Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

sunnudagur, 27. nóvember 2016

Lang bestu piparkökurnar

Piparkökubaksturinn í fullum gangi hér og Star Wars kallinn auðvitað með. Myndgæði mættu þó vera betri en hér var komið myrkur og eldhúsljósið varð látið duga...Í mörg ár hef ég byrjað aðventuna á því að gúggla piparkökuuppskriftir. Hef aldrei verið nógu sátt, annað hvort of harðar eða of mjúkar, bragðlausar eða bara eitthvað við þær sem mér líkar ekki við.
Þangað til fyrir svona 2-3 árum sem ég rakst á uppskrift sem mig minnir að sé frá Kötlu en er bara ekki alveg 100% viss. Í fyrra var ég svo sniðug að skrifa uppskriftina inn í uppskriftabók sem ég handskrifa svona "best of the best" uppskriftir og mun hún verða þar að eilífu.

Þessi uppskrift sameinar allt sem mér finnst að piparkökur ættu að hafa, stökkar en ekki grjótharðar, í dekkri kantinum og mjög bragðmiklar án þess að það sé samt yfirgnæfandi kryddbragð.

Þegar þú hefur prófað þessa skiluru hvað ég á við. Mæli með því að prenta hana út og geyma eða skrifa hana í "bókina" þína ef þú átt svona þreytta handskrifaða uppskriftabók eins og ég.
Eins og með flestar uppskriftir er best að gera daginn áður og geyma í kæli þangað til daginn eftir.
Einnig er mjög mikilvægt að taka deigið útúr ísskápnum eða inn af svölunum/garðinum með nokkurra tíma fyrirvara svo deigið sé ekki alveg grjóthart og ómögulegt þegar á að fara að fletja út.

Uppskriftin er semsagt þessi:

500gr Kornax hveiti
250gr sykur
180gr smjör (upprunalega uppskriftin biður um smjörlíki en ég nota það helst aldrei)
2 tsk matarsódi
2 tsk negull
2 tsk engifer
1/2 tsk hvítur pipar
4 tsk kanill
1 dl sírópið í grænu dollunum
1 dl mjólk

Setjið smjörið og sírópið saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Þegar blandan er alveg að verða bráðin setjið þá allt krydd út í og hrærið saman. Takið af hellunni og setjið önnur þurrefni saman í hrærivélaskál. Notið krókinn og hellið sírópskryddblöndunni út í ásamt mjólk. Hrærið vel saman þangað til deigið er orðið samfellt og slétt. Setjið plast yfir skálina og kælið yfir nótt eins og áður sagði. Munið að taka deigið svo út með góðum fyrirvara.
Fletjið deigið frekar þunnt út þar sem það blæs svolítið upp.
Bakið við 195°C í ca. 6-7 mín. Kælið svo á grind og skreytið með glassúr ef vill.
Persónulega finnst mér þær eiginlega bestar án glassúrs en það er auðvitað bara smekksatriði eins og hvað annað.

Þú munt aldrei þurfa að leita að piparkökuuppskrift aftur...
Gleðilega aðventu kæru vinir!sunnudagur, 14. ágúst 2016

Bragðmikil Tælensk Kjúklinga-núðlusúpa

Ég er í einhverri afneitun um að haustið sé á leiðinni. Finnst eins og það sé farið að kólna og skólinn bíður mín handan við hornið. Til þess að staðfesta endanlega þennan grun minn um að sumri sé farið að halla er ég komin með brjálæðislega mikið kvef og þurfti því eitthvað heitt og sterkt til þess að reka út þessa kvef-anda!

Sko, mig langaði rosalega í núðlusúpu af Noodle Station en þeir staðir eru bara svo langt frá mér að ég hafði ekki þrek í að keyra alla leiðina þangað. Ég gúgglaði því bara allskonar uppskriftir og blandaði saman nokkrum með tilliti til hvað ég ætti í ísskápnum. Ég á yfirleitt alltaf til allskonar dósir og krukkur (ég er hirðingi þegar kemur að mat, ég viðurkenni það. Alltaf eins og það sé von á styrjöld eða hungursneyð heima hjá mér...) Sumt endist reyndar mjög lengi í ísskáp og ég get varla lifað án þess að eiga til t.d hvítlauk, kókosmjólk, engifer, kryddmauk ofl. slíkt. Og nú kom það sér svo sannarlega vel.

Það tók ekkert voða langan tíma að græja þessa súpu, lítur eiginlega út fyrir að vera töluvert flóknari en hún raunverulega er vegna þessa langa innihaldslista.

2 geiralausir hvítlaukar (þessir voru frekar litlir, eða 1 1/2 stórir), smátt saxaður
2-3 cm bútur engifer, smátt saxaður
1 rauður chili, fræhreinsaður.
10 cm bútur blaðlaukur skorinn í sneiðar
4 meðalstórar gulrætur, skornar í steniðar
2 skallottulaukar, smátt saxaðir
2 tsk kókosolía
1 l. Kjúklingasoð (eða 1 l. vatn og 3 kjúklingateningar)
2 dósir kókosmjólk (full fat)
1-2 msk rautt karrímauk (magn eftir smekk, er frekar sterkt - ég sett meira en minna núna)
2 msk asísk fiskisósa
safi úr einni límónu (lime)
2 tsk púðursykur
4 kjúklingabringur eldaðar, skornar í bita, einnig hægt að rífa kjöt af heilum kjúkling.
Hrígrjónanúðlur eftir smekk
1 tsk túrmerik
1 tsk kóríender duft (má líka saxa vel af ferskum kóríander ef hann er til)

Söxuð fersk steinselja
Saxaður vorlaukur

Saxið grænmetið og steikið uppúr kókosolíunni. Hellið soði eða vatni og teningum út í og kókosmjólk. Setjið allt krydd saman við og látið malla góða stund. Steikið bringur á meðan og skerið í bita og setjið út í.
Sjóðið núðlur samkvæmt leiðbeiningum, setjið skammt eftir smekk í djúpan disk, súpu þar yfir og skreytið ef vill með ferskri steinselju og söxuðum vorlauk.
Þessi er algjört dúndur og virkar þvílíkt vel á flensu og kvef!

Það er alveg hægt að stilla styrkleikann af með karrímaukinu og rauða chiliinu. Það má alveg sleppa því nú eða bara bæta við fyrir aukinn styrk.

Verði ykkur að góðu og gleðilegt haust!


þriðjudagur, 14. júní 2016

Myntu krókant rice krispies terta
Þessi sko! Þetta er alveg fullkomin blanda fyrir myntu og rice krispies sjúklinga eins og manninn minn. Hann er algjör sökker fyrir allra handa notkun á rice krispies og yfirleitt endar diskurinn hans í barnaafmælum stútfullur af tómum möffins bréfum utan af slíkum kökum. Já maður vex ekkert upp úr svona gúmmelaði!

Það eru auðvitað til margs konar útgáfur af þessu. Allskonar súkkulaði bætt við, sælgæti, bananar, karamella.. en þessi fór aðeins í aðra átt en ég hef séð hingað til. Tvistið er þetta Marabou myntu krókant súkkulaði sem fæst í Ikea. Það er bara af öðrum heimi, ég get svarið það.

Það lítur svona út...

Þetta í botninn og aðeins í rjómann.. Úff bara!

Þetta er auðvitað hefðbundin uppskrift en þessi klikkar aldrei, ef ég fer eftir henni nákvæmlega þá helst hún vel saman. Alls ekki freistast til þess að bæta aðeins við af morgunkorninu, þá fer allt í rugl! :P

Í botninn þarf:

75gr smjör
50gr Myntu krókant súkkulaði frá Marabou
100gr suðusúkkulaði
6 msk síróp í grænu dósunum
5 bollar rice krispies

Smjör, súkkulaði og síróp brætt í potti
Rice krispies sett í skál, þegar allt er bráðið
Saman er blöndunni hellt yfir rice krispies
Og blandað vel saman með sleikju.
Blöndunni þrýst vel niður í form og kæld vel.

Rjómakrem:
300ml rjómi
100gr myntu krókant súkkulaði saxað
1 tsk kakó
1 tsk vanillusykur


Stífþeytið rjómann með vanillusykri og kakói. Þegar hann er tilbúinn er súkkulaðinu blandað varlega saman við með sleikju. Takið botninn úr forminu og setjið á disk. Smyrjið rjómanum yfir og raspið smá súkkulaði yfir.

föstudagur, 3. júní 2016

Súkkulaði & Hnetusmjörs kubbar

Jess! Skólinn loksins búinn og þá getur allskonar skemmtilegt tekið við líkt og þetta blogg hérna!
Hvað ég hef saknað ykkar!
Er með fullt af uppskriftum sem mig langar að prófa og allskonar hugmyndir í kollinum að nýju gúrmeti. 

Í þetta sinn prófaði ég að gera hnetusmjörsbita með súkkulaði/hnetusmjörskremi. 
Úff.
Þetta er svona, hvað á ég að segja, frekar þéttur haframjölsbotn sem inniheldur m.a hnetusmjör og kremið ofan á er blanda af bráðnu súkkulaði og hnetusmjörskremi. 
Þetta er alveg eins dísætt og brjálæðislega gott og það hljómar. Það nægir alveg að fá sér einn lítinn bita með mjólk (fyrir þá sem þola hana, sem er því miður ekki ég :( ) eða góðu kaffi.

Ég prufukeyrði þessa í kvöld þar sem stelpan mín fer að hætta á leikskólanum sínum og mig langar til þess að senda hana með eitthvað sætt og gott fyrir leikskólakennarana til þess að gæða sér á í kaffinu. 
Held að þetta sé eitthvað!

Hentar örugglega vel í allskonar tilefni, afmæli eða sem smá eftirréttur.Við byrjum á því að hita ofninn í 175°C,
Hefjum svo handa við gera deigið; í það þarftu:

1/2 bolla smjör
1/2 b. sykur
1/2 b. púðursykur
1/3 b. gróft hnetusmjör  (venjulegt, ekki svona fansí lífrænt)
1 egg
1 b. rautt Kornax hveiti
1 b. gróft haframjöl
1/4 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk vanillu essence

Kremið:
100 gr. suðusúkkulaði
1/2 b. flórsykur
1-2 msk mjólk
1/2 b. gróft hnetusmjör

Hrærið vel saman sykurinn, smjörin og eggið. Þeytið með Káinu í svona 2 mín. 
Bætið þurrefnum út í auk vanillunnar og hrærið þar til þetta er blandað saman en ekki lengur en það. 
Þjappið í ferkantað form sem er ca. 20x30 cm. Bakið í 20 mín.
Á meðan  botninn bakast, saxið þá súkkulaðið og hrærið saman kremið. Ekki er þörf á að nota hrærivél eða þeytara. Setjið bara hnetusmjörið, flórsykurinn og mjólkina saman í skál og hrærið með skeið.
Um leið og kakan kemur úr ofninum, stráið þá söxuðu súkkulaðinu jafn yfir botninn. Bíðið smástund og dreifið þá bráðnu súkkulaðinu um botninn. Setjið strax kremið ofan á súkkulaðið og dreifið úr því. Það blandast súkkulaðinu og gerir svolítið skemmtilegt munstur.

Það er örugglega töff að setja smá af söxuðum salthnetum ofan á sem skraut en ég átti þær bara ekki til. 

Algjört lostæti þessi!


fimmtudagur, 17. mars 2016

Doughnuts - Donuts - Kleinuhringir... Já, betri en úr bakaríi!Ég er alltaf að reyna að gera sem flest heima hjá mér. Það sameinast í mér nískupúki (ég vil samt meina sparsemi, svona þar sem ég er nemi) og sælkeri. Það getur oft verið pínu flókið en þegar kemur að bakstri finnst mér gaman að prófa mig áfram með bakkelsi sem fæstir nenna að standa í að gera. Þar sem verðmunurinn getur verið svo bilaður á heimabakstri og því sem er keypt í bakaríi finnst mér áskorunin sérlega skemmtileg, svo ég tali nú ekki um þegar vel tekst til.

Eitt af því sem ég hef aldrei lagt í að gera eru kleinuhringir. Ég hef prófað að baka flest en þetta er eitt af því sem hefur alltaf vaxið mér í augum. Ég hef séð ótal uppskriftir og "pinnað" þær á Pinterest og hvaðeina en lét verða af því núna um helgina að prófa.
Og ég verð að segja að þetta tókst miklu miklu betur en ég þorði að vona. Það var samdóma álit þeirra sem komu í kaffi til að bragða á afrakstrinum að þeir væru mun betri en þeir sem hægt er að fá í bakaríum landsins. Líklega er það vegna þess að í þessum er meðal annars íslenskt smjör og egg en ekki duft blandað með vatni eins og svo mörg bakarí gera.

Þessir kleinuhringir eru svolítið "slow-cook" verkefni en eru alls ekki flóknir þó. Hefunin tekur frekar langan tíma en það er alveg 100% þess virði.

Uppskriftin er ekki frá mér komin en ég ætla að þýða hana hér og segja frá því hvernig ég gerði þetta í myndum. Ég nota amerísk bollamál sem tekur ca, 240ml.

Í kleinuhringina þarf:
1 og 1/8 bolla ylvolga nýmjólk
1/4 bolli sykur
2 og 1/4 tsk þurrger
2 stór egg aðeins hrærð
140gr brætt smjör
4 bollar blátt Kornax hveiti
1/4 tsk salt

2 kubbar af Palmín feiti

Setjið mjólkina í hrærivélaskál og hrærið sykurinn saman við. Bætið þurrgeri út í látið bíða í 5 mínútur, bræðið smjörið en passið að hita það ekki of mikið. Sláið eggin saman í skál og setjið út í mjólkurblönduna ásamt smjörinu og hrærið saman. Setijið hveitið og salt út í blautefnin og hnoðið með hnoðaranum í 5 mínútur.
Fyrir hefun

Látið standa í skálinni í 10 mínútur. Að þeim liðnum mótið deigið í kúlu og setjið í skál sem hefur verið smurð létt með matarolíu. Setjið plastfilmu yfir skálina og hefið í ísskáp yfir nótt.

Eftir nóttina í ísskápnum var deigið orðið svona

Þegar steikja á hringina er deigið tekið útúr ísskápnum og það flatt út með smá hveiti ef þarf. Það er gott að hafa það kannski tæpan sentimetra á þykkt. Skerið hringina út með kleinuhringjajárni en af því að ég átti það ekki til notaðist ég við glas og tappa af kaffisírópi. Örugglega hægt að nota hvað sem er, bara skoða hvað er til í skápunum!

Þrýsti niður á kúluna og setti smá hveiti

Flatt út


Loks eru kleinuhringirnir skornir út

Setjið kleinuhringina og "götin" sem skorin eru út á bökunarpappír. Þegar það er búið að skera úr úr öllu deiginu er ofninn hitaður í 45°C og hann úðaður að innan með vatni. Kleinuhringirnir eru látnir hefast í ofninum í 45 mínútur. Að þeim tíma loknum eru þeir teknir út úr ofninum og slökkt á honum.

Við steikjum "götin" líka ;)

Setjið palmínið í þykkbotna pott og hitið upp í 180°C, mæli með því að setja viftuna á fullt líka. Setjið gott lag af eldhúspappír á disk og bökunarplötu, hafið svo plötu með hefuðum hringjunum við hliðina á pottinum.

Feitin að bráðna og hringirnir orðnir "puffy" og flottir eftir ofnhefun

Takið þá varlega af plötunni og steikið 2 í einu í pottinum. Það er ekki gott að setja fleiri út í í einu því þá kólnar feitin of mikið. Ég sný þeim við þegar þeir eru orðnir gylltir og veiði þá uppúr með gataspaða, er reyndar með annan stálspaða á móti sem ég nota til þess að snúa hringjunum. Set þá beint á disk með pappír sem er við pottinn en færi þá svo þaðan yfir á bökunarplötu með pappír og safna þeim þar.

Chillað í pottinum...

Þegar allir eru steiktir og "götin" líka gerði ég 2 týpur af glassúr en það er hægt að setja allt á þá sem hugurinn girnist.

Fullkomnir! Eða svo gott sem...

Ég gerði "maple" og súkkulaði glassúr og skreytti með kökuskrauti og söxuðum pekanhnetum. Það er hægt að sleppa því að setja glassúr og sigta bara flórsykur yfir eða jafnvel sleppa því að gera gat og sprauta annað hvort nutella eða sultu inní. Það er bara allt hægt!


Loftmiklir og mjúkir!

Möguleikarnir eru endalausir í kremum og skreytingum!

Uppskrift fengin héðan: http://www.blessthismessplease.com/2012/07/pioneer-womans-glazed-donuts.html

sunnudagur, 13. mars 2016

Pekanhnetu-hlynsíróps og beikon snúðar

Snúða-óða konan sem ég er varð að prófa þessa hugmynd en ég hef oft séð þessa blöndu á erlendum matarbloggum, eða "maple-peacan-bacon" verkefnið. Þetta hljómar kannski ótrúlega skrýtið að setja beikon á eitthvað sem er sætt en í raun er það alveg fullkomið. Það kemur bara smá saltbragð með kreminu og hnetunum og myndar einhverja alveg sérstaklega dásamlega blöndu.
Þetta er nokkurskonar sambland af "Cinnabon" snúðum (þessum með rjómaostakreminu ofan á) og einhverri snúðaköku. Veit ekki hvernig ég get lýst þessu betur.

Kremið er reyndar smá slump en ég held að ég muni nú alveg hvað fór ca. af hverju en það er ekkert heilagt og endilega smakkið til, ef ykkur finnst þið þurfa að þykkja eða setja meira af bragðefnum eða sírópi þá er bara um að gera að hafa það eins og maður kýst helst.
Ég mæli einnig eindregið með því að rista pekanhneturnar en þá kemur svo gott bragð af þeim.

Þessir snúðar eru alls ekki flóknir og alveg tilvaldir í helgarbaksturinn og henta að mínu mati sérlega vel á "brunch" hlaðborð.

Í snúðana sjálfa:

1 bolli fingurvolg mjólk
2 egg
75gr bráðið smjör, aðeins kælt
4 1/2 bolli blátt Kornax hveiti
1 tsk salt
1/2 bolli sykur
2 1/2 tsk þurrger

Setjið mjólk og ger saman í hrærivélaskál og látið bíða í 5 mínútur. Passið ykkur á því að mjólkin verður bara að vera rétt fingurvolg því ef hún er heitari drepst gerið og snúðarnir lyfta sér ekki. Bætið því næst eggjum og smjöri út í mjólkurblönduna og blandið aðeins saman. Setjið hveiti, salt og sykur út í og hnoðið með hrærivélinni í 5 mínútur. Það gerir snúðana extra mjúka og fína að hræra deigið vel. Mótið svo deigið í kúlu og setjið plastfilmu yfir skálina og hefið í 40 mín.


Fylling:
50gr bráðið smjör
1/2 bolli púðursykur
1 1/2 msk kanill

Þegar deigið er hefað er það flatt út í ferning og deigið smurt með bráðnu smjörinu og kanilpúðursykrinum stráð yfir.
Rúllið deiginu upp og skerið í átta snúða. Mér finnst best að skera smá rák í rúlluna akkúrat í miðjuna og svo aftur í miðjuna osfrv. en þannig verða snúðarnir jafnastir að stærð.
Smyrjið ofnfast mót með smá bráðnu smjöri og leggið snúðana á fatið.
Hitið ofninn í 50°C og úðið hann að innan með vatni, setjið snúðana á grind í miðjum ofninum og spreyjið aðeins með vatni og hefið í ofninum í 45 mín.
Á meðan snúðarnir hefast er gott að steikja beikonið og rista hneturnar. Ég skar beikonið fyrst í litla bita og steikti það þar til það varð mjög stökkt. Ég setti það svo til hliðar á pappír, þurrkaði pönnuna og ristaði svo hneturnar.

4-5 frekar stórar beikonsneiðar
50gr pekanhnetur ristaðar

Þegar snúðarnir hafa hefast þá eru þeir teknir úr ofninum og hann hitaður upp í 200°C. Þegar ofninn er kominn upp í bökunarhita eru þeir settir inn í miðjan ofninn og bakaðir í ca. 15 mín. Mæli þó með því að fylgjast með tímanum þar sem ofnar eru svo misjafnir, gætu þurft styttri eða lengri tíma.
En þegar snúðarnir eru að bakast er kremið gert.

Krem:
100gr smjör
2 (+)bollar flórsykur
2 tsk maple dropar (fást þó líklega ekki hér)
eða 2-3 msk maple síróp í staðinn
Smá nýmjólk ef þarf til að þynna (aðallega ef maple droparnir eru notaðir)

Bræðið smjörið í potti og setjið því næst flórsykur og síróp eða bragðefni út í og hrærið vel með písk.
Þegar kremið er orðið eins og vel þykkur glassúr og kekkjalaust er því dreift yfir snúðana og hneturnar og beikonið strax sett á.

Verði ykkur að góðu!

Ein extreme close up! ;)


þriðjudagur, 23. febrúar 2016

Sítrónusnúðar

Eins ótrúlega og það hljómar þá elska ekki allir kanil! Furðulegt ekki satt?!

Nei grín, svo sem ekkert furðulegt en þá er gott að hafa einhverja snúðauppskrift í bakhöndinni þar sem honum er sleppt. Og þar sem ég er eldheitur aðdáandi sítróna þá kemur eiginlega ekkert annað til greina en að reyna að sameina sítrónubragðið við snúða. Það getur bara ekki klikkað!?

Ég er svolítið hrifin af Cinnabons eða kanilsnúðum með rjómaostakremi. Þeir eru bakaðir í eldföstu móti og látnir klessast saman og kremið sett á þegar þeir eru heitir. Þetta verður þá svolítið eins og snúðakaka eiginlega. Ég prófaði að taka uppskrift af Cinnabons og breytti henni þannig að sítrónubragðið myndi njóta sín sem best.

Þetta er þá útkoman, alveg ofsalega góðir, svolítið vel sætir en það gerir svo sem ekkert til er það?

Deigið er svona:

1/2 bolli fingurvolg nýmjólk
1 1/4 tsk þurrger
2 1/4 bollar brauðhveiti frá Kornax (í bláum pokum)
1/2 tsk salt
1/4 bolli sykur
Rifinn börkur og safi af 1/2 sítrónu
1 stórt egg við stofuhita
40gr bráðið smjör - lítilllega kælt
1/2 tsk sítrónudropar

Setjið mjólkina í skál og stráið gerinu yfir, látið bíða í ca. 5 mínútur. Bræðið smjör og setjið til hliðar.
Því næsti blandiði saman þurrefnum í hrærivélaskál og setið hnoðarann eða krókinn á.
Hrærið þurrefnum aðeins saman og bætið svo gerblöndunni, eggi, börk og sítrónusafa, sítrónudropum og bráðnu smjörinu í skálina. Hnoðið í hrærivélinni í ca. 5 mínútur, þannig að deigið verði slétt og fellt. Látið hefast í fyrstu hefun í 40 mín á hlýjum stað.

Fylling:
1/3 bolli sykur
50gr mjúkt smjör
Rifinn börkur og safi úr 1 sítrónu

Setjið allt saman í skál og hrærið eins vel saman og hægt er. Hitið svo í örbylgju á hæsta styrk í ca 10 sekúndur til þess að mýkja þetta aðeins.

Fletjið deigið út í ferhyrning og smyrjið fyllingunni á deigið. Skiljið smá kant eftir. Rúllið deiginu upp og skerið í 8 snúða.

Fyllingin sett á, svo er rúllað upp og skorið í snúða


Hitið ofninn í 50°C. Raðið snúðunum í lítið fat, úðið ofninn með vatni og aðeins yfir snúðana og látið hefast í 45 mínútur eða þar til þeir hafa margfaldast að stærð.

Hérna eru þeir hefaðir. Ég sett reyndar afganginn af fyllingunni yfir en næst myndi ég sleppa því.
Þegar snúðarnir hafa hefast takið þið þá útúr ofninum og hitið ofninn í 200°C. Bakið í 15-20mín eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir.

Vel bakaðir og fínir

Á meðan snúðarnir eru í ofninum útbúið þið kremið:

50gr mjúkur rjómaostur
20gr smjör
1 bolli flórsykur
safi og börkur af 1/2 sítrónu

Þeytið saman og smyrjið kreminu yfir heita snúðana. Það þarf alls ekki að setja allt kremið á, né fyllinguna. Það er vel hægt að stjórna því hversu sætir þeir verða.

Dúnmjúkir!föstudagur, 19. febrúar 2016

Konudagstertan - vanillubotnar, rjóma-rjómaostakrem, jarðarberjamauk og fersk jarðarber


Rjómaostakrem, jarðarber og vanilla - þetta er eitthvað rómantískt og fallegt. Einfalt en samt svo elegant.
Eftir því sem ég eldist færist ég frekar frá þungum súkkulaðikökum og svona "sælgætiskökum" og vel frekar eitthvað ferskara. Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu minni er ég ótrúlega veik fyrir öllu með jarðarberjum og verða þau því oft fyrir valinu þegar þarf að velja í aðalhlutverk í kökum.
Nú fer að renna upp þessi jarðarberjatími. Það verður auðveldara að nálgast berin og oft getur maður hitt á einhvers konar tilboð, sér í lagi ef það er konudagur eða valentínusardagur. Yfirleitt þegar hittir svoleiðis á, enda ég með fullan ísskáp af berjum og finn svo útúr því hvað ég ætla að gera við þau. Stundum borðast þau bara eintóm en svo getur líka farið svo að þau endi í köku.

Þessi kaka varð til úr allskonar, langaði í ljósa botna, smá rjóma, og vel af berjum og þetta var útkoman. 3ja hæða bomba!
Ég fór með flykkið með mér í kaffi til tengdaforeldranna um síðustu helgi, svona rétt til þess að leyfa fólki að smakka og fá smá gagnrýni en það er skemmst frá því að segja að hún var engin. Einróma álit að þessi terta sé ein sú allra allra besta sem fólk hefði smakkað og flestir fengu sér 2x á diskinn. Sumir 3x! ;)

Ég notaði þrjú 22cm form en það er ábyggilega í fínu lagi að skipta í tvö stærri form og skilja þá bara smá deig eftir ef það er einhver afgangur.

Í botnana fer:

3 bollar rautt Kornax hveiti
2 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
3/4 bolli mjúkt smjör
1 1/2 bolli sykur
3 egg
1/2 bolli sýrður rjómi eða súrmjólk
3/4 bolli nýmjólk
3 tsk vanillu essence

Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn í 165°C á blástur.
Setjð smjör og sykur í hrærivélaskál og þeytið vel með þeytaranum. Bætið við einu eggi í einu og þeytið vel á milli, munið að skrapa niður hliðarnar á skálinni. Þeytið svo vel saman þar til eggja blandan verður mjög ljós og létt.
Setjið þurrefnin í eina skál og blautu í aðra. Sigtið þurrefnin út í skálina og byrjið að hræra varlega með sleikju. Bætið mjólkurblöndunni varlega saman við. Deilið í formin og bakið í ca. 30-35mín.

Á meðan botnanir bakast geri ég jarðarberjamaukið. Mér finnst allt annað og miklu betra að gera þetta heldur en nokkurntímann að notast við sultu.
Hér blanda ég saman í skál:
2 bollum af frosnum jarðarberjum
og strái yfir
1/4 bolla af sykri.
Þetta set ég svo í örbylgjuna á defrost. Það á alls ekki að hita þetta, heldur bara þannig að hægt sé að stappa berin við sykurinn sem bráðnr í safanum. Setjið þessa blöndu svo til hliðar.

Þegar botnarnir eru tilbúnir verða þeir að kólna alveg og á meðan það gerist er gott að gera kremið sem er sáraeinfalt. Í það fer:
200gr rjómaostur við nánast stofuhita, alls ekki nota ískaldan
350-400gr flórsykur (eftir smekk)
400ml rjómi
2 tsk vanilluessence
1/2 tsk jarðarberja essence (má sleppa en fást annars í Kosti)

Setjið rjómaostinn í hrærivélaskálina og þeytið með þeytaranum. Bætið við dropum og flórsykri og þeytið mjög vel. Skafið kremið í aðra skál og setjið rjómann í hrærivélaskálina og stíf þeytið hann. Passið bara að þeyta ekki of mikið svo hann verði að smjöri! ;)
Hrærið því næst rjómaostablöndunni við rjómann og þá er kremið tilbúið.

Svo er bara að skera fersk jarðarber eftir smekk í sneiðar og þá má fara að raða kökunni saman.

Ég setti einn botn á disk og smurði jarðarberjamaukinu á botninn en ekki alveg út á brún því kremið sem fer svo ofan á ýtir maukinu lengra út á brúnina og út fyrir hana. Gott að bíða samt í svona 1 mín á milli þess sem maukið fer á og kremsins sem fer ofan á. Ofan á kremið fer svo eitt lag af sneiddum jarðarberjum. Endurtakið með næsta botn. Síðasti botninn fer svo ofan á hina tvo með krem og fersk ber ofan á.
Það þarf ekki að nota alveg allt kremið og smá jarðarberjamauk varð einnig eftir.


Hvað er fallegra!?


Þó ég eigi nú mann er ekkert þar með sagt að maður þurfi mann til þess að gera vel við sig og sínar! ;)
Verði ykkur að góðu!