Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

föstudagur, 25. nóvember 2011

Aðventu möffinsÉg er ein af þeim sem á í ástar-haturs sambandi við piparmyntu. Finnst hún ekki passa allstaðar en er mjög hrifin af því að setja piparmyntukrem á súkkulaði kökur. Kannski eitthvað tengt barnæskunni þar sem vinafólk foreldra minna höfðu alltaf slíkar afmæliskökur í afmælum barna sinna og fannst þær alltaf jafn góðar. Eina fjölskyldan sem gerði svoleiðis kökur og þegar ég hugsa um það, þá hef ég ekki fengið slíka köku síðan.

Þessar eru pínu jólalegar, myntuglassúr litaður grænn og silfurkúlur (ætar að sjálfsögðu)
Fyrsti í aðventu á sunnudaginn og ekki úr vegi að starta smá bakstri.

1 pk súkkulaðikökumix (já ég veit, en ég átti það til og langaði að nota það, hinsvegar er mjög gott að nota líka uppskriftina af sykurpúða skúffukökunni hérna af síðunni.
Setti deigið jafnt í 12 köku möffinsbakka og notaði ekki bréf að þessu sinni, spreyjaði formin bara með bökunarspreyi. Bakið í ca 18 mín á 175°c.

Ca 400gr flórsykur
Nýmjólk
1/2 - 1 tsk Piparmyntudropar
1/2 tsk Vanilludropar
Grænn Wilton matarlitur
Rauður Wilton matarlitur
Silfurkúlur til skrauts

Setti flórsykurinn í skál og setti nokkra dropa af mjólk og byrjaði að hræra, magnið af mjólk þarf að vera mjög lítið og setja lítið í einu. Hann á nefnilega að vera mjög þykkur. Setjið vanilludropana saman við og byrjið á hálfri af piparmyntunni, þetta eru frekar sterkir dropar og betra að smakka glassúrinn til. Bætið grænum matarlit út í og hrærið vel. Ég setti agnarögn af rauðum við til að dempa græna litinn. Glassúrinn leit pínu út eins og slý án þess og fannst hann lítið girnilegur þannig ;)
Sikksakkaði einhvernveginn yfir kaldar múffurnar og setti strax silfurkúlurnar yfir.

Mjög svo jólalegar múffur og dásamlegar með Grýlukanil frá Kaffitári :)

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Teriyaki nautakjötsrétturÉg er alveg sérstaklega mikið fyrir allt asískt stir fry, elska hvað þetta er fljótlegt, brakandi grænmeti, bragðgóðar sósur og annað hvort núðlur eða hrísgrjón með.
Oftast nota ég kjúkling en í kvöld var ég með nautakjöt. Og vá, þetta var sérstaklega gott svo ég pósta uppskriftinni að sjálfsögðu.
Hinsvegar, eins og í gær, þá tók ég ekki myndir. Fann reyndar mynd sem líkist útkomunni.

500gr Ungnauta snitsel skorið í strimla
1 tsk Kókosolía
1 gul paprika
Hálfur rauðlaukur skorinn í þunna báta
2 gulrætur í sneiðum
10cm blaðlaukur í sneiðum
Brokkoli - nokkur lítil blóm
3 cm bútur af engifer smátt söxuðu
3 hvítlauksrif söxuð
1 dós baby maís
Hálf flaska Teriyaki sósa frá La Choy
Nokkrir vænir slurkar soja sósa eftir smekk (notaði kikkoman, finnst hún best)

Hitið pönnuna snarpheita og setjið kókosolíuna út á. Snöggsteikið nautakjötið og þegar það er brúnað, bætið þá grænmeti út á pönnuna. Steikið áfram í smástund og bætið þá sósum út á pönnuna.
Passið að steikja ekki réttinn lengi, best er að hafa grænmetið krispí og nautakjötið að sjálfsögðu ekki ofeldað.

Mæli með því að hafa annað hvort hrísgrjón með eða núðlur en ef þið veljið hrísgrjón þá er best að hafa þau alveg tilbúin þegar byrjað er á réttinum. Hann er svo súper fljótlegur!

mánudagur, 21. nóvember 2011

Grísk ættaður ofnfiskur

Vá, er virkilega svona langt síðan ég hef sett eitthvað hingað inn? Maður minn, algerlega til háborinnar skammar! Og ég sem hef gert alveg helling síðan!
Bretta upp ermarnar takk. Set inn kvöldmatinn í kvöld sem reyndist vera hinn ágætasti fiskréttur sem ég "fattaði uppá".

Gleymdi hinsvegar algerlega að taka myndir en þið notið bara ímyndunaraflið í þetta sinn right?

Ca. 600gr beinlaus og roðflett ýsa skorin í bita
Ólífuolía
1 dós niðursoðnir Hunt's tómatar með kryddjurtum
70gr tómatpúrra (eða lítil dós)
1 stór rauðlaukur
3 gulrætur í sneiðum
3-4 hvítlauksgeirar
ca 14 svartar ólífur skornar í sneiðar
Hálf krukka fetaostur í olíu en olían skoluð af að mestu.
Rifinn ostur (má sleppa)
Maldon salt, nýmalaður pipar, oregano, mynta og basilika

Smyrjið ofnfast mót með ólífuolíu og leggið fiskinn í fatið.
Setjið saman í skál, tómatana, púrruna, hvítlaukinn, ólífur og fetaostinn og hrærið saman.
Hellið yfir fiskinn og bætið þar ofan á gulrótum og rauðlauk, hrærið aðeins í.
Kryddið vel og setjið ostinn ofan á.
Bakið í ofni á 180°c í 25 mín, grillið síðustu 5 mínúturnar.

Berið fram með ofnbökuðum timian kartöflum og fersku salati.