Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

laugardagur, 13. september 2014

Sykurlausar smákökur með eplum, rúsínum og kanilÉg er hreinlega elska að fletta í gegnum matarmyndir á Pinterest í von um smávegis innblástur. Oftast finn ég eitthvað sniðugt sem kveikir hugmynd að nýrri uppskrift og þessi er akkúrat þannig. Ég er alltaf að reyna að finna eitthvað sniðugt sem ég get gúmmelaðast (já það er sko orð) með kaffinu án þess að liggja í sykurvímu á eftir. Ég er nýbúin að kaupa mér Sugarless Sugar frá Now og vantaði einhverja sniðuga uppskrift til þess að prófa þetta nýja (nýtt fyrir mér amk!)
Ég er bara nokkuð hrifin af þessum "sykri" og finnst hann svona minnst gervilegastur af þeim sem ég hef prófað en þetta er blanda af Erythritoli og Stevíu.
Ég mæli 100% með þessum litlu kökum en mín vegna mætti alveg vera aðeins minna af "sykrinum", ég notaði 2/3b en mætti alveg vera bara 1/2b.

Innihald:

1 bolli heilhveiti eða gróft spelt
2 bollar grófir hafrar
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk sjávarsalt
1 tsk kanill
1 mjög slappur banani
2 meðalstór egg
2 msk olía
1/2 - 2/3 bolli Sugarless sugar frá Now
1 tsk vanilluessence (eða dropar)
1 jonagold epli afhýtt og rifið á rifjárni
1/2 bolli rúsínur

Byrjið á því að hita ofninn í 180°c. Takið svo stóra skál og setjið bananann í hana, stappið hann í spað og bætið við eggjum, olíu, vanilluessence og Sugarless sugar og þeytið vel með handþeytara. (Eða mjög vel með písk). Blandið saman hveiti, höfrum, lyftidufti, matarsóda, salti og kanil í skál og blandið saman. Hellið út í blautefnin í nokkrum skömmtum og hrærið varlega á milli með sleikju. Að síðustu þegar allt er blandað saman setjið þið rifna eplið og rúsínurnar.
Setjið á bökunarplötu með skeið og bakið í ca. 13-15mín.
Það er svolítið erfitt að hemja sig, gleypti í mig þrjár! Smakkast ótrúlega vel með funheitu kaffi ;)


"Sykurinn" lítur svona út, keypti minn á heilsudögunum í Nettó!

miðvikudagur, 3. september 2014

TacosúpaMér finnst mexíkósk kjúklingasúpa rosa góð. En það er ekkert alltaf, eða eiginlega bara sjaldan sem ég nenni að gera hana. Svo tími ég sjaldan að kaupa kjúklingabringur. Er soddan nískupúki. Mig langaði í einhverja mexíkóska súpu og mundi eftir að hafa einhverntíma séð súpu svipaða þessari. Ég tók bara eitthvað grænmeti sem ég átti. Átti afgang af hakki. Fann líka rjóma síðan ég hélt smá kaffiboð um helgina.. hitt og þetta og allskonar og úr varð þessi agalega fína mexíkóska tacosúpa. 
Mér þykir agalega leiðinlegt að fara sérstaka ferð í búðina til þess að kaupa í eina uppskrift. Enda því oftast með að nýta eitthvað sem ég á. En þá er líka gott að eiga ágætis "pantry". 
Ég á yfirleitt nokkrar tegundir af baunum og fræjum, niðursoðna tómata, tómapúrru, ýmis krydd og allskonar. Eitthvað sem endist eitthvað. Ég tel allavega sjálfri mér trú um það að það sé sparnaður í því. ;)

Þetta endaði einhvernveginn svona:

250gr nautahakk
2 gulrætur
1 paprika rauð
1 rauðlaukur
1 blaðlaukur hvíti hlutinn
3 hvítlauksrif
1 bréf tacokrydd
1 nautateningur
Stór krukka salsasósa eða eftir smekk. Styrkleiki fer líka eftir smekk
1 lítil dós tómatpúrra og síðan tóm fernan fyllt af vatni og sett út í
1 ferna tómat passata (þykkur tómatsafi í fernu)
2 dl matreiðslurjómi, eða venjulegur rjómi

Sýrður rjómi
Flögur
Rifinn ostur ef vill

 Ég saxaði allt grænmetið og svissaði það í stórum potti. Bætti síðan hakkinu út í og kryddaði með tacokryddinu. Því næst setti ég tómatsafann út í, fyllti síðan tóma fernuna af köldu vatni og bætti í pottinn. Nautateningi hent út í og látið malla í svona 20 mín. Bætti síðan rjómanum út í og lét malla í svona 10 mín í viðbót.
Var einmitt mjög fínt að nota tímann á meðan súpan mallaði að ganga frá í eldhúsinu, leikföngum dótturinnar, þvotti ofl. Elska mat sem eldar sig sjálfur!
Svo skúbbuðum við sýrðum rjóma út á og flögum og allir sáttir!

P.s Hugsa að þessi súpa nægi fyrir svona 4 svanga. Við vorum allavega 3 og þar af tvö mjög svöng. Og það er afgangur! Halló nesti!