Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

sunnudagur, 10. apríl 2011

Vinningsborgari með heimabökuðum fröllum og engum kokkteil

Ég fékk að smakka hamborgara um daginn. Sem er nú ekkert merkilegt nema fyrir þær sakir að þetta er án efa einn sá besti sem ég hef á ævinni smakkað.
Hann vann keppni Íslandsnauts um besta borgarann (og er vel að þeim titli kominn) og dreymir mig um hann dag og nætur. Eða nokkurnveginn þannig.

Svo er ég búin að vera rosa dugleg í ræktinni, borða voða mikið hollt og gott og hef meira að segja náð þeim merka áfanga að ganga í Stálfélag. Geri aðrir betur! (Fyrir utan hina meðlimi Stálfélagsins auðvitað)
Ég ákvað strax að hafa ekki nammidag heldur fá mér frekar eina "frímáltíð" á viku. Ég er nefnilega ein af ekki svo fáum sem nammidagur gildir frá föstudagskvöldi og fram á sunnudagskvöld. Það eru heil 3 kvöld og 2 dagar. En ekki 1 nammidagur! Obbossí...

Ég ákvað í vikunni að búa mér til þennan gúrmei gúrmei borgara. Ætlaði auðvitað að grilla hann en ef það væri ekki Ofsaveðursstormur 70m.sek með fjúkandi grillum, trampólínum og mótórhjólum þá hefði ég gert það. Notaði bara grillpönnu í staðinn.
Ákvað líka að hafa heimafranskar (hollari og betri), ekkert gos (drekk almennt allavega ekki sykrað gos svo það skipti mig engu) og enginn kokkteill (finnst hún ekki góð).
Einnig finnst mér mjög mikilvægt að kaupa vandað hráefni þegar maður ætlar að gera vel við sig, þetta er enginn subbuborgari nefnilega! Ég er snobbuð þegar kemur að hamborgurum og kaupi þá bara í Kjöthöllinni, langlanglangbestir þar.

Innihald (fyrir 2.)

5 stórar bökunarkartöflur
Smá olía
2 stórir hamborgarar (í þessu tilviki 140gr. og einn 220gr.)
2 stór brauð (verða að vera Kjöthallar, Myllan sökkar í gerð hamborgarabrauða)
Klettasalat
2 (eða 4) sneiðar parmaskinka
1/2 camembert skorinn í þunnar sneiðar
1 geiralaus hvítlaukur saxaður
1/2 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
Íslandsnaut Bernessósa
Salt&pipar

Við byrjum á því að skera kartöflurnar í "franskar".

Svona:

Set þær inn í ofn á 200°c. Setti smá olíu á þær en passa að setja bara oggusmá, það er svo mikill vökvi í kartöflunum að ef það er of mikið verða þær bara soggí.

Krydda borgarana vel með pipar og setja smá salt (passa saltmagn kannski þarna, því parmaskinkan er vel sölt sem og bernesinn)


Þeir sem þekkja mig, vita að ég er mikil kjötæta. Þessvegna finnst mér þessi mynd kannski sérstaklega fögur:


Og þetta er hráefnið sem gerir þessa borgara að því sem þeir eru. Hreint unaðslegt!


Mér finnst voða gott að hafa allt þunnt skorið hér, svolítið í anda skinkunnar...


Borgararnir fara á pönnuna, ég vil hafa mína well done.
Þegar það er búið að snúa og stutt í að þeir verði til, setur maður á parmaskinkuna og camembertinn. Í þessu tilviki vorum við gráðug og settum 2 sneiðar af skinkunni. Smá græðgi en djöf.. var það gúrmei! Ath. að ef að þið eruð jafn gráðug og við og notið svona þykka borgara, er mjög mikilvægt að hafa hitann í lægri kantinum því þeir þurfa þá að vera frekar lengi á pönnunni. Ekkert töff við brennda borgara að utan en hráa inní.


Ég er þannig að ég vil ekki hita brauðið í ofninum, finnst ekki gott að hafa "ristaðbrauð" með hamborgara svo ég hita það á pönnu.
Brauðin fara á disk, rosa mikil bernes (eða eftir smekk annars) á hvorn helming. Vel af klettasalati á botninn ásamt miklu af hvítlauk og rauðlauk.


Skellir svo kjötinu ofan á salatið og lokar.

Takið út kartöflurnar (allt í allt eiga þær að vera í ofninum í svona 20 mín. Fer þó eftir ofnum og smekk viðkomandi á kartöflum) Saltið eftir smekk og setjið við hlið borgarans.

Þá er þetta svona:


Og svona...Á eftir að ákveða máltíð fyrir næstu viku en það er fátt sem toppar þessa!
Er frekar eftir mig bara!

Teriyaki lax með sesam, salati og kartöflubátum


Uh já, vegna nokkurra áskorana verð ég að setja inn þessa sára einföldu uppskrift. (Ég stal þessari mynd þar sem ég ætlaði ekkert að taka myndir og setja inn færslu...)

Þetta er svona letimatur, sérstaklega af því að ég ætlaði að hafa brún hrísgrjón með en nennti því ekki, ákvað þess í stað að gleyma kartöflum í ofninum.

Var með ofsalega fallegan lax sem ég keypti í Til sjávar og sveita, sjaldan séð eins fallegan eldislax.. Allavega þá penslaði ég smá olíu í eldfast mót. Lagði laxinn (magn eftir smekk og fjölda manns) í mótið með roðið niður. Setti ansi vel af Teriyaki sósu yfir (notaði einhverja ágætis sósu sem ég fékk í Bónus, skiptir örugglega litlu máli hvaðan hún er, hef líka búið til sjálf Teriyaki sósu og það er lítið mál)
Dreifði þar yfir sesamfræjum, magn óráðið en líklega svona tæpur hálfur dl.
Lét þetta marinerast í svona 30 mín.

Skar svo fullt af kartöflum í báta, setti á bökunarpappír, juðaði smá olíu yfir og svo salt og pipar. Inn í ofn á 190°c.

Þegar kartöflurnar voru búnar að vera í ofninum í ca 10-15 mín þá setti ég laxinn inn.
Nýtti þá tímann í að leggja á borð og gera salat. Salatið einfalt: Romaine og iceberg, rauðlaukur, rauð paprika, agúrka og vel af ristuðum sólblóma og graskersfræjum.

Díng!! 15 mín seinna er maturinn til...

miðvikudagur, 6. apríl 2011

Mexíkóskur grænmetis pottréttur með nýrnabaunum og bankabyggiÉg er búin að vera svona hálflasin síðustu daga, ekkert eitthvað að drepast en nóg til þess að mér finnist það hundleiðinlegt og hósta og gelti viðstöðulaust allar nætur.
Mér skilst að í slíkum aðstæðum sé sérlega gott að borða eitthvað heitt, sterkt og með hvítlauk. Þar sem ég komst ekki út í búð og er hvort eðer að spara (já það er aðhalds apríl, bæði í fjármálum og mataræði) ákvað ég að gramsa í skápunum og sjá hvort ég fyndi ekki eitthvað sem ég gæti sameinað í einhversskonar súpu/pottrétt.

Jú, þar sem ég er eins og bóndakona frá miðri síðustu öld og sanka að mér allskonar mat í skápa fann ég ýmislegt. Ég á nú reyndar alltaf chili og hvítlauk í ísskápnum og nýtti það grænmeti sem ég átti til og fann þetta fína bygg og baunir.

Afraksturinn er dásamlegur, bragðmikill og sjúklega hollur réttur. Þetta er svona soldið vetrar en líka gott við kvefi og bara allskonar.

1 msk kókosolía
2 laukar
2 geiralausir hvítlaukar
2 stórar rauðar paprikur
1 stór grænn chili
1/2 blaðlaukur
1/2 kúrbítur
1 stilkur sellerí
1 dós saxaðir tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
2 kjúklingateningar
1 dós nýrnabaunir
1 dl bankabygg
1 tsk hvítlauksduft
2 tsk cumin
salt & pipar
1 l vatn.

Saxið lauk og hvítlauk og mýkið í kókosolíunni (í frekar stórum potti), saxið rest af grænmeti og bætið út í og steikið í smá stund, ca kannski 4 mín. Bætið út í pottinn, vatni, tómötum, púrru, kryddi, teningum, bygginu og baununum.

Þá lítur þetta ca svona út...

Og ef við förum aðeins nær...
Þetta læt ég sjóða við vægan hita í ca 1 klukkutíma, já byggið þarf sinn tíma nefnilega!

Tilbúið komið á diskinn er þetta einhvernveginn svona:

Hvílíkur unaður!!

Svo væri örugglega algerlega gúrmei að skúbba smá sýrðum eða rifnum útá, en þar sem við erum í aðhalds apríl þá sleppum við því í þetta sinn.

Mæli svo með því að vera með hressa aðstoðarkonu, eldhúsverkin verða töluvert skemmtilegri fyrir vikið!Njótið!!