3 bollar af gulu Cheerios-i

Bræðið saman síróp og hnetusmjör í meðalstórum potti þar til það er bráðið vel saman og fer að bubbla. Takið af hellunni og bætið seríósinu við. Þjappið ofan í ferkantað form og kælið vel. Skerið svo í bita. Það er líka hægt að setja þetta í muffins form, svona eins og Rice Krispies kökurnar góðu.
Hugsanlega er best að gera bara einfalda uppskrift ef það er ekki verið að undirbúa afmæli. Þetta hverfur ískyggilega hratt!


miðvikudagur, 27. maí 2015

Kókos bananabrauðÍ dag er einn af "þessum dögum". Heima með veikt barn og frekar tómlegt um að litast í skápunum. Hef ekki nennt að fara út í búð en átti slappa banana sem mig langaði að gera eitthvað við. Yfirleitt liggur nú beinast við að gera bananabrauð svo það er bara það sem ég gerði! Notaði enga uppskrift og skúbbaði bara einhverju í blandarann og svo í skál. Þaðan í formið og beint inn í ofn. Svo var þetta bara svakalega fínt brauð! Átti nú alveg von á því reyndar þar sem bananar eru góðir og kókos jafnvel betri, saman getur þetta ekki klikkað!

Sem betur fer er gott að frysta bananabrauð því eins fáránlega og það hljómar er ég sú eina á heimilinu sem borða það. Sumt fólk er auðvitað bara ekki alveg í lagi! ;)

3 þroskaðir bananar
2 msk olía
2 stór egg
3 msk kókospálmasykur eða hunang
1 tsk kardimommur malaðar
3 dl fínt spelt eða hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 dl fínt kókosmjöl +  smá til þess að setja ofan á (má líka alveg vera gróft)

Hitið ofninn í 175°C með blæstri.
Bananar, olía, egg og sykur eða hunang sett saman í blandara og þeytt mjög vel. Blandan er svo færð í skál og þurrefnum hrært varlega saman við með sleikju. Deigið er því næst sett í aflangt form og bakað í ca. 45 mín eða þar til prjónn sem stungið er í brauðið kemur hreinn út.
Dásamlegt bara eitt og sér eða með smá smjöri.

fimmtudagur, 14. maí 2015

Haframjölskaka með karamellukókos toppiÉg er í hópi þeirra sem elska sjónvarpsköku. Þið vitið, þessi ljósa dúnmjúka kaka með vanillubragði og kókoskaramellubráð ofan á. Mmmm..
Ég elska líka kanil.. og haframjöl.. Svo þegar ég fann þessa uppskrift á vafri mínu um netheima, sá ég strax að þessa yrði ég að prófa. Setti hana á "to do" listann minn. Þið vitið, þennan sem allt fer á sem á að græjast eftir próflok. 
Þannig í dag fékk ég tækifæri til þess að prófa. Ég ákvað að baka þessa og aðra til reyndar sem ég mun setja hingað inn síðar (það er alveg tilefni í sér færslu!)

Þessi haframjölselska, dúnmjúk og djúsí, með smá kanilkeim, smá karamelló toppi. Örugglega heldur ekkert vont að hafa ís með henni, eða smá rjómaslettu. Það góða samt við hana er að hún krefst einskis af manni, hráefnin eru þannig að maður á þau alltaf til (eða ég að minnsta kosti!) og er þónokkuð fljótleg. Ekta svona til að skella í á sunnudegi eða henda í rétt áður en saumaklúbburinn mætir.

Ég er mjög lítið í að birta uppskriftir sem koma ekki úr eigin smiðju en ég verð bara að setja þessa inn:

Í kökuna sjálfa:

1 1/2 bolli sjóðandi vatn
1 bolli grófvalsaðir hafrar
1 bolli púðursykur
1 bolli sykur
1/2 bolli mjúkt smjör
2 egg við stofuhita
1 1/3 bolli Kornax hveiti
1 tsk kanill 
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt

Kókoskaramella
1/2 bolli smjör
1 bolli púðursykur
1 msk nýmjólk eða rjómi
1 bolli kókosmjöl

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C og takið fram skúffukökuform eða stórt kringlótt (ég var búin að gleyma að skúffukökuformið mitt er ennþá niður í vinnu svo ég notaði stóran pie disk, líklega um 28cm í þvermál).
Sjóðið vatnið og hellið yfir hafrana í skál og setjið til hliðar. Þeytið saman þar til létt og ljóst, smjörið, sykurinn og eggin. Í annarri skál blandið saman þurrefnum. Blandið svo saman með sleikju, um það bil helmingnum af hveitinu saman við sykurblönduna, hrærið svo höfrunum út í og rest af hveitinu. Setjið deigið í formið og bakið í ca. 30 mín, fer eftir ofnum þó. Takið kökuna út og kveikið á grillinu í ofninum og lagið karamelluna.

Fyrir karamelluna, þá blandið saman sykri, smjöri og mjólk í potti, hitið að suðu og látið malla í eina mínútu, bætið þá kókosnum saman við og smyrjið yfir kökuna með sleikju. 
Setjið undir grillið í svona 2-3 mínútur, en eins og með kökuna, þá verður bara að fylgjast vel með  þar sem grillin í ofnunum geta verið afar misjöfn, sumstaðar gæti 1 mínúta verið alveg nóg. 

Þessi er alveg komin til að vera!

Uppskriftin er fengin héðan: http://www.tasteandtellblog.com/oatmeal-cake/

laugardagur, 9. maí 2015

Skúffukaka með sykurpúðum og saltaðri mokka karamellu


Mig hefur alltaf vantað afsökun til þess að búa til salta karamellusósu. Finnst einhvernveginn allt svona "salted caramel" ótrúlega girnilegt. Þessi tvenna, salt og sykur, á bara svo ótrúlega vel saman! Þá fæddist líka hugmyndin um að bæta við mokka bragði í þessa jöfnu. Gæti það klikkað? Það er ekkert víst!
Gerði því skúffukökuu
ppskriftina mína sem ég hef notað í mörg mörg ár og alltaf jafn góð. Átti svo sykurpúða sem enduðu óvart í eldhúsinu mínu eftir fyrstu grillveislu ársins. Fullkomið að setja þá ofan á. Toppað með þessari ótrúlegu karamellusósu sem kann að hafa endað á ís í gærkvöldi (ó almáttugur, þegar hún kólnar verður hún seig og það er svooo gott!).
Þetta er uppskriftin að kökunni sjálfri, mæli með henni í allt. Sem venjuleg skúffukaka, í afmælistertur undir sykurmassa, í bollakökur með hrúgu af góðu kremi..2 bollar hveiti
1 1/2 b. púðursykur (eða venjulegur af þú átt hann ekki til)
1/2 b. kakó
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
2 stór egg
1 b. súrmjólk eða AB mjólk
3/4 b. matarolía (alls ekki ólífuolía)
2 tsk vanilludropar
1/2 b. sjóðandi vatn.

Litlir sykurpúðar eða venjulegir skornir í tvennt.

Kakan:
Öllu nema vatninu skellt í skál og hrært aðeins saman, svo er vatnið sett við og klárað að hræra í dásamlegt deig. Mikilvægt svo eggin sjóði ekki með heita vatninu.
Bakið í miðjum ofni við 175°c í 25 mín. Fer eftir ofnum ath það! 
Takið kökuna út og tekið hana með sykurpúðunum, það verður að vera smá bil á milli samt því þeir þenjast út þegar þeir eru hitaðir. 
Setjið kökuna aftur í ofninn og bakið púðana í ca. 5-8 mín en fylgist vel með, þeir mega bara verða rétt svo smá gylltir, ekki meira. Takið útúr ofninum og dreyfið karamellu yfir sykurpúðana.
Söltuð kahlúa karamella

1 bolli sykur
1/4 bolli vatn
2 msk síróp (ekki freistast til að sleppa, sykurinn kristallast án þess - einnig er hægt að notast við síróp sem sett er út í kaffidrykki)
120ml rjómi
1 tsk vanillu essence
1 msk Kahlúa (Má sleppa)
1 tsk instant kaffiduft
1/2 - 1 tsk sjávar eða himalaya salt, alls ekki venjulegt borðsalt

Setjið sykurinn, vatn og síróp saman í meðalstóran pott og bræðið saman þar til sykurinn er uppleystur. Sjóðið áfram þar til litur fer að myndast í blöndunni og bætið rjóma, salti, vanillu essence, Kahlúa og instant kaffidufti út í og pískið vel þar til kaffið er uppleyst. Látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar og takið svo af hellunni. Setjið svo yfir kökuna með frjálsri aðferð. 
Svo er reyndar hin aðferðin, ef þessi sykuraðferð við að gera karamellu vex ykkur í augum er alveg hægt að gera klassísku karamellusósuna sem inniheldur líka smjör, aðalmálið er að setja saltið og instant kaffiduftið út í.

Kakan er klístruð og miklar líkur eru á sykurpúði endi út á kinn en þannig á það bara að vera! ;)


föstudagur, 10. apríl 2015

Ofnbakaður hafragrautur með bláberjum og bönunum
Hvað eru mörg bé í því?

Já ég hef séð á vafri mínu á erlendum uppskriftarsíðum, allskonar útgáfur af bökuðum hafragrautum. Það hefur verið lengi á "To do" listanum mínum að gera svoleiðis en það var ekki fyrr en nú í hádeginu sem ég ákvað að láta verða af því. Þvílík og önnur eins snilld. Sér um sig sjálft í ofninum og bragðast eins og hin besta kaka, enginn viðbættur sykur og stútfullt af vítamínum og steinefnum. Það er hægt að nota önnur ber eða aðra ávexti en ég mæli þó eindregið með þessari útgáfu.
Ég notaði frosin bláber sem ég fékk í Bónus, ofsalega góð og klessast ekki eins og önnur sem ég hef prófað.

Í grautinn þarftu eftirfarandi:

2 bolla af grófum höfrum
1/2 tsk sjávar-eða himalaya salt
1 1/2 tsk kanil
1 tsk lyftiduft, vínsteins eða venjulegt
2 bolla af mjólk (skiptir ekki máli hvaða, ég notaði heslihnetu)
2 tsk vanilludropar
1 stórt egg
1 msk bráðin kókosolía eða ósaltað smjör
1/4 - 1/3 bolli Sugarless sugar eða Via health sætan, ég notaði 1/4 og fannst hann alveg nógu sætur
2 þroskaðir bananar
1 bolli bláber ( má alveg vera meira eða minna, ráðið alveg magninu)

Byrjaði á því að hita ofninn í 180°C. Ég skar svo bananana í sneiðar og setti í botninn á frekar litlu ofnföstu móti. Stráði helmingnum af berjunum þar yfir. Tók svo til tvær skálar og blandaði þurrefnum saman í aðra og þeytti blautu efnunum + sætunni saman með písk í hinni. Stráði svo hafrablöndunni þurri yfir bananana og vökvanum því næst þar yfir. Stráði svo restinni af berjunum yfir og bakaði inni í ofni í ca. 35-40mín.

Líka ótrúlega girnilegur svona óbakaður!


Grauturinn fékk að kólna aðeins á meðan ég tók myndir en vá, þetta er nýji uppáhalds spari morgunmaturinn minn (eða hádegismatur). Alger snilld að bjóða upp á hann á brunch hlaðborði, er örugglega nóg fyrir að minnsta kosti 4 mjög svanga.

Skúbba vel á diskinn!


fimmtudagur, 2. apríl 2015

Jarðarberja skyrterta - Sykurlaus!


Jarðarberjafíkilinn langaði í skyrtertu. Þær eru nú oft ekkert sérlega hollar þrátt fyrir að nafnið boði ef til vill einhverja hollustu. Sykraður kexbotn, dísætt skyr og rjómi og svo sulta, pökkuð sykri ofan á. Ekki misskilja mig, þær eru góðar! Mjöööög góðar! En svona þegar maður vill minnka sykurnotkun er hægt að horfa í aðra valkosti.

Ég studdist við uppskrift frá henni Dísu á Dísukökum en hún er alger snillingur þegar kemur að sykur- og hveitilausum uppskriftum, mæli með því að þið kíkið á bloggið hennar og bókina sem hún gaf út fyrir jólin. Þessa skyrtertu má auðvitað tvöfalda í upphaflegu stærð eða jafnvel þrefalda og bjóða upp á sem eftirrétt um páskana.

Ég ákvað semsagt að helminga uppskriftina hennar og sleppa súkkulaðinu, bætti við smá matarlími og hafði frekar jarðarber frekar en bláber. Þá hljómar þetta einhvern veginn svona:50gr smjör
60gr möndlumjöl
rúmlega 1 tsk kanill
1 1/2 msk Sugarless sugar (átti ekki Sukrin gold)

Ég bræddi smjörið og bætti restinni út í pottinn, fann svo lítið eldfast mót og þjappaði deigið ofan í botninn. Bakaði svo við 170°c í 10 mín. Setti það svo beint út á svalir til að kæla á meðan ég gerði rest.


100ml rjómi
1/2 Skyr,is vanillu, stór dós
1 msk sítrónusafi
2 matarlímsblöð

Ég setti matarlímið í bleyti í kalt vatn á meðan ég þeytti rjómann. Kreisti vatnið úr blöðunum eftir svona 5 mínútur og bræddi það rólega með sítrónusafanum. Blandaði skyri og rjóma saman og hrærði svo matarlími út í í lokin. Lét þetta svo aðeins bíða meðan ég græjaði jarðarberjahlaupið.
Ca. 8-10 frosin jarðarber
1 msk Sugarless sugar
1 msk vatn
2 matarlímsblöð

Ég byrjaði einnig á því að leggja matarlímsblöðin í bleyti. Setti svo jarðarberin í pott ásamt vatni og Sugarless sugar. Ég hitaði jarðarberin alveg í gegn með sætuefninu, þetta náði alveg að bullsjóða í nokkrar mínútur. Maukaði svo í pottinum með töfrasprota. Í lokin setti ég mjúk matarlímsblöðin út í pottinn og hrærði vel þar til þau voru uppleyst. Tók þá pottinn af hellunni til þess að leyfa blöndunni að kólna.

Samsetning:
Tilbúið fyrir samsetningu!

Þegar möndlubotninn var orðinn kaldur, setti ég skyrblönduna yfir, þurfti aðeins að skella forminu í borðið til þess að losna við loftbólur. Að síðustu dreifði ég jarðarberjablöndunni yfir.
Setti kökuna svo beint inn í ísskáp svo hún stífni almennilega en mér finnst einmitt svona skyr og ostakökur þurfa að vera frekar stífar, annars finnst mér ég geta bara borðað skyrið beint upp úr dósinni. Það þarf auðvitað ekkert að nota matarlímið, það er bara smekksatriði :)


Er hún ekki falleg?! Vantar bara fersku berin!

sunnudagur, 15. mars 2015

Bananavöfflur - Sykur og hveitilausar
Það hefur örugglega komið fram hérna áður að ég er alveg sérstaklega veik fyrir vöfflubakstri hvers konar. Það sem verra er að ég blæs út eins og blaðra af þessum litlu dúllulegu hveitiklumpum svo ég hef marg oft reynt að finna einhvern aðeins hollari staðgengil. Hef ekki tölu á öllum ógeðis vöfflunum sem ég hef þurft að skrapa af vöfflujárninu mínu!

Þangað til ég skellti í þessa. Það eru nokkur atriði hér sem gera þetta að vöfflum sem haldast saman, eru bragðgóðar OG ég þarf ekki að skrapa þær úr járninu!
Gallinn er hinsvegar sá að uppskriftin kallar á frekar sérhæft hráefni auk þess sem ég nota belgískt vöfflujárn en ekki venjulegt. En það er alveg þess virði að kaupa hráefni í þessar vöfflur því það þarf alveg svakalega lítið af því (endist í margarmargar vöfflur) og þegar maður smakkar einu sinni, þá verður þetta að hefð. Ég hef líka ætlað að gera bara venjulegar fyrir aðra fjölskyldumeðlimi en dóttir mín kýs frekar þessar umfram þessar venjulegu. Það segir sitthvað!
Ég gef uppskrift af einfaldri en hún er frekar lítil og dugar í 2 vöfflur í minni kantinum.

Innihald og aðferð eru eftirfarandi:

1 þroskaður lítill banani eða hálfur stór
1 stórt egg
1 tsk vanilluessence eða 2 tsk vanilludropar
1 tsk kókosolía eða bragðlaus jurtaolía
1 tsk kókoshveiti
1 tsk möndlumjöl
1/2 tsk möluð hörfræ
3/4 tsk lyftiduft
nokkur saltkorn
Pam sprey til þess að spreyja á vöfflujárnið

Byrjið á því að stinga vöfflujárninu í samband.
Setjið egg, banana, vanilludropa og kókosolíu í blandara og þeytið mjög vel saman, eða þar til blandan fer að freyða.
Setjið svo bananablönduna í litla skál og blandið þurrefnum varlega saman við. Bíðið í svona 2 mín því kókoshveitið dregur í sig vökvann, hrærið þá aðeins í deiginu. Ef mér finnst deigið aðeins of þykkt (það á samt að vera mjög þykkt, en samt ekki alveg eins og leir, getur farið eftir stærð eggja og banana hvernig það er) þá bæti ég nokkrum dropum af möndlumjólk við.
Spreyjið létt yfir járnið og skiptið deiginu í tvær vöfflur (járnið mitt býður upp á tvær ferkantaðar vöfflur) og bakið þar til þær eru vel brúnar.

Já járnið mitt er eiginlega alveg eins og þetta:Ég hef oft jarðarberja chiasultu með, vanillurjóma og ber. Eða bara smá rjóma og banana.. eða bara chiasultu.. einmitt, það er svo margt hægt að gera!

Kannski ég skelli bara inn uppskrift af sultu í leiðinni? Já, þessi klárast alltaf hratt og er súper holl og góð.

Jarðarberja chiasulta:
Setjið ca 2 bolla af frosnum jarðarberjum í pott og stráið 1/2 bolla af Sugarless sugar frá Now yfir berin. Byrjið á því að hita við lágan hita en svo er hægt að auka aðeins þegar berin eru farin að bráðna saman við "sykurinn". Setjið þá ca. 2 msk af chiafræjum yfir og sjóðið í svona hálftíma eða þar til berin eru orðin algert mauk og orðið eins og sulta.
Þessi sulta er alveg ótrúlega fersk og góð og hægt að leika sér mikið með hana, setja öðruvísi ber eða jafnvel mangó.

Í alvöru, er eitthvað girnilegra en vöfflur og kaffi? 

mánudagur, 26. janúar 2015

Súkkulaði og hnetusmjör - Himnesk blanda!

Ójá! Ég er ein af þeim sem elska þessa blöndu. Og ég gerði svo góðan hristing í dag að ég verð bara að deila honum með ykkur.
Mig vantaði eitthvað sætt en samt hollt, tók erfiða æfingu seinnipartinn og því mátti alveg vera smá orka í þessu. Stelpan mín var heima í dag og tók auðvitað sérlega vel í það þegar ég stakk upp á því að gera súkkulaðisjeik! En ekki hvað?

Ég skutlaði í blandarann sirkabát þessu, en athugið að magn er ekki heilagt og það má alveg smakka til. Þessi er alveg ótrúlega saðsamur, gat klárað með herkjum og hann dugði mér vel í þónokkuð marga tíma auk æfingar!

Fullt af klaka, var örugglega með vel rúmlega 1 bolla
1 gulur banani (Ekki grænn, ekki farinn að brúnast. Bara fullkominn)
1/2 slappur brúnn banani (svona fyrir aðeins meiri sætu)
2 tsk gott kakó
1 kúfuð msk hnetusmjör
Möndlu/rísmjólk (Blanda sem fæst í Nettó, alveg hægt að nota undanrennu, léttmjólk eða aðrar tegundir)

Setja allt á skrilljón og setja í töff glas, eða glas með röri. Eða eitthvað. Bara njóta.

miðvikudagur, 21. janúar 2015

Eðlukjúlli


Fyrir langa löngu síðan smakkaði ég heita ostasalsa ídýfu. Hefur verið á borðum í partýum og saumaklúbbum í mörg ár og allir elska þessa dýfu. Þessi klassíska, rjómaostur, salsa og ostur og inn í ofn. Mmm.. Sjóðheit með nachos!
Þessi dýfa gekk svo í endurnýjun lífdaga hjá unglingunum og ungu fólki undir nafninu "eðlan". Það keppast allir við að gera hana og allir elska hana. Þannig að ef þú vilt slá algerlega í gegn hjá krökkunum þínum þá er þessi réttur algerlega fullkominn.
Ótrúlega einfalt og meðlætið getur verið af fjölbreyttum toga.

Ég persónulega er aðeins að slaka á í brauðáti þessa dagana og var því sjálf ekki með nachos eða tortillur með en þess í stað var ég með guacamole-ið fína og risa hrúgu af salati.

Þetta er svo einfalt að þið trúið því ekki!

4 kjúklingabringur skornar í sneiðar þversum, kryddaðar með salti, pipar og hvítlauksdufti
1/2 krukka Santa Maria Salsasósa Mild (stóru krukkurnar með græna lokinu)
3-4 msk af rjómaosti
rifinn ostur eftir smekk

Steikið kjúklingabitana á pönnu og kryddið. Setjið salsasósuna og rjómaostinn út í þegar þeir eru orðnir brúnaðir á báðum hliðum. (Það má alveg setja meira af sósunni og rjómaostinum, magnið er ekkert heilagt). Látið malla í smástund með lokið á pönnunni.
Stráið osti yfir og setjið lokið aftur yfir til þess að bræða ostinn.

Berið fram með öllu því sem ykkur dettur í hug, hægt að setja í tortillur, beint á salat, eintómt með nachos osfrv.

föstudagur, 9. janúar 2015

Gulrótakaka með rjómaostakaramellukremi! Sykurlaus!

Ekki fallegasta kökumynd í heimi, en góð er hún!


Ég hef verið að skipuleggja aðeins hjá mér í eldhúsinu. Elda í frystinn og þess háttar. Finnst fínt að skipuleggja mig aðeins fram í tímann þar sem skólinn byrjar hjá mér í næstu viku og er að fara að taka áfanga sem fylgir alveg ofsalega mikill lestur og ritgerðaskrif. Þá er nú gott að getað tekið út eitthvað tilbúið, hollt og miklu miklu hagstæðara! Skrifa kannski sérstaklega um það síðar. En að máli málanna. Þessi kaka hefur birst hér áður á blogginu: Gulrótakakan góða

Þessi kaka er einfaldari en hún lítur út fyrir að vera. Í alvöru talað! Ég setti hana í 24cm hringform og bakaði við 175°c í líklega svona 25 mín í mínum ofni. Gott að fylgjast bara með.

Kremið er hinsvegar afrakstur tilrauna með Sugarless Sugar frá Now. Það er eitt uppáhalds sætuefnið mitt og gaman að gera tilraunir með það.
Úr varð karamellukrem sem er bara alveg ótrúlega gott. Það sem ég gerði var eftirfarandi:

Setti 50gr af smjöri í pott og bræddi, bætti svo við ca. 1 dl af Sugarless Sugar. Hrærði þetta vel saman, sætuefnið virðist ekki bráðna strax en gerir það á endanum. Bætið við rúmlega 1 tsk af vanillu essence. Hrærið vel við miðlungshita þar til þetta er orðið samfellt og farið að þykkna aðeins.Hér gæti þurft aðeins meira af sætuefninu en þið sjáið bara til.
Takið af hellunni, bætið svo við rúmlega matskeið af rjómaosti og 2 tsk af ferskum.sítrónusafa. Hrærið þar til rjómaosturinn er bráðinn. Látið kólna næstum alveg, hrærið svo upp í kreminu og látið svo á kökuna.
Þetta krem er of gott til þess að vera satt, ég sver það!

Símakökumyndir eru hreint ekkert æðislegar en gefur þó einhverja mynd af útkomunni

miðvikudagur, 7. janúar 2015

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014 og sú fyrsta á nýju ári!

Gleðilegt nýtt ár elsku bestu lesendur og takk kærlega fyrir það gamla!

Eldhúsið mitt tókst algerlega á loft á árinu, í bókstaflegri merkingu! Henti út því næstum fertuga og ónýta og breytti því algerlega, reif niður vegg, fann draumaeldhúsið í Ikea og ný eldunartæki. Við hjónin tókum svo sumarfríið í að setja það upp með dyggri aðstoð fjölskyldunnar.

Bloggið nældi sér í ansi marga nýja lesendur og er ég afar þakklát fyrir. Mér finnst alveg óskaplega gaman að skrifa niður margt af því sem ég er að gera og markmið þessa árs er að vera enn duglegri við það. Ég á það til að taka myndir og skrifa niður á blað það sem ég er að gera en gleyma svo að setja það hingað inn, maður er nú stundum aaalveg!

Snúðarnir góðu voru lang mest skoðaða uppskriftin og var langt á undan öllu öðru sem ég hef birt hér. Það er kannski ekki furða, því þó ég segi sjálf frá þá eru þeir algert lostæti. Auk þess að vera ódýrir, það þarf ekki eiga til mörg dýr innihaldsefni til þess að galdra þá fram: http://eldhusid.blogspot.com/2014/11/snuar-betri-en-ur-bakariinu.html

Einnig skellti ég í sykurlaust bananabrauð og það var nú líka ansi vinsælt! Fullkomið að byrja nýja árið á aðeins hollari bakstri! http://eldhusid.blogspot.com/2014/08/sykurlaust-bananabrau.html

Gratíneraði kjúklingarétturinn sló einnig heldur betur í gegn. Hann birtist í dásamlegri matreiðslubók sem hún Berglind á Gulur rauður grænn og salt gaf út. Fullkominn í matarboðið: http://eldhusid.blogspot.com/2011/01/gratineraur-kjuklingarettur-me-beikoni.html


Nú á nýju ári ætla ég hinsvegar að birta uppskrift af uppáhalds guacamole-inu mínu. Ég gæti borðað það með skeið, en í þetta sinn var ég reyndar með ofnbakaðan kjúkling og fajitas brún hrísgrjón með.

Í þennan mexíkó ættaða unað þarftu eftirfarandi:

4 passlega þroskuð lítil avocado (þessi litlu úr Bónus)
2 meðalstórir þroskaðir tómatar, smátt saxaðir
1/2 fínt saxaður rauðlaukur
1/4 - 1/2 hvítlaukur geiralaus, rifinn á rifjárni eða pressaður
Safi úr einu lime
1 tsk salt (ekki borðsalt, frekar maldon eða kosher)
1/2 tsk cummin

Stappið avocadoið í skál og blandið rest saman við. Geymið í ísskáp í allavega 1 klst áður en þetta er borið fram.Ég ætti kannski að setja niður uppskriftina af hrísgrjónunum líka. Þau eru afar einföld og fín með mexíkóskum mat.

1 bolli brún hrísgrjón
2 bollar vatn
1/2 kjúklingateningur
Suðan látin koma upp og sjóðið í ca 25mín á lágum hita eða þangað til þau eru næstum tilbúin.

1/2 rauðlaukur saxaður
1/2 paprika söxuð
hvítlaukur
1/4-1/2 bréf Fajitas krydd
1/2 bolli vatn

Steikið lauk, papriku og hvítlauk í stutta stund á pönnu, bætið við soðnum hrísgrjónum og blandið saman á pönnunni. Bætið kryddi og vatni út á og blandið saman. Passið samt að hræra ekki of mikið svo þetta verði ekki að graut. Lækkið hitann niður í lægsta og látið malla í stutta stund áður en þetta er borið fram.